Annar er frá Hauganesi, hinn frá Seyðisfirði. Þeir segjast báðir hafa alist upp á bryggjunni, svo að segja, og ekkert hafi í raun komið til greina annað en að fara á sjóinn. Í síðasta mánuði hættu þeir báðir á sjónum eftir farsælan feril sem skipstjórar.

„Ég er utan af Hauganesi á Árskógsstrond, og þar ólust menn upp á bryggjunum liggur við,“ segir Angantýr Arnar Árnason. „Þarna byggðist allt á sjósókn og saltfiski og maður tók þátt í þeirri vinnu um leið og maður gat valdið flöttum saltfiski. Þetta lá allan tímann nokkurn veginn ljóst fyrir að sjómennskan yrði ofan á. Strax og maður gat valdið ár fengum við að fara á árabátum og þá var kannski tíðarandinn annar. Börnunum var treyst. Alla vega gerðist ekki neitt vont þannig og við lærðum á þessu. Það var grunnurinn og allt manns líf og öll manns starfsævi hefur farið í þetta.“

Seyðfirðingurinn Sigtryggur, oftast nefndur Bóbó, byrjaði einnig ungur á sjó, aðeins 14 ára gamall.

„Það var á síðubát sem hét Hannes Hafstein. Ég lenti reyndar í slysi í lok sumarsins, missti framan af fjórum fingrum. Eftir það fór ég í netagerð og síðan bara á sjóinn aftur. Maður ólst bara upp á bryggjunni þarna á Seyðisfirði og það voru ótrúlega margir skipstjórar þarna í ekki stærri bæ. Margir togaraskipstjórar.“

Samfylgd í tvo áratugi

Undanfarin tuttugu ár rúm, eða frá árinu 2001, hafa þeir báðir verið skipstjórar hjá Samherja, skipst á um að stjórna sama skipinu, fyrst var það frystitogarinn Björgvin EA og svo þegar Samherji keypti Útgerðarfélag Akureyringa af Brim árið 2011 fóru þeir á gamla Kaldbak. Splunkunýr Kaldbakur tók svo við af þeim gamla árið 2017, en Sigtryggur og Angantýr sigldu honum heim frá Tyrklandi.

Kaldbakur er einn af þremur ferskfisktogurum sem Samherji lét smíða fyrir sig hjá Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Allir eru þeir 63 metra langir og rúm þúsund brúttótonn, hannaðir af Bárði Hafsteinssyni skipaverkfræðingi hjá Skipatækni. Það var síðan Slippurinn á Akureyri sem sá um að setja upp vinnslulínur í skipin. Allt er það búið nýjustu tækni og þeir Sigtryggur og Angantýr segja viðbrigðin mikil frá fyrri togurum sem þeir hafa stýrt.

Nýr Kaldbakur EA 1 á heimleið í Miðjarðarhafinu frá skipasmíðastöðinni í Tyrklandi árið 2017. Aðsend mynd/Landhelgisgæslan
Nýr Kaldbakur EA 1 á heimleið í Miðjarðarhafinu frá skipasmíðastöðinni í Tyrklandi árið 2017. Aðsend mynd/Landhelgisgæslan

Bylting

„Það var bylting eiginlega í öllu,“ segir Sigtryggur. „Fyrst og fremst er það skipið, sem er frábært og bara hvað það fer vel með mannskap. Svo öll þessi nýja tækni, maður skilur eiginlega ekki hvað maður var að starfa við hér áður. Meðferð aflans er líka allt önnur, við erum með þessa ofurkælingu þar sem við þurfum ekki að nota ís. Fiskurinn er þá kældur niður og svo er sett í körin uppi á dekki og þaðan fer hann með lyftunni. Það er ekkert verið að krjúpa eða skríða í lestinni eins og var.“

Eldri vinnubrögð heyra sögunni til. Engum dettur lengur í hug að moka eins miklu af fiski og hægt er upp úr sjónum til að koma með sem mest magn að landi. Nú er áherslan á að ná sem mestum verðmætum út úr því sem veitt er, og þá er mikilvægt að veiða aldrei meira en vinnslurnar ráða við.

