Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra heimsótti Íslensku sjávarútvegssýninguna sem nú er haldinn í þrettánda skipti í Fífunni í Kópavogi.

Í heimsókninni gafst matvælaráðherra tækifæri til að kynna sér starfsemi íslenskra og erlendra fyrirtækja en sýningin var formlega opnuð á miðvikudag af Benedikt Árnasyni ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins.

„Það er í senn ánægjulegt og hvetjandi að sjá þann vöxt og þá miklu nýsköpun sem á sér stað í sjávarútvegi. Fullnýting afurða og sú verðmætaaukning sem henni fylgir sýnir glöggt að íslenskur sjávarútvegur er samkeppnishæfur og í fremstu röð á heimsvísu“ sagði matvælaráðherra en jafnframt sagði Svandís við verðlaunaafhendingu Íslensku sjávarútvegssýningarinnar að nýsköpun í sjávarútvegi hafi verið styrkt með framlögum úr hinum ýmsu sjóðum í gegnum tíðina, þar á meðal auknum fjárveitingum ríkisins til málaflokksins hin seinustu ár. Hlúa verði að nýsköpun með því að skapa heppilegt umhverfi, þar sem frumkvöðlar geti reynt nýjar hugmyndir og fyrirtæki hafi kjark og þor til að prófa þær og hrinda þeim í framkvæmd.

„Við sem stýrum pólitískri stefnumótun á þessu sviði verðum sömuleiðis að leggja fram þá framtíðarsýn og löggjöf sem færir okkur til móts við aukna nýsköpun og þróunarstarf,” sagði Svandís ennfremur.

Verðlaunin endurspegla lifandi atvinnugrein

Hún fór lofsamlegum orðum um þá sem hlutu Verðlaun Íslensku sjávarútvegssýningarinnar 2022 og bætti við: „Verðlaunahafarnir sýna vel hversu líflegur og hugmyndaríkur sjávarútvegsiðnaðurinn getur verið, snöggur að bregðast við nýjum áskorunum og stöðugt að keppast við að auka verðmætasköpun í greininni.

Ráðherrann sagði að kóvíd-faraldurinn hefði undirstrikað rækilega mikilvægi sjávarútvegarins fyrir íslenska hagkerfið.

„Á sama tíma og margar burðarstoðir hagkerfisins urðu fyrir áföllum hélt sjávarútvegurinn sveigjanleika sínum og færni til að bregðast við nýjum og krefjandi kringumstæðum.

„Samfara því markmiði að ná hundrað prósent nýtingu aflans hafa orðið til nýjar uppsprettur verðmæta, bæði í vinnslu og tækni á borð við vatnshreinsun og ofurkælingu. Tækninýjungar í greininni gera fyrirtækjum kleift að flytja út betri gæðavöru á erlenda markaði.”

Ráðherra minnti á að stöðugt sé verið að finna nýjar og frumlegar leiðir til að nýta sjávarfang og nefndi í því sambandi vinnslu fiskroðs í þágu læknavísinda. Það sé gott dæmi um hvernig nýjar lausnir skapa ný verðmæti.

Stefnt að sjálfbærri stýringu

„Lykillinn að velgengni er samt sem áður að stefna að sjálfbærri stýringu þessarar lífsnauðsynlegu auðlindar. Við höldum í dag upp á Alþjóðadag hafsins, sem minnir okkur á við verðum að finna nýja leið til að nálgast umhverfi hafsins. Af þeim sökum verða allar okkar stóru áætlanir varðandi auðlindir sjávar að byggja á þeirri staðreynd að við megum engan tíma missa,” sagði Svandís.

Benedikt setti sýninguna formlega á miðvikudaginn. Hann benti á að loftlagsbreytingar búi til áskoranir í sjávarútvegi sem bæði atvinnugreinin og stjórnvöld verði að taka höndum saman um til að tryggja að Ísland nái markmiðum sínum á sviði loftlagsmála.

„Íslenska sjávarútvegssýningin skapar mikilvægt tækifæri til að kynna og fylgjast með nýjustu þróun varðandi orkunýtingu í sjávarútvegi, og hvernig skipahönnuðir og skipasmiðir, sem og framleiðendur búnaðar fyrir veiðiskip, eru að bregðast við nýjum áskorunum. Það eru margar áskoranir í þessum geira og stjórnvöld verða líka að tryggja að hagsmuna íslensk sjávarútvegs sé gætt á alþjóðavísu,” sagði Benedikt við það tækifæri.

Um 400 fyrirtæki sýna á Icefish 2022, þar á meðal eru glæsilegir sýningarskálar frá Noregi, Færeyjum, Danmörku og Spáni. Sýningin stendur yfir í þrjá daga og lýkur í dag.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra heimsótti Íslensku sjávarútvegssýninguna sem nú er haldinn í þrettánda skipti í Fífunni í Kópavogi.

