Samtök fyrirtækja og annarra hagaðila við þjónustu skemmtiferðaskipa gagnrýna harðlega stjórnsýslu yfirvalda í tengslum við álagningu innviðagjalds á farþega skipanna.
Þetta kemur fram í svohljóðandi bréfi sem sent var í dag til Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra og Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.
„Cruise Iceland, CLIA (Cruise Lines International Association) og AECO (Association of Arctic Expedition
Cruise Operators) og aðildarfyrirtæki auk sveitarstjórna og hafnarsjóða hafa mótmælt harðlega fyrirvaralausri skattlagningu á skemmtiferðaskip með mjög háu nýju innviðgjaldi. Allt bendir til að starfsstjórnin ætli að leggja innviðagjaldið á með 6 vikna fyrirvara á ferðir sem þegar hafa verið seldar og því um afturvirka gjaldtöku að ræða sem að auki er lög á án tillits til jafnræðis þar sem einungis ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum greiða gjaldið.
Stjórnsýslan hefur verið fordæmd harðlega þar sem fjármálaráðuneytið hafði lofað að gjaldið myndi eingöngu verða lagt á ferðir sem seldar eru eftir 1. janúar 2025. Þetta kom einnig fram í ræðu Njáls Trausta Friðbertssonar, formanns fjárlaganefndar, þann 15. nóvember sl.
Ekki er að sjá annað af samþykktum lögum þingsins en að starfsstjórnin ætli sér að svíkja þetta og ekki er það til marks um aukinn fyrirsjáanleika eins og ferðamálaráðherra boðar í aðsendri grein í dag.
Komið var aftan að Cruise Iceland, AECO, CLIA og Cruise Europe í þessu máli og er ljóst að þessi slælega stjórnsýsla mun hafa víðtæk og mjög neikvæð áhrif, sérstaklega á landsbyggðinni en einnig fyrir geirann í heild sinni og þá ekki aðeins á Íslandi.
Samkvæmt ferðamálastefnunni til 2030 átti að skoða innviðagjald í kjölfar greiningar á gjaldtöku í greininni. Þar segir skýrt: „Samhliða endurskoðun á gjaldtöku í ferðaþjónustu verði unnið að löggjöf um sérstakt gjald, innviðagjald, sem lagt verði á komur erlendra skemmtiferðaskipa og tekjur af þeirri gjaldtöku notaðar til uppbyggingar innviða fyrir ferðaþjónustu.“
Ljóst er að engin endurskoðun hefur farið fram á gjaldtöku í ferðaþjónustunni og kom því löggjöfin frá ráðuneytinu mjög á óvart. Ekki hafði verið minnst á innviðagjald í samtölum við starfsfólk ráðuneytisins, né nokkurt formlegt samráð farið fram um fyrirhugaða gjaldtöku. Hagaðilar áttu ekki von á innviðagjaldi strax, hvað þá með sex vikna fyrirvara.
Það er verulegt áhyggjuefni hvernig þessi löggjöf hefur verið sett, án nægilegs samráðs eða greiningar helstu hagsmunaaðila. Skyndileg innleiðing 2.500 króna skatts á hvern farþega á dag veldur óhóflegri byrði félaga sem öll hafa þegar gengið frá fjárhagsáætlunum og ferðaáætlunum fyrir árið 2025. Þetta skapar óviðunandi ástand fyrir skipafélög, með áhrifum sem ná til smærri hafna á Íslandi sem treysta á efnahagslegt framlag ferðamanna af skemmtiferðaskipum.
Ákvörðun starfsstjórnarinnar ógnar efnahagslegum forsendum reksturs skemmtiferðaskipa á Íslandi verulega með því að vera afturvirk. Hún sendir einnig neikvæð skilaboð til alþjóðlegra fyrirtækja um fyrirsjáanleika og áreiðanleika markaðarins enda eru alþjóðleg fyrirtæki ekki von svona slæmri stjórnsýslu. Samráð og vönduð skipulagning er nauðsynleg til að tryggja að aukin gjaldtaka hins opinbera nái þeim markmiðum sem henni er ætlað án óviljandi skaða fyrir atvinnugreinina eða áfangastaði sem hún styður. Þetta er sérstaklega slæmt í ljósi þess að skipafélögin hafa fellt sig við aukna gjaldtöku, svo lengi sem hún er ekki afturvirk og innleidd með fyrirsjáanlegum hætti 2-3 ár fram í tímann.
Það er óverjandi að skip eins og Norwegian Prima sem heimsækir Ísland átta sinnum yfir árið þurfi að reiða af hendi 55 milljónir ofan á önnur gjöld fyrir hverja heimsókn sem samsvarar 440 milljónir fyrir átta komur eins skips til Íslands, án þess að geta innheimt gjaldið af farþegum. Þetta er yfirgengileg viðbótargjaldtaka þegar haft er í huga að hún er afturvirk.
Fjöldi skipafélaga hafa tilkynnt aðildarfélögum Cruise Iceland að afturvirk gjaldtakan setji félögin í ómögulega stöðu fyrir næsta ár, nauðsynlegt verði að aflýsa ferðum.
Í ljósi þessa beinir Cruise Iceland eftirfarandi spurningum til fjármálaráðuneytisins, og minnir um leið á skyldu ráðuneytisins til að svara. Fyrri erindum hefur nefnilega ekki verið svarað hingað til.
- Hvernig færir ráðuneytið rök fyrir því að jafnræði sé gætt í gjaldtöku í ferðaþjónustu þegar rúmlega sexfaldur gistináttaskattur fellur bara á þennan hóp farþega í formi innviðagjalds hafnarinnviða, landtenginga á rafmagni og annað slíkt.
a) Skipin nota innviði mjög takmarkað, aðra en hafnir og greiða sérstaklega fyrir notkun hafnarinnviða, landtenginga á rafmagni og annað slíkt.
b) Skipin létta raunar álagi af t.d. hringvegi landsins.
- Hvernig er upphæð innviðagjaldsins rökstudd? Hvort sem er um samkeppnissjónarmið eða jafnræðissjónarmið að ræða þá krefst Cruise Iceland aðgangs að þeim gögnum sem liggja til grundvallar.
- Hvernig rökstyður ráðuneytið að það sé góð stjórnsýsla að leggja innviðagjaldið á með 6 vikna fyrirvara á meðan rök voru færð fyrir því að lægri gistináttaskattur yrði lagður eingöngu á óseldar ferðir í lok árs 2023.
- Á hvaða forsendum telur ráðuneytið sig hafa heimild frá þinginu til að setja lög um innviðagjald án þess að hafa farið í greiningu á umhverfi gjaldtöku í ferðaþjónustu eins og ferðamálastefnan 2030, samþykkt af þinginu, mælir fyrir um?
- Í ferðamálastefnu kemur fram að innviðagjaldinu eigi að ráðstafa í uppbyggingu innviða. Cruise Iceland krefst upplýsinga um hvernig fjármagninu verður ráðstafað. Mun það sannanlega fara til uppbyggingu innviða á þeim svæðum sem skipin heimsækja?