Vel gekk á vetrarvertíð á Háey I ÞH sem GPG Seafood á Húsavík fékk afhenta nýja frá Víkingbátum í desember á síðasta ári,  þrátt fyrir að eitt og annað hafi þurft að laga og snurfusa eins og gengur og gerist í nýjum bátum. Skipstjórinn er Sævar Þór Ásgeirsson. Hann á að baki athyglisverðan feril við fiskveiðar nyrst í Noregi.

Það voru síðustu róðrarnir á vetrarvertíð en Háey lá inni í Grindavíkurhöfn vegna veðurs og smávægilegrar bilunar. Sævar tók vel á móti blaðamanni og bauð upp á kaffi niðri í messa í bátnum sem hann tók við nýjum í desember í fyrra. Hann fæddist í Keflavík en á ættir að rekja til Flateyrar þaðan sem föðurættin er. Átta ára gamall var hann farinn að fara vestur til afa síns á skak. Það situr ljúft í minningunni og þar náði veiðibakterían að setjast að í Sævari. Faðir hans, Ásgeir Magnússon, býr í Hafnarfirði. Hann var lengi skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni II GK og Þorsteini GK, svo tvö skip séu nefnd. Sævar náði því að vera stýrimaður með föður sínum skipum sem hann stjórnaði í nokkur ár.

Háey I er fallegur bátur sem hér er að koma inn til löndunar í Grindavík.
Háey I er fallegur bátur sem hér er að koma inn til löndunar í Grindavík.
© Jón Steinar Sæmundsson (Jón Steinar Sæmundsson)

Í sjávarútvegsfræði og fiskeldi

Eftir tíunda bekk í grunnskóla hófst má segja sjómannsferill Sævars þegar hann réði sig sem háseta á Hrugnir GK á línu og ufsanet. Þaðan lá leiðin yfir á Sighvat GK á línu. Sævar var 18 ára þegar hann hóf nám í Stýrimannaskólanum á Dalvík. Námið tók tvö ár og í skólaleyfum fór hann til sjós. Eftir námið réði hann sig sem annan stýrimann á Háberg EA sem Samherji gerði út m.a. á loðnu- og síldveiðar. Þegar Háberginu var lagt réði hann sig sem afleysingastýrimann á Sævík GK sem Vísir gerði út. Í nokkur ár var hann afleysingaskipstjóri hjá föður sínum á Þorsteini GK á humar- og fiskitrolli og netum á vertíðum. Þar hófst skipstjóraferill Sævars þegar hann var 23 ára gamall. 2007 var Þorsteinn GK seldur og fluttist Sævar þá norður til Akureyrar og hóf nám í sjávarútvegsfræði og fiskeldi í Háskólanum á Akureyri. Á sumrin var hann á Þorsteini ÞH sem HÞ á Þórshöfn gerði út, meðal annars í Síldarsmuguna.

„Ég man að ég fór á sjó eftir sjómannadaginn og kom ekki heim fyrr en í september og skólinn var meira að segja byrjaður. Við lönduðum í skip úti á sjó og alls voru þetta um þrír mánuðir. Þetta endaði þannig að við misstum leiðarann í skrúfuna og það kom upp eldur í vélarrýminu úti í Síldarsmugu. Vélstjóranum tókst að kæfa eldinn en við vorum á reki vélarvana í á annan sólarhring í brjáluðu veðri þar til við vorum dregnir í land til Þórshafnar á Langanesi,“ segir Sævar.

Til Noregs

Meðfram sjávarútvegs- og fiskeldisfræði vann Sævar við þorskeldi á vegum ÚA á Akureyri. Lokaverkefni hans í háskólanum fjallaði um þorskeldi. Fljótlega eftir útskrift tók hann að sér að stýra eldinu og var stöðvarstjóri í tvö ár, 2008 og 2009. Eldið gekk ekki sem best og stuttu eftir að það komst í eigu Brims var tekin ákvörðun um að hætta því. Sævar var því farinn að leita eftir nýjum tækifærum og sá að auglýst var eftir skipstjóra á lítinn línubát í Noregi. Þetta var Seiglubátur sem hét Solberg og var útgerðin í samstarfi við GPG á Húsavík. Báturinn hafði verið smíðaður í samstarfi GPG og Norðmannsins Uve Jensen en útgerðin gekk eitthvað brösuglega og hafði Uve keypt bátinn og farið að gera út sjálfur

Sævar hélt utan í febrúar 2009 og hluta af áhöfninni fékk hann með sér frá Íslandi. Þeir voru á veiðum í mánuð í senn og gekk ágætlega. Ekki var nema 40 tonna þorskkvóti á bátnum en veiðar á ýsu og öðrum tegundum voru frjálsar. Sævar segir að menn hafi þó haft ágætt upp úr þessu.

