Nýsköpunarfyrirtækið Optitog vinnur að hönnun og prófunum á byltingarkenndum veiðiaðferðum á rækju og bolfiski sem byggir á smölun með stefnumiðuðu ljósi. Markmiðið er að auka veiðarnar, vernda hafsbotninn, og draga úr orkunotkun skipa.. Þetta er gert með öflugum og framsýnum útgerðum.

Reyktal og Brim

Einn af stofnendum Optitog ehf., Halla Jónsdóttir náttúrufræðingur, hlaut nýlega viðurkenningu frá Global Women Inventors & Innovators Network fyrir þetta verkefni. Verið er að prófa lausnirnar í samstarfi við leiðandi útgerðir, Reyktal sem er við veiðar á kaldsjávarrækju innan Evrópusambandsins, og Brim sem er við bolfiskveiðar á Íslandi. Optitog hefur notið stuðnings frá Loftslagssjóði, Orkusjóði, AVS og Tækniþróunarsjóði.

Halla Jónsdóttir, einn af stofnendum Optitogs. FF MYND/EYÞÓR
Halla Jónsdóttir, einn af stofnendum Optitogs. FF MYND/EYÞÓR
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Nýta skynfæri fisks

„Spurningin sem leitaði á mig var hvort við getum nýtt skynfæri fisks og smalað honum,“ segir Halla sem ýtti verkefninu úr vör í samstarfi við verkfræðingana Geir Guðmundsson, Torfa Þórhallsson ásamt veiðarfærasérfræðingnum Einari Hreinsyni og Hjalta Karlssyni. Fjölmargir aðilar frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands lögðu hönd á plóg sem og sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun, Hraðfrystihúsinu – Gunnvör og Netagerð Vestfjarða sem nú er Hampiðjan Ísland.

Meiri afli með ljóssmölun

„Verkefnið snýst um að smala rækju og jafnvel bolfiski inn í troll með ljósi. Við höfum tölfræðilega marktækar niðurstöður um að með notkun ljóss við rækjuveiðar getum við lyft rækju frá botni og inn í tilraunabotntroll sem stýrt er til að vera í um 30 cm hæð yfir sjávarbotni.

Út frá þessu stóra verki höfum við búið til tæki sem við nefnum smala. Rækjutogari hefur prófað smala á Íslandsmiðum og fengið jákvæðar niðurstöður, aukið afla um 12-18% í veiðum með tvíburatroll. Ljósabúnaðurinn var hafður í öðrum helming trollsins en ekki hinum og gerður var samanburður á aflanum sem fékkst í hvort troll. Núna erum við að endurtaka þessar tilraunir með framsýnum útgerðum og framsæknum skipstjórum, annars vegar með eistnesku rækjuútgerðinni Reyktal og þar er þrautreyndur og hugmyndaríkur rækjuveiðiskipstjóri sem stýrir þeirra aðkomu í nánu samstarfi við okkur. Jafnframt erum við að prófa þessa aðferð við bolfiskveiðar á Íslandsmiðum í samstarfi með öflugu teymi frá Brimi og Hafrannsóknastofnun,“ segir Halla.

Minni losun koltvísýrings

Samkvæmt Höllu þá hafa verið gerðar tilraunir sem sýna að það er hægt að hafa áhrif á þorsk í kerum með ljósi. Ekki sé samt öruggt að það sama eigi einnig við úti í sjó. Smölum hefur verið komið fyrir á núverandi veiðarfærum með það að markmiði að stækka smölunarsvæði veiðarfæra

„Olíusparnaður við veiðar með þessari aðferð ræðst af því hvort hægt sé að auka smölun afla inn í trollið og draga úr snertingu við sjávarbotn. Eingöngu það að losna við botnsnertingu getur sparað umtalsverða olíu.“