Eins og fram kom í Fiskifréttum 2. október skoða Faxaflóahafnir nú kaup á nýjum dráttarbáti sem gengur fyrir rafmagni. Er fréttinni var deilt á Facebooksíðu Fiskifrétta lýstu fjölmargir lesendur efasemdum um þessi áform.
Gísli Jóhann Hallsson yfirhafnsögumaður, sem mætti á stjórnarfund hjá Faxaflóahöfnum í september þar sem rætt var um möguleg kaup á nýjum dráttarbáti knúnum grænum orkugjafa, segir að fyrir utan rafmagn komi orkugjafar eins og vetni til álita.
„Það var samþykkt fjárhagsáætlun með kaup á nýjum dráttarbát inni í henni og nú erum við bara að skoða. Bátur sem er knúinn fyrir batteríi og er svo með ljósavél sem bakköp kostar tvöfalt á við venjulegan bát,“ segir Gísli.
Áratugi að spara mismuninn
Þarna sé þá verið að áætla um tvo milljarða króna annars vegar fyrir rafknúinn bát og hins vegar einn milljarð króna fyrir bát knúinn jarðefnaeldsneyti. Gert sé ráð fyrir þessum tveimur milljörðum króna í fjárhagsáætlun fyrir árin 2025 til 2027.
„Þetta eru mjög grófar tölur. Þetta er bátur og hleðslustöð. Hún kostar eitthvað líka,“ segir Gísli.
En má ekki gera ráð fyrir að fyrir utan jákvæð umhverfisáhrif að sparnaður náist í olíukaupum? „Já, en það eru þó ansi margir áratugir sem þarf til að ná þúsund milljónum,“ svarar Gísli.
Varðandi reynslu annars staðar frá segist Gísla meðal annars vita til að rafknúinn dráttarbátur hafi verið seldur frá Hollandi til Nýja-Sjálands og að Tyrkir hafi smíðað batterísbáta.
Allt að 75 tonna toggeta
„Þetta kemur allt í ljós þegar við þurfum að bjóða út. Við miðum við að fá bát á næstu þremur árum. Nú erum við að vega og meta kostina við það að kaupa grænan bát miðað við venjulegan bát,“ segir Gísli og bendir á í því samhengi að til standi að færa aðstöðu dráttarbáta inn á Skarfabakka. „Það mun spara olíu líka því að það er drjúgur hluti af verkefnum sem er þar inn frá. Þá spörum við siglinguna fram og til baka.“
Spurður hvort rafknúnir dráttarbátar séu ef til vill alveg ómögulegir eins og sumir vilji meina tekur Gísli fram að hann sé enginn sérfræðingur í grænum bátum. Varðandi getu þeirra nefnir hann sem dæmi Sparky dráttarbát frá Damen skipasmíðastöðinni í Hollandi sem seldur var til Nýja-Sjálands sem fyrr segir. Sá bátur hafi sextíu tonna togkraft. Fá megi rafmagnsbáta upp í 70 eða 75 tonn. Til samanburðar er toggeta dráttarbátsins Magna 85 tonn.
Ekki alslæmt
„Þeir tala um að hann geti sinnt tveimur hafnarverkefnum en gefa ekki nákvæmlega tímann. Maður gefur sér að það séu tvær til fjórar klukkustundir sem hann gæti unnið á hleðslunni við að ýta á töluverðu álagi. Þá þarf að hlaða hann,“ segir Gísli og bendir á að ef batteríin klárist missi báturinn ekki afl heldur falli toggetan.
„Ljósavélarnar keyra þá rafmagn inn á vélbúnaðinn og þá minnkar aflið um einn þriðja og fer úr sextíu tonnum niður í fjörutíu tonn. Svo er komið í land og þá tekur kannski einn og hálfan tíma að hlaða upp í fulla hleðslu. Þannig að þetta er nú kannski ekki alslæmt.“