„Um vorið fórum við að veiða steinbít. Það var mokveiði, 8-10 tonn í lögn. En við urðum að slægja hann og hausa og helst skafa röndina innan úr honum til þess að losna við hann. Þetta gerðum við bara. Eftir túr fórum við upp á bryggju í 6-7 tíma slægingu. Vinnslan neitaði að taka við fisknum nema þetta væri gert.“

Hann segir þetta hafa verið lensku í Noregi á þessum tíma, sérstaklega rétt eftir bankahrunið. Fiskkaupendur áttu í miklum fjárhagslegum erfiðleikum  og minni útgerðaraðilar hafai komið vinnslunni upp á það að þeir slægja og hausa úti á sjó. Það þekktist ekki að einyrkjarnir lönduðu óslægðu í Noregi á þessum tíma

„Hjá okkur gildir að veiða og veiða meira en þarna er þetta meira eins og hobbý. Þeim nægir að eiga fyrir salti í grautinn. Ég sá það strax þegar ég kom út að Norðmenn eru ekki svona ruglaðir eins og við.“

Á Sögu K

Það hefur lengi loðað við þorskveiðar í Noregi að nánast allur kvótinn er tekinn á örfáum mánuðum á vertíðinni ólíkt því sem tíðkast á Íslandi þar sem hann er veiddur allt árið. Sævar kveðst þó hafa orðið var við miklar breytingar á þessu sviði þau ár sem hann var í Noregi og hann telur líklegt að íslenskur sjávarútvegur hafi haft sín áhrif í þá átt.

Sævar hætti á Solberg eftir átta mánuði og réði sig til útgerðarfélagins Eskøy AS í Tromsø sem rekið var af Íslendingum, þeim Bjarna Sigurðssyni og bræðrunum Hrafni og Helga Sigvaldasonum. Gerðu þeir út bátana Sögu K og Ástu B. Sævar tók við skipstjórn Sögu K. Það blés þó ekki byrlega í upphafi því sá sem stóð vaktina sigldi bátnum upp í fjöru sem vakti Sævar af værum blundi í koju sinni. Lítilsháttar leki kom að bátnum en hann náðist á flot og var lagfærður. Seinna var Hrafn úti fyrir Honningsvag á Sögu K þegar brot kom á bátinn. Áhöfninni var bjargað í þyrlu og björgunarskip tók bátinn í drátt. Svo óheppilega vildi til að komið var að vaktaskiptum hjá björgunarsveitarmönnum. Þeir þurftu því að fara í land og skildu bátinn eftir laskaðan á reki. Þegar næsta vakt mætti til björgunaraðgerða fann hún ekki bátinn. Kallað var til stærra skip sem svo fann bátinn og dró hann í land með kjölinn upp. Báturinn var gerður upp og er nú í drift hjá öðrum aðilum. Eskoy létu í framhaldinu smíða nýja Sögu K hjá Seiglu á Akureyri, 15 metra bát sem þá var stærsti plastbáturinn sem hafði verið smíðaður á Íslandi. Sævar, Ásgeir bróðir hans og Helgi Sigvaldason sigldu henni frá Akureyri til Tromsø rétt fyrir jólin 2011.

Saga K, báturinn sem Sævar Þór réri á í Noregi. Mynd/Þorgeir Baldursson
Saga K, báturinn sem Sævar Þór réri á í Noregi. Mynd/Þorgeir Baldursson

Ævintýralegt ýsumok

Fyrsta mánuðinn veiddi Saga K rúmlega 200 tonn rétt fyrir utan Havøysund á 32.000 króka, mest ýsu. Þetta voru um 15 tonn á dag að meðaltali þá daga sem var róið.

„Það var ævintýralegt ýsumok þarna á grunnslóð og við máttum taka eins mikið af henni og við vildum. Núna hefur ýsugegnd minnkað talsvert og þorskgegnd aukist og þar með hafa skilyrði til útgerðar breyst. Þetta hefur meðal annars leitt til brottkasts,“ segir Sævar.

Kerfið er engu að síður þannig uppsett í Noreg að þorskur má vera allt frá 20 og upp í 50% af meðafla með öðrum tegundum eftir tíma ársins. Þannig mátti bátur sem var t.d. á steinbíts- eða ýsuveiðum og fékk tíu tonn fara innan sömu viku og taka 2 og upp í 5 tonn af þorski. Kerfinu er beitt til stuðnings landsbyggðinni og sérstaklega í Norður-Noregi þar sem Sævar segir að erfitt geti verið að fá menn til að stunda sjóinn í myrkrinu sem þarna er yfir vetrartímann. Á þessu svæði er líka svokallaður „Finnmerkurafsláttur“ sem er skattafsláttur til þeirra sem starfa þar. Þar að auki er þarna sjómannaafsláttur sem munar mikið um tekjulega. Fyrstu árin var Sævar í um 25% skattaþrepi en var svo kominn upp í 35% síðasta árið þegar hátekjuskattur bættist við.