„Þetta er gjörbreyting. Líka að fara úr frystitogurunum og yfir í að afhenda ferskan fisk úti í Frakklandi kannski daginn eftir að maður landar. Tæknin líka. Það sem að okkur snýr uppi í brú er kannski fyrst og fremst staðsetningarkerfið, GPS og AIS kerfið. Svo kom þessi veiðarfærasýn, þar sem maður hefur myndir af veiðarfærinu og hlerunum og öllu, og maður sér þegar fiskurinn er að ganga inn í trollið.“

Veitt eftir pöntun

„Við erum orðnir það fullorðnir að allur tækjabúnaður hefur breyst mikið,“ segir Angantýr. „Við höfum upplifað gríðarlegar breytingar á þessu öllu saman, bæði í brú og dekki og veiðarfæri og öðru. Og öll þessi tölvuvæðing sem var ekkert sjálfgefið að ná tökum á. En okkur bar gæfa til að geta tileinkað okkur og hefur bara liðið vel í þeirri þróun allri. Það er bara okkar ánægja að hafa getað tekið þátt í þessu.“

Skjáveggurinn í brúnni á Kaldbak. FF MYND/Þorgeir Baldursson
Skjáveggurinn í brúnni á Kaldbak. FF MYND/Þorgeir Baldursson

„Í rauninni er þetta þannig núna að við erum ekkert að veiða annað en það sem þarf að veiða,“ segir Sigtryggur. „Þetta er nánast eins og innkaupalisti sem þú ferð með út á sjó, og það er búið að ákveða löndunardag. Og það er bara veitt það sem þarf í vinnsluna á Dalvík og Akureyri, og svo kannski eitthvað sem er búið að panta að utan, karfa kannski sem þá kemur bara. En í rauninni er ekkert verið að veiða nema það sé búið að selja þetta fyrir fram.“

Fiskuðu vel á þann gamla

Gamli Kaldbakur þótti líka heldur betur góður til síns brúks þegar hann kom nýr til Akureyrar árið 1974, smíðaður á Spáni eins og Harðbakur en það var Útgerðarfélag Akureyringa sem keypti þá til landsins.

„Þetta var svakalegt skip á sínum tíma,“ segir Sigtryggur. „Mjög gott skip að mörgu leyti en agalegur drumbur. Hann var þungur í stjórnun, en við fiskuðum alltaf vel á hann. Ég man þegar maður var að byrja á sjó að þetta voru skipin, Spánverjarnir.“

Gamli Kaldbakur á siglingu yfir hafið. FF MYND/Þorgeir Baldursson
Gamli Kaldbakur á siglingu yfir hafið. FF MYND/Þorgeir Baldursson
© Þorgeir Baldursson (.)

Brotsjór í Dýrafirði

Báðir segjast þeir hafa verið farsælir alla tíð á sjó og ekki lent í alvarlegum atvikum. Sigtryggur rifjar þó upp að Margrét EA hafi fengið á sig brotsjó í janúar 1995 þegar snjóflóðin féllu á Súðavík.

„Við vorum í vari á Dýrafirði og vorum þá beðnir um að smala saman björgunarsveitafólki af fjörðunum. Svo vorum við á leiðinni frá Þingeyri, að fara fyrir Barðann, þegar við fengum brot á okkur. Það fóru allir gluggar í brúnni og allt hreinsaðist út. Það var náttúrlega vitlaust veður þarna í heila viku, en við fórum inn á Þingeyri og lágum þar í nokkra daga til að geta bara siglt skipinu heim. En þetta var hrikalegt áfall.“

Fyrstir í norsku lögsöguna

Báðir tóku þeir þátt í Smuguævintýrinu á sínum tíma og svo urðu ákveðin tímamót þegar náðst höfðu samningar við Norðmenn og Rússa um kvóta í Barentshafi

„Norðmenn og Rússar sömdu við okkur til þess að fá okkur til að hætta að fara í Smuguna,“ segir Angantýr. „Og það er gaman að segja frá því við tveir, ég á Björgvin og Bóbó á Margrétinni, við vorum fyrstu tveir skipstjórarnir sem fórum inn í norska lögsögu eftir að Smugustríðinu lauk.“

Eftir þetta héldu þeir báðir flest árin til veiða í Barentshafi, þar sem þeir voru að veiða kvóta Samherja. Fyrst á Björgvin og síðan á Kalbökunum báðum. Veitt var bæði í norsku og rússnesku lögsögunni, en síðustu tvö árin hefur af alþekktum ástæðum ekki verið hægt að fara inn í rússnesku lögsöguna.

Eins og í hitabeltinu

Veðurfarið í Barentshafinu er gjörólíkt því sem ríkir hér við Ísland.

„Það er staðvindasamara þarna norður frá en gat gert mjög erfið veður,“ segir Angantýr. „Hins vegar voru meiri umhleypingar á miðunum hérna heima. Þannig að oft á tíðum var betra þarna norður frá, og sumrin gátu verið alveg dásamleg. Það eina sem var er að það var bara sól hæst á himni bæði nótt og dag. Það var dagsbirta allan sólarhringinn þannig að skipin hitnuðu svo mikið í sólinni að það gat verið erfitt að sofa. Þetta var bara eins og í hitabeltinu. Sólin bakaði skipin allan daginn og alla nóttina.“

Þetta hafi stundum verið dálítið skrýtið, og sama megi segja um vetrartímann þegar myrkrið helltist yfir og varla sást til sólar nema stutta stund á morgnana.

„Við vorum þarna einhvern tímann að haustlagi og komum ekki heim fyrr en 18. desember. Þá var myrkrið orðið þannig að það rétt skímaði á milli 9 og 10 á morgnana. Og það gat auðvitað verið mjög kalt þarna og fyrstu árin var erfitt með fjarskipti þarna og erfitt fyrir menn að hafa samband heim. En þetta fór allt saman vel og við lentum aldrei upp á kant við nokkurn mann.“

Þakklæti efst í huga

Þeir segjast báðir hafa verið sérlega heppnir með mannskap á skipunum.

„Núna er kannski efst í huga þakklæti til allra þeirra manna sem með okkur hafa verið allan þennan tíma,“ segir Angantýr. „Og svo að sama skapi þakklæti til útgerðarinnar núna síðustu tvo áratugina og rúmlega það, að hafa staðið með manni og átt alveg geypilega farsælt samstarf við þá. Það hefur verið bara stórkostlegt að fá að taka þátt í þessari vegferð með þeim. Þarna hafa allar nýjungar á hverjum tíma verið í boði og við tekið þátt í því með öllu sem við höfum getað.“

Sigtryggur tekur í sama streng, en hann hefur starfað hjá Samherja í 36 ár.

„Ég segi nú bara að þetta hafi verið mín gæfa að hafa kynnst þeim og farið að vinna með þeim. Hvað sem ljótu raddirnar segja þá er þetta búið að vera einstakt. Þeir eru svo framsæknir og horfa alltaf fram í tímann, og í gegnum tíðina hefur maður alltaf verið að taka þátt í einhverjum nýjum verkefnum sem maður hefur sjálfur ekki verið að pæla í endilega. En þeir eru alltaf með hugann einhvers staðar í framtíðinni.“

Kvíða ekki verkleysi

Þeir segjast í sjálfu sér ekki hafa nein sérstök plön fyrir hvað eigi að taka sér fyrir hendur, nú þegar nægur tími er til þess að fást við annað en vinnuna.

„Í augnablikinu bara að ferðast og gera þá hluti sem mann hefur langað til að gera en ekki haft eða ekki talið sig hafa haft tíma til,“ segir Angantýr. „Svo eru margir sem segja manni að golfið sé tímaþjófurinn sem maður þurfi að tileinka sér. Margir úr þessari stétt hafa endað þar, en þótt ég sé mjög íþróttalega sinnaður þá hef ég ekki getað fundið það. Hins vegar hef ég mjög gaman af allri veiði, bæði stangveiði og skotveiði, þannig að sumarið fer að stórum hluta í það. Það er enginn skortur á verkefnum eins og er.“

Sigtryggur tekur í sama streng: „Ég er sem betur fer við þokkalega heilsu, þannig að við konan ætlum nú bara að fara að ferðast, bæði um landið og erlendis eins og við gerum mikið. Og sinna barnabörnunum. Það spyrja margir að þessu, hvað ætlarðu nú að fara að gera drengur. En ég hef engar áhyggjur af því.“