Síldarvinnsluskipin Barði, Beitir og Börkur eru fyrstu uppsjávarskipin í flotanum til að nota Öldu öryggisstjórnunarkerfið fyrir fiskiskip og sjómenn. Alda hefur verið til prófunar í bolfiskskipum Vísis hf., Gjögurs og Skinneyjar-Þinganess en sagt var ítarlega frá kerfinu í sérblaði Fiskifrétta um öryggismál nýlega. Sjá má þá umfjöllun hér.

Gísli Níls Einarsson, sérfræðingur í öryggismálum, fundaði með áhöfnum skipanna um kerfið og notkun þess áður þau fóru á veiðar um páskana. Áhafnir Síldarvinnsluskipanna tók strax vel í að nota Öldu-appið og var búið að framkvæma 2 nýliðaþjálfanir og 5 eigin skoðanir á björgunarbúnaði, eldvarnabúnaði, léttbát og eigin eldavarnaeftirliti um borð í Barða og Beiti á fyrstu þremur sólarhringunum að sögn Gísla.

Umfangsmiklar notendaprófanir

Núna eru á annað hundrað sjómenn og 30 skipstjórnarmenn á 16 skipum í notendaprófunum á Öldunni. Sömuleiðis eru notendaprófanir að fara að hefjast hjá nemendum í Skipstjórnar- og véltækniskólanum. Þó þetta sé fyrsta frumgerðin af öryggisstjórnunarkerfinu er óhætt er að segja að fyrstu viðbrögð og upplifun sjómanna og skipstjórnenda í notendaprófunum á Öldunni lofi góðu og sérstaklega ánægjulegt að sjá hve virkir sjómenn eru að prufa Ölduna, segir í umfjöllun á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Markmiðið með notendaprófunum er að þróa öryggisstjórnunarkerfið í samvinnu við sjómenn og skipstjórnendur og tryggja þannig að kerfið sé notendavænt og nýtist sem best til framtíðar.

„Við viljum að íslenskir sjómenn séu í farabroddi í þróun stafrænna lausna í öryggismálum til sjós og þannig öðrum löndum til fyrirmyndar,“ segir Gísli Níls. Tilgangur öryggisstjórnunarkerfisins er að nútímavæða skipulag og framkvæmd öryggismála um borð í fiskiskipum og efla öryggisvitund sjómanna enn frekar. Kerfið setur öryggismál á dagskrá með reglubundnum björgunaræfingum, eigin skoðunum á öryggis- og björgunarbúnaði ásamt því að halda utan um nýliðafræðslu um borð.