Fiskvinnslufyrirtækið Golden Seafood Company í Hafnarfirði er í samstarfi við heildsölu- og dreifingarfyrirtækið Adri & Zoon í Hollandi með möguleika á sameiningu fyrirtækjanna í náinni framtíð. Adri & Zoon er eitt stærsta dreifingafyrirtæki á sjávarafurðum í Hollandi og selur sjávarafurðir jafnt í verslanakeðjur og veitingastaði um víða veröld. Golden Seafood er í eigu bræðranna Mikaels og Símonar Símonarsona.

Hráefnið til vinnslunnar í Hafnarfirði er að stórum hluta keypt á markaði en einnig hafa þeir bræður leigt kvóta og samið við aðra um að veiða hann. Leiguverðið hefur legið frekar hátt og margt bendir til að það fari hækkandi miðað við framboð og eftirspurn. Adri & Zoon hefur nú um nokkurt skeið keypt allar afurðirnar og hefur verð á aðföngum því minni áhrif á rekstur Golden Seafood en ætla mætti.

Úr saltfiski í ferskan

Golden Seafood var stofnað árið 2002 og var áður að langmestu leyti í saltfiskframleiðslu. Nú hefur það alfarið snúið sér að ferskfiskframleiðslu. Mikael segir miklar og tíðar verðbreytingar á fiskmörkuðum en söluverð til kaupandans í Hollandi tekur fullt mið af verðlagsbreytingunum innanlands. Fyrirtækið sérhæfir sig í vinnslu á stórum fiski sem er umtalsvert dýrari á markaði en smærri fiskur en er um leið mannaflsparandi fyrir vinnsluna.

„Þetta er hægt í ferskfiskvinnslu en ekki í frystingu eða saltfiskvinnslu þar sem gefa þarf upp verð til næstu þriggja mánaða og standa við það. Það eru nánast eingöngu sjávarútvegsfyrirtæki sem eiga kvóta sem geta staðið í frystingu eða saltfiskvinnslu,” segir Mikael. Þetta þekkir hann af eigin raun því fyrirtæki þeirra var í saltfiskframleiðslu frá 2008 til 2016. Mikael segir það taka allt að 60 daga fyrir greiðslur að berast frá því fiskur kemur í hús þar til hann hefur verið unninn í salt og seldur. Greiðslur berast strax einni til tveimur vikum eftir afhendingu á ferskum fiski eða eftir samkomulagi.

  • Bræðurnir Mikael og Símon Símonarsynir hafa rekið Golden Seafood í Hafnarfirði í 16 ár. Mynd/gugu

Afurðirnar eru slægður, hausaður og flakaður þorskur að langmestu leyti en þó líka ufsi, ýsa, karfi og slægður skarkoli. Um er að ræða tvo til þrjá gáma á viku af hausuðu, slægðu og flökuðu sem fer sjóleiðis og einn gám á viku af flökuðum fiski í flug. Adri & Zoon vinnur síðan hráefnið áfram fyrir neytendamarkaði. Síðastliðinn þrjá og hálfan mánuð hefur Golden Seafood unnið úr 1.500 tonnum af fiski upp úr sjó. Mikael segir að með samstarfinu með Adri & Zoon sé stefnt að því að vinna úr 4.500-6.500 tonnum á ári sem er umtalsverð aukning frá því sem áður var.

Meiri gæði

Mikael og Símon eru með tæplega 20 ára reynslu af framleiðslu, sölu og markaðssetningu sjávarafurða og hafa unnið að fjölmörgum verkefnum, m.a. með Íslandsstofu í markaðssetningu fyrir saltfisk í Suður-Evrópu og einnig fyrir Íslenskar sjávarafurðir í Bandaríkjunum og Kanada. Verkaskiptingin hjá þeim er sú að Símon sinnir samskiptum við birgja og Adri & Zoon í Hollandi og Mikael stýra vinnslunni þar sem starfa 25 manns og sinnir gæðamálum.

  • Slægður og hausaður er fiskurinn ísaður í kör og geymdur í kæligeymslu þar til hann fer í skip. Mynd/gugu

Hann segir að ástæðan fyrir því að Adri & Zoon hafi gengið til liðs við Golden Seafood séu sameiginleg markmið fyrirtækjanna, m.a. að allur fiskur sé unninn á Íslandi til að tryggja gæði hráefnisins til neytenda erlendis. Þetta hefur alltaf verið markmið Golden Seafood, sem vill auka störf á Íslandi og viðhalda jákvæðri ímynd íslenskra sjávarafurða. Áður en til samstarfsins kom hafði Adri & Zoon keypt óunninn fisk í gegnum útflytjendur sem stunda ekki fiskvinnslu, m.a. af stærstu kaupendum á íslenskum fiskmörkuðum.

Mikael segir það rýra gæði fisksins þegar hann er fluttur út heill og óunnninn auk þess sem fjárhagslegur ávinningur skilar sér ekki innanlands. Ekki má gleyma að með því að vinna fiskinn á Íslandi sparast töluvert kolefnisspor í flutningum.

„Markmiðið er að vinna sem mest af fiski hér á landi og lágmarka eða jafnvel þurrka út útflutning á hausuðum og slægðum fiski hjá okkur,” segir Mikael.