Verið var að setja loðnunæturnar í land úr uppsjávarskipum Brims við veiðarfærageymslur Hampiðjunnar í Sundahöfn fyrr í vikunni eftir einstaklega vel heppnaða loðnuvertíð. Nú gefst stund milli stríða því áhafnir skipanna fá smá pásu yfir páskana áður en næsta törn hefst sem er kolmunnaveiði suður af Færeyjum. Það var létt yfir útgerðarmönnum og sjómönnum enda náðu uppsjávarskip Brims öllum sínum kvóta, alls 56 þúsund tonnum, og þar af voru fryst tæp 12 þúsund tonn af loðnu og hrognum.

Ingimundur Ingimundarson, útgerðarstjóri uppsjávarskipa Brims, var í óða önn að yfirfara skýrslur og stemma bókhaldið af. Hann segir að loðnuvertíðin hafi þróast á þann besta veg sem menn hefðu ímyndað sér að gæti gerst.

„Eins og einn af okkar skipstjórum sagði þá komu tveir bræludagar í mars og það passaði svo vel að loðnan var akkúrat stödd þar sem hægt var að veiða hana. Veðurfarsaðstæður voru eins góðar á þessari vertíð eins og þær voru slæmar í fyrra,“ segir Ingimundur.

Búið að taka loðnunótina úr Víkingi AK sem var með aflahæstu skipum á loðnuvertíðinni. FF MYND/JÓN PÁLL ÁSGEIRSSON
Búið að taka loðnunótina úr Víkingi AK sem var með aflahæstu skipum á loðnuvertíðinni. FF MYND/JÓN PÁLL ÁSGEIRSSON

Hann segir að vissulega hafi viðbótarkvótinn komið seint en veðrið í mars hafi bjargað því með þeim hætti að menn hafi fengið nánast alveg aukaviku á veiðum. Það spili lykilhlutverkið í því að útgerðirnar voru að ná sínum kvóta.

Brim gerði út Venus NS, Víking AK og Svan RE á loðnuveiðarnar en auk þess líka Guðrúnu Þorkelsdóttur SU sem Brim á til helminga á móti Eskju. Brim hefur yfirráðarétt yfir skipinu í febrúar og mars.

11.600 tonn í frystingu

„Við náðum öllu okkar, í heildina 58 þúsund tonn, en við tókum reyndar 2 þúsund tonn fyrir áramót. Af þessu fóru 11.600 tonn í frystingu á loðnu og hrognum. Þetta eru auðvitað heilmikil verðmæti en svo á það auðvitað eftir að koma í ljós hve mikil í raun þau eru. Afurðirnar seljast ekki í einum hvelli enda var mikið framleitt.“

Ingimundur segir að nú taki menn því rólega yfir páskana og svo verði væntanlega haldið suður í höf á kolmunna. Spurnir hafa borist af góðri veiði Norðmanna við Írland. Svo gangi kolmunninn norður eftir og inn í færeyska lögsögu. Það hafi iðulega verið upp úr 10. apríl eða jafnvel fyrr. Svanur, Venus og Víkingur munu halda á þessar veiðar og Guðrún Þorkelsdóttir líka en þó mest þá á vegum Eskju.

Uppsjávarveiðar íslenskra skipa eru nánast farnar að vera óslitnar allt árið og útgerðarstjórinn segir að það liggi við að það sé vandræðum bundið að finna gott viðhaldsstopp fyrir skipin. Venus og Víkingur voru smíðaðir í Tyrklandi og voru teknir í notkun 2015. Skipin hafa reynst vel en þau eru nú komin á áttunda árið. Brim seldi togarann Höfrung III AK til Rússlands árið 2021 og keypti sama ár uppsjávarskipið Iivid af Arctic Prime Fisheries. Það fékk svo nafnið Svanur RE. Skipið var smíðað í Noregi árið 1999 en hefur verið endurbætt að miklu leyti. Ingimundur segir að það sé alltaf verið að spá og spekúlera í skipakostinum en ekki verði annað sagt en að uppsjávarskipin hafi reynst vel.