Arctic Fish hefur bætt fimmta fóðurprammanum í flota sinn og sá nýjasti, Nónhorn, er einn sá fullkomnasti sinnar gerðar í heiminum og verður rafknúinn að stórum hluta. Fóðurpramminn er fjárfesting upp á um hálfan milljarð króna og er liður í mikilli uppbyggingu Arctic Fish ehf hér á landi.

Fóðurpramminn er framleiddur af alþjóðafyrirtækinu ScaleAQ sem er einn stærsti framleiðandi tækja og búnaðar fyrir fiskeldi í heiminum. Nýi fóðurpramminn er tekinn í notkun þegar fyrirtækið er í stöðugum vexti í laxeldi á Vestfjörðum og mun þjónusta nýjasta kvíabóli Arctic Fish við Hvestu í Arnarfirði þar sem nú er verið að ala um 1 milljón laxa. Engu að síður verður elsta fóðurpramma fyrirtækisins lagt í staðinn tímabundið þar sem komið er að viðhaldi á honum. Sá prammi verður svo tekinn í notkun við eldið í Dýrafirði vorið 2023.

Verið að fóðra laxinn í einni af sjókvíum Arctic Fish.
Verið að fóðra laxinn í einni af sjókvíum Arctic Fish.

Tafir á leyfisveitingu

Helgi Ragnarson, staðarstjóri Arctic Fish, segir að fyrirtækið hafi haft áform um að fá leyfi til útsetningar í Ísafjarðardjúpi á þessu ári en það hefur dregist. Eðli starfseminnar kallar á framsýni í rekstrinum og þess vegna þarf að kaupa búnað og pramma með miklum fyrirvara. Framleidd höfðu verið seiði í seiðaeldisstöð fyrirtækisins í Tálknafirði til útsetningar í Ísafjarðardjúpi. Þar sem niðurstaða í leyfisumsóknina liggur ekki fyrir, þurfti að gera breytingar á uppsetningu í rekstrinum. Fiskurinn fór þó allur í sjó og keypti Háafell hluta af seiðum Arctic Fish og elur sínu svæði í Skutulsfirði í Ísafjarðardjúpi. Háafell er dótturfélag HG í Hnífsdal.

Möguleiki á fullvinnslu

Nýi fóðurpramminn er smíðaður eftir ákveðinni framleiðsluforskrift Scale. Auk þessarar fjárfestingar er unnið hörðum höndum að því að stækka seiðaeldisstöð fyrirtækisins í Norðurbotni. Þá eru á fullu framkvæmdir við að reisa sláturhús fyrirtækisins í Bolungarvík. Húsið verður um 3.000 fermetrar að flatarmáli með um 5.000 fermetra gólfflöt. Þar verður aflífunarbúanður og slægingavélar frá Baader, færibönd og kæli- og blæðingartankar frá Skaganum 3X og pökkunarlína og kassakerfi frá Micro. Möguleiki verður á fullvinnslu á afurðum fyrirtækisins í nýja sláturhúsinu til framtíðar en fyrst um sinn verður fiskurinn slægður og seldur heill. Þetta er fjárfesting upp á um 4 milljarða króna. Alls mun Arctic Fish verja um 8 milljörðum króna til fjárfestinga á Vestfjörðum á árinu.

Myndavélakerfi af fullkomnustu gerð

„Við erum að taka fyrsta skrefið inn í hybrid-kerfi og þetta er einhver umhverfisvænasti fóðurprammi landsins og þó víðar væri leitað. Það er stefna fyrirtækisins að færa sig yfir í umhverfisvænar lausnir á öllum sviðum og þetta er liður í því. Auk þess er staðan sú að við búum við afar hátt olíuverð og raforka fæst á hagstæðara verði en önnur orka á Íslandi. Pramminn getur einnig tekið við landstraