Snæfell EA 310, frystitogari Samherja, kom til Akureyrar sl. laugardag. Samherji keypti skipið af Framherja í Færeyjum fyrr á árinu. Ýmsar endurbætur voru gerðar á skipinu í kjölfar kaupanna, sem aðallega er ætlað að stunda veiðar á grálúðu og karfa.

Skipið sem var smíðað í Noregi árið 1994 er 85 metra langt og 2,898 brúttótonn. Samið var um endurbæturnar við Orskov Yars skipasmíðastöðina í Fredrikshavn í Danmörku.

Vinnslulínan var endurnýjuð, vistarverur voru að stórum hluta endurgerðar og einnig sameiginleg rými. Rafeindahluti í brú var endurnýjaður að mestu leiti. Skipt var um loftræstikerfi og ýmiss búnaður í vélarrúmi var uppfærður. Þá var skipið málað, bæði að innan og utan.

Samtals tóku þessar breytingar í Danmörku liðlega þrjá mánuði.

Ráðgert er að Snæfell haldi til veiða síðar í vikunni. Átján menn verða að jafnaði í áhöfn. Skipstjóri í fyrsta túr verður Pálmi Hjörleifsson og yfirvélstjóri Óli Hjálmar Ólason. Stefán Viðar Þórisson verður skipstjóri á móti Pálma.

Lengt um 18 metra

Skipið var á sínum tíma smíðað fyrir útgerðarfélagið Hrönn hf. á Ísafirði og hét þá Guðbjörg ÍS. Hrönn hafði lengi gert út aflaskip með sama nafni undir stjórn Ásgeirs Guðbjartssonar skipstjóra. Tveimur árum eftir sameiningu Hrannar og Samherja 1997 seldi Samherji skipið án aflaheimilda til þýska fyrirtækisins Deutsche Fischfang Union sem var 99% í eigu Samherja. Samherji keypti það nokkrum sinnum og seldi aftur á árunum 2002 til 2007. Á þessum árum var skipið lengt um 18 metra og um tíma gert út undir nafninu Baldvin Þorsteinsson EA. Það var selt til Framherja í Færeyjum árið 2013 og hét þá Akraberg. Samherji á þriðjungshlut í Framherja.

Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri og Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri og Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fiskifréttir sögðu frá kaupunum á skipinu 21. maí sl. Þá sagði Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja: „Við höfum gert þetta skip út áður. Við þekkjum það ágætlega,“ segir Kristján.