Fiskvinnslum án útgerðar hefur farið fækkandi á undanförnum árum. Ein þeirra sem hefur lifað af erfiða samkeppnisstöðu er Íslenskt sjávarfang í Kópavogi og Þingeyri og heldur uppi atvinnu fyrir um 115 manns. Skattsporið er stórt en Rúnar Björgvinsson framkvæmdastjóri segir samkeppnina skakka.

Fyrirtækið vinnur hérlendis um 9-10.000 tonn af fiski á ári sem keyptur er á markaði eða í  beinum viðskiptum á sama tíma og einstaklingar og fyrirtæki standa fyrir útflutningi á allt að 80  þúsund tonnum á ári af óunnum fiski.

Rúnar segir frjálsum fiskvinnslum hafa fækkað hratt á síðustu árum og nefnir þar til sögunnar gamalgróin fyrirtæki eins og Frostfisk, Toppfisk og Ísfisk, allt vinnslur með um 100 starfsmenn sem hafa lagt upp laupana.  Þetta skrifist að verulegu leyti á reikning útflutnings á heilum fiski sem er óheftur með öllu. Þessi fiskur sé fluttur inn til landa Evrópusambandsins, unninn þar á niðurgreiddum launum í niðurgreiddum vinnslum.

„Við kveinkum okkur ekki yfir samkeppni en okkur finnst að hún eigi að vera á jafnréttisgrundvelli.“

  • Vinnsla á þorskhnökkum með roði.  Mynd/Gylfi Gylfason/Íslenskt sjávarfang

Íslenskt sjávarfang hóf starfsemi 2001 og vissulega tíðkaðist þá útflutningur á óunnum fiski en Rúnar segir umfangið aldrei hafa verið í líkingu við það sem nú á sér stað. Á síðustu árum hafi þessi útflutningur stóraukist og sjái ekki fyrri endann á því.

Niðurgreiddar vinnslur

„Þetta hefur gerst mjög hratt. Það má skipta þessum markaði upp í þrennt. Í fyrsta lagi eru þeir sem eru með sína eigin útgerð og fá hráefnið þar af leiðandi á verðlagsstofuverði. Í öðru lagi eru það þessar frjálsu vinnslur sem fá allt sitt hráefni á markaðsverði. Í þriðja lagi er það útflutningur á heilum fiski. Frjálsu vinnslurnar eru því annars vegar að keppa við verðlagsstofuverð og hins vegar við niðurgreiddar vinnslur í Evrópusambandinu. Þetta er ekki alveg það sem er kallað „fair play“ á erlendri tungu. Manni þætti því ekki óeðlilegt að samkeppnisstaðan yrði á einhvern hátt jöfnuð. Vinnslan okkar  er að greiða um einn milljarð króna í laun á ári. Gámaútflytjendurnir eru að greiða frá 20 og upp í 80 milljónir í laun á ári og eru kannski að höndla með jafnmikið hráefni og við og jafnvel meira. Það blasir því við að það fylgir því mikið þjóðhagslegt tap að flytja allan þennan fisk óunninn úr landi,“ segir Rúnar.

Rúnar segir að úflutti fiskurinn komi svo á markað allt að sex dögum eldri í beinni samkeppni við fisk sem unnin er hér á landi og meira að segja seldur sem íslensk afurð. Það megi því einnig velta því upp hvaða áhrif þetta geti haft á margra áratuga markaðsstarf sem unnið hafi verið í kringum íslenskar sjávarafurðir. Sú hætta sé fyrir hendi að sú ímynd sem dregin hafi verið upp af gæðum íslenskra sjávarafurða gjaldi þessarar erlendu samkeppni.

Kvótaálag á árum áður

„Ég segi bara að það á að jafna leikinn. Það er hægt að reikna út hver þessi samkeppnishalli er og þann halla þarf að jafna. Á árum áður var það gert með kvótaálagi. Þá var lagt á 10% útflutningsálag á þann fisk sem var fluttur út óunninn.  Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að í stað þess að refsa þeim sem flytja út óunninn fisk, eigi að umbuna þeim sem vinna fiskinn heima, bæði vinnslum og útgerðum.  En aðalatriðið er að stjórnvöld viðurkenni vandamálið áður en þau fara að leita leiða til þess að leysa það. Meðan menn hafa engar áhyggjur af stöðunni er tilgangslaust að leita einhverra leiða til að leysa málið,“ segir Rúnar.

