Betri markaðsaðgangur fyrir fisk og sjávarafurðir var í forgrunni viðræðna Guðlaugs Þór Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, við æðstu stjórnendur Evrópusambandsins í gær.

Guðlaugur Þór átti fundi með Josep Borrell, utanríkismálastjóra ESB, Valdis Dombrovskis, viðskiptamálastjóra ESB, Virginijus Sinkevičius, framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála ESB og Janusz Wojciechowski, framkvæmdastjóra landbúnaðarmála ESB.

„Ég hef lagt áherslu á að Ísland njóti betri markaðsaðgangs fyrir fisk og sjávarafurðir sem eitt nánasta samstarfsríki sambandsins,” segir Guðlaugur Þór í tilkynningu.

„Ég er ánægður með að Evrópusambandið sé reiðubúið að hefja viðræður við okkur um þetta. Ísland vinnur náið með ESB og aðildarríkjum þess á grundvelli EES-samningsins og okkar sameiginlegu gilda og það hlýtur að vera okkur öllum í hag að sanngirni ríki í viðskiptum okkar í milli,” segir Guðlaugur Þór jafnframt.

Tilgangur þessara funda var að sækjast eftir frekari tollfrjálsum aðgangi fyrir sjávarafurðir í tengslum við viðræður EES/EFTA-ríkjanna og ESB um framlög til Uppbyggingarsjóðs EES á næsta starfstímabili 2021-2027.