Fiskifræðingar eru þessar vikurnar að vinna úr upplýsingum úr uppsjávarleiðangri sumarsins, en þriðjungur lífmassa makríls fékkst á aðeins tveimur togstöðvum

Undanfarin tvö ár hefur makríll ekki sést mikið innan íslensku lögsögunnar. Nú bregður svo við að í fjölþjóðlegum uppsjávarleiðangri sumarsins mældist 18.9% af heildarlífmassa makríls innan íslenskrar lögsögu, sem er mun meira en árið 2021 þegar hann mældist aðeins 7,7%.

„Þetta er nærri þreföldun, sem er mikið,“ segir Anna Heiða Ólafsdóttir, sem var leiðangursstjóri á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni.

Þá mældist vísitala lífmassa makríls 7,37 milljónir tonna, sem er 43% hækkun frá árinu 2021 en nálægt langtímameðaltali sem er 7,28 milljónir tonna. Eins og undanfarin ár mældist meirihluti stofnsins í Noregshafi en minna mældist í norðanverðu Noregshafi.

Athygli vekur að þriðjungur reiknaðs lífmassa makríls fékkst úr einungis tveimur togum, annað suðaustur af Íslandi og hitt við vestanverðan Noreg.

„Án þessara tveggja stöðva væri reiknaður lífmassi 2022 svipaður og 2021,“ segir í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar. Og í skýrslu um bráðabirgðaniðurstöður leiðangursins segir að þetta sé jafnframt skýringin á því hve mikil óvissa er í niðurstöðunum.

Anna Heiða segir ekki koma á óvart að mikið hafi fundist af makríl fyrir suðaustan Ísland.

„Það er alltaf mest fyrir suðaustan því þar kemur hann úr Noregshafinu og fer vestur. En það var ein togstöð þarna fyrir suðaustan þar sem fengust 20 tonn í einu stóru togi, og það hefur rosaleg áhrif. Mesti þéttleikinn var þar af leiðandi þar, á þessari einu stöð.“

Hins vegar hafi komið verulega á óvart hve langt hann hafði leitað til vesturs.

„Hann náði alveg vestur fyrir landið og þetta kom okkur á óvart. Engin okkar spáðu þessu, að hann væri að fara svona mikið vestur aftur.“

Stóri fiskurinn fór vestur

Hún segir það samt hafa verið áberandi að fiskurinn sem var að fara vestur hafi verið stór fiskur.

„Þetta var mest 35-41 sentimetra fiskur. Litli makríllinn var ekki þarna. Í suðurhluta Noregshafs og í Norðursjó var miklu meira um lítinn makríl, 28-32 sentimetra, þannig að það er áberandi að stóri fiskurinn er ekki að draga yngri árgangana með sér vestur.“

Leitarsvæðið varð reyndar töluvert stærra í ár en verið hefur. Það skýrist að hluta til af því að Grænlendingar tóku ekki þátt í leiðangrinum á síðasta ári.

„En núna í ár fóru Grænlendingarnir með og tóku norðursvæðið hjá sér, en þeir fengu reyndar eiginlega ekki neitt. Þeir fengu ekki nema fáeina fiska allan leiðangurinn.“

Grænlendingar fengu fyrr á árinu nýtt Hafrannsóknaskip, Tarajoc, búið fullkomnum búnaði til rannsókna og bæði uppsjávar- og botnfiskveiða. Þeir voru í fyrsta sinn að nota þetta nýja skip í uppsjávarleiðangri, og það gekk að sögn Önnu mjög vel.

Fundu núllið sunnar

Hin skýringin á því farið var yfir stærra svæði í ár en síðast er síðan að makríll fannst alveg við línuna sem miðað var við suður af Íslandi, sem er 62,45°, og því var ákveðið að halda lengra í suður.

„Þegar við fáum makríl á mörkunum á svæði þá höldum við áfram. Þá bætum við stöð við sem er jafnlangt í burtu og hinar stöðvarnar, og höldum áfram þangað til við finnum núllið. Þess vegna verður leiðangurssvæðið svona skrýtið í lögun.“

Rannsóknaskip frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi og Danmörku tóku þátt í sameiginlegum uppsjávarleiðangri sumarsins. Niðurstöðurnar verða meðal þeirra gagna sem notaðar verða þegar ráðgjöf fyrir uppsjávarveiðar næsta árs verða gefnar út, þann 30. september næstkomandi.