Hann kveðst ekki geta skýrt kyrrstöðuna í þessu máli með öðrum hætti en þeim að þau öfl sem búi yfir kvóta séu yfirsterkari. Rödd fiskvinnslu án útgerðar heyrist einfaldlega ekki nógu hátt.

  • Allt á léttu nótunum í vinnslunni á Þingeyri þar sem vinna um 25 manns. Mynd/Gylfi Gylfason/Íslenskt sjávarfang

Íslenskt sjávarfang hefur komist í gegnum ójafna samkeppnisstöðu með því að marka sér stöðu með gæðaafurðir á hæst borgandi mörkuðum. Afurðirnar fara inn á flesta markaði Evrópu og einnig til Bandaríkjanna. Afurðaflóran er breið og vöruliðirnir eru um 200 talsins. Fyrirtækið sérhæfir sig í þremur tegundum, þ.e. þorsk, ýsu og ufsa. Algengasta varan er þorskhakkar í öllum stærðum, með roði og roðlausir og sama á við um þorskflökin sem eru skorin á ýmsan máta. Vinnslan þjónustar kúnnann nákvæmlega eftir óskum hans. Íslenskt sjávarfang selur sjálft sínar afurðir en einnig í gegnum sölufyrirtæki.

„Þessi óhefti útflutningur á heilum fiski er því ekki einungis að koma í bakið á vinnslunum heldur sölufyrirtækjunum líka. Þau finna fyrir þessu.“

Útflutningur þrýstir upp verði

Rúnar segir samkeppnina við gámaútflutninginn eiga sinn þátt í háu fiskverði um þessar mundir. En þetta er eins og að pissa í skóna, til lengri tíma litið lækkar verðið þegar kaupendum fækkar.  Reynt er að mæta þessu með afurðaverðinu sem einnig er  hátt. Öll ferskfiskvinnslan er í Kópavogi og allar afurðirnar á Þingeyri fara í frystingu. Þar eru afurðir unnar beint inn á verslanakeðjur í Bandaríkjunum, meðal annars bitar í lofttæmdum umbúðum, merktir verslanakeðjunum. Þetta eru vörur sem fara á hæsta verði. 90 manns vinna við vinnsluna í Kópavogi og um 25 manns á Þingeyri. Þessi mikli starfsmannafjöldi helgast að ákveðnu leyti af því að Íslenskt sjávarfang hefur valið þá leið að búa vinnsluna ekki með vatnskurðarvélum eins og algengt er orðið í mörgum fiskvinnslum. Við teljum okkur ná betri hráefnisnýtingu með þessu móti sem skiptir miklu máli þegar hráefniskostnaðurinn er um 60% af heildar rekstrarkostnaðinum. Rúnar segir að lengi vel hafi það verið þumalputtaregla að hráefniskostnaður mætti ekki fara yfir 50%.

Í heildina eru unnin 9-10 þúsund tonn af bolfiski á ári hjá Íslensku sjávarfangi sem er rétt rúmlega 10% af því sem flutt er út árlega af óunnum fiski. Helmingurinn af hráefninu kemur frá föstum viðskiptum mest við togarann Frosta ÞH frá Grenivík og annað er keypt á markaði. Þessi föstu viðskipti við Frosta hafa staðið yfir í tíu ár og segir Rúnar úrvalshráefni berast frá honum.

  • Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóri. Mynd/Gylfi Gylfason/Íslenskt sjávarfang

„Með þessu móti, að einbeita okkur að betur borgandi mörkuðum, lifum við þetta af. En það þarf að huga að þessu á hverjum einasta degi. Það er ekki endalaust þol gagnvart afurðaverðshækkunum. Ég man þá tíma þegar tegundir eins og tilapia seldist í gríðarlegu magni. En þegar dró saman með tilapia og öðrum hvítfiski í verði náði hvítfiskurinn yfirhöndinni. En auðvitað er hættan sú með miklum afurðaverðshækkunum að þessar tegundir ryðji aftur villtum fiski út af borðinu. Stríðið í Úkraínu virðist hafa leitt til þess að eftirspurn eftir íslenskum fiski hefur aukist. Mikið af fiski sem kom frá Rússlandi er farið út af markaðnum þótt umtalsvert magn fari ennþá bakdyramegin inn.“