Í heimsókninni gafst matvælaráðherra tækifæri til að kynna sér starfsemi íslenskra og erlendra fyrirtækja en sýningin var formlega opnuð á miðvikudag af Benedikt Árnasyni ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins.

„Það er í senn ánægjulegt og hvetjandi að sjá þann vöxt og þá miklu nýsköpun sem á sér stað í sjávarútvegi. Fullnýting afurða og sú verðmætaaukning sem henni fylgir sýnir glöggt að íslenskur sjávarútvegur er samkeppnishæfur og í fremstu röð á heimsvísu“ sagði matvælaráðherra en jafnframt sagði Svandís við verðlaunaafhendingu Íslensku sjávarútvegssýningarinnar að nýsköpun í sjávarútvegi hafi verið styrkt með framlögum úr hinum ýmsu sjóðum í gegnum tíðina, þar á meðal auknum fjárveitingum ríkisins til málaflokksins hin seinustu ár. Hlúa verði að nýsköpun með því að skapa heppilegt umhverfi, þar sem frumkvöðlar geti reynt nýjar hugmyndir og fyrirtæki hafi kjark og þor til að prófa þær og hrinda þeim í framkvæmd.

„Við sem stýrum pólitískri stefnumótun á þessu sviði verðum sömuleiðis að leggja fram þá framtíðarsýn og löggjöf sem færir okkur til móts við aukna nýsköpun og þróunarstarf,” sagði Svandís ennfremur.

Verðlaunin endurspegla lifandi atvinnugrein

Hún fór lofsamlegum orðum um þá sem hlutu Verðlaun Íslensku sjávarútvegssýningarinnar 2022 og bætti við: „Verðlaunahafarnir sýna vel hversu líflegur og hugmyndaríkur sjávarútvegsiðnaðurinn getur verið, snöggur að bregðast við nýjum áskorunum og stöðugt að keppast við að auka verðmætasköpun í greininni.

Ráðherrann sagði að kóvíd-faraldurinn hefði undirstrikað rækilega mikilvægi sjávarútvegarins fyrir íslenska hagkerfið.

„Á sama tíma og margar burðarstoðir hagkerfisins urðu fyrir áföllum hélt sjávarútvegurinn sveigjanleika sínum og færni til að bregðast við nýjum og krefjandi kringumstæðum.

„Samfara því markmiði að ná hundrað prósent nýtingu aflans hafa orðið til nýjar uppsprettur verðmæta, bæði í vinnslu og tækni á borð við vatnshreinsun og ofurkælingu. Tækninýjungar í greininni gera fyrirtækjum kleift að flytja út betri gæðavöru á erlenda markaði.”

Ráðherra minnti á að stöðugt sé verið að finna nýjar og frumlegar leiðir til að nýta sjávarfang og nefndi í því sambandi vinnslu fiskroðs í þágu læknavísinda. Það sé gott dæmi um hvernig nýjar lausnir skapa ný verðmæti.

Stefnt að sjálfbærri stýringu

„Lykillinn að velgengni er samt sem áður að stefna að sjálfbærri stýringu þessarar lífsnauðsynlegu auðlindar. Við höldum í dag upp á Alþjóðadag hafsins, sem minnir okkur á við verðum að finna nýja leið til að nálgast umhverfi hafsins. Af þeim sökum verða allar okkar stóru áætlanir varðandi auðlindir sjávar að byggja á þeirri staðreynd að við megum engan tíma missa,” sagði Svandís.

Benedikt setti sýninguna formlega á miðvikudaginn. Hann benti á að loftlagsbreytingar búi til áskoranir í sjávarútvegi sem bæði atvinnugreinin og stjórnvöld verði að taka höndum saman um til að tryggja að Ísland nái markmiðum sínum á sviði loftlagsmála.

„Íslenska sjávarútvegssýningin skapar mikilvægt tækifæri til að kynna og fylgjast með nýjustu þróun varðandi orkunýtingu í sjávarútvegi, og hvernig skipahönnuðir og skipasmiðir, sem og framleiðendur búnaðar fyrir veiðiskip, eru að bregðast við nýjum áskorunum. Það eru margar áskoranir í þessum geira og stjórnvöld verða líka að tryggja að hagsmuna íslensk sjávarútvegs sé gætt á alþjóðavísu,” sagði Benedikt við það tækifæri.

Um 400 fyrirtæki sýna á Icefish 2022, þar á meðal eru glæsilegir sýningarskálar frá Noregi, Færeyjum, Danmörku og Spáni. Sýningin stendur yfir í þrjá daga og lýkur í dag.