Uppgangur hjá Eskøy

Þarna tók Sævar þátt í miklum uppgangi hjá Eskøy útgerðinni. Í Sögu K var krapakerfi og hæstu verð fengust ávallt fyrir fiskinn. Vinnslurnar voru ánægðar með gæðin. Það var farið um flesta firði að veiða og selja fisk, allt frá Myre norður til Kirkenes skammt frá landamærunum að Rússlandi. Stundum sló í brýnu milli Íslendinganna og norskra sjómanna því krókarnir á Sögu K voru margir. Haft var eftir norsku sjómönnunum að Íslendingarnir væru að hreinsa upp fiskinn af grunnslóðinni og var Saga K kölluð „ryksugubáturinn“.

Aðstæður til veiða í Norður-Noregi eru oft erfiðar - ísing er eitt af því sem sjómenn þurfa oft að glíma við. Aðsend mynd
Aðstæður til veiða í Norður-Noregi eru oft erfiðar - ísing er eitt af því sem sjómenn þurfa oft að glíma við. Aðsend mynd

„Það andaði stundum köldu í okkar garð frá ákveðnum hópi norskra sjómanna sem nenntu ekki sjálfir að fara á sjó. Þeir töluðu ekki við okkur heldur göspruðu bara í blöðin. Gasprið varð stöðugt háværara. Í brælum vorum við að fara inn í firðina og oft inn í botn þeirra og vorum þar í fínni veiði á þorski, lúðu og ýsu. Við vorum bara að bjarga okkur og það var opið fyrir þessar veiðar. Það fór svo að lokum að lokað var fyrir þessar veiðar og dreginn upp fjarðarlína sem við máttum ekki fara innfyrir með línuna. Suður við Myre eru langir firðir og þangað fórum við stundum á sumrin til að veiða keilu. Engir höfðu farið þarna um lengi með veiðarfæri nema kannski einhverjir skakarar. Þarna hittum við á bletti þar sem voru tröllvaxnar keilur og löngur. Við fylltum bátinn með 20-25 tonnum af keilu og löngu í tveimur lögnum. Allt utan kvóta. Þetta gerðum við nokkur sumar og fengum fín laun. Svo góð voru launin að við nenntum oft ekki að sækja 20 tonna grálúðukvótann sem við fengum á hverju ári. Í staðinn fórum við tvo túra í keilu og fengum allt upp í 50 tonn í stað 20 tonna af grálúðu í vikutúr lengst úti í kanti.“

Myrkur allan sólarhringinn

„Þetta er á 71° en það venst að vera þarna. Það er myrkur þarna allan sólarhringinn í desember, janúar og fram í febrúar að undanskilinni örlítilli skímu í hádeginu. Maður veit í raun ekki hvort það sé dagur eða nótt. Eins gat verið rosalegur kuldi og ísing þarna á veturna og þurftum við þá að fara varlega. Norðmennirnir fóru helst ekki á sjó þegar pólarlægðirnar gengu yfir. Þeir töldu okkur ruglaða að vera að róa í slíkum veðrum. En sumrin og haustin bættu þetta upp með miðnætursól og oft einstaklega fallegu veðri. Má eiginlega segja að veðrið þarna sé sambærilegt veðrinu hér heima en öfgarnar eru mun meiri.“

Sævar Þór í sínu náttúrulega umhverfi - á bryggjunni með góðfisk í lúkunum. Mynd/Þorgeir Baldursson
Sævar Þór í sínu náttúrulega umhverfi - á bryggjunni með góðfisk í lúkunum. Mynd/Þorgeir Baldursson

Fyrst var róið í þrjár vikur og svo haldið heim til Íslands í þrjár vikur. Svo breyttist það í mánaðarlöng úthöld. Undir það síðasta var Sævar einn orðinn skipstjóri á Sögu K og réri í sex vikur og fór heim í þrjár vikur. Þess á milli var bátnum lagt. Sumarið 2019 fannst Sævari nóg komið og kom heim og fór beint á strandveiðar. Þá hafði hann stundað sjóinn við Noregsstrendur í tíu ár. Hann segir að fyrir fjölskyldu sína hafi þetta sennilega verið svipuð upplifun og hefði hann verið sjómaður á frystitogara á Íslandi. Hann ætlaði í land og vinna helst við sjávarútveg eða fiskeldi sem hann er menntaður til en fátt var í boði. Hann réði sig á Gísla Súrsson GK og var þar í eitt og hálft ár þar til hann tók við Háey I í desember 2021.

Þegar Sævar var kominn heim seldi Eskøy Sögu K sem nú heitir Austhavet. Þeir Hrafn og Helgi gera nú út tvo stærri báta, Valdimar H sem áður var Kópur GK og Tryggve B. Í apríl 2021 keypti Samherji 40% í Eskøy og fyrir átti fyrirtækið 39,9% hlut í útgerðinni Nergard.