Norðmenn saka íslenska makrílflotann um að hagræða löndunartölum. Einnig segja þeir Íslendinga veiða makríl sem að stórum hluta nýtist ekki nema í mjöl- og lýsisbræðslu.

Norska Fiskeribladet fjallar um þetta og ræðir meðal annars við Audun Maråk, framkvæmdastjóra útgerðarsamtakanna Fiskebåt. Hann ítrekar fyrri yfirlýsingar sínar um að Íslendingar eigi ekki rétt á nema í mesta lagi 4-5% af heildaraflanum, ekki þau 16,5% sem Íslendingar hafa miðað veiðar sínar við.

„Ísland hefur í mörg ár átt erfitt með að veiða upp í kvótana sína sem í raun þýðir óheftar veiðar fyrir allan flotann,“ segir Maråk.

Fiskeribladet ræðir m.a. við Ernu Jónsdóttur, deildarstjóra hjá Fiskistofu, sem segir ekkert hæft í því að löndunartölum sé hagrætt. Hún sé raunar hneyksluð á þeim ásökunum. Auðvelt sé að fletta upp öllum löndunartölum íslenska flotans á heimasíðu Fiskistofu.

„Þetta eru órökstuddar fullyrðingar frá einhverjum Norðmanni,“ segir hún í svari til Fiskifrétta. „Við báðum um gögn sem myndu sýna þessa niðurstöðu en fengum þær upplýsingar að þeir væru ekki með nein gögn.“

Strandríkin sem veiða makríl úr sameiginlegum stofni í Norðaustur-Atlantshafi hafa ekki getað komið sér saman um skiptingu veiðiheimildanna sín á milli, með þeim afleiðingum að árum saman hefur aflinn samtals verið langt umfram ráðleggingar Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Á þessu ári virðist þó hafa verið meiri vilji til þess að ná samkomulagi en áður. Að minnsta kosti hafa verið haldnir fjölmargir aukafundir, sem hingað til hafa þó ekki skilað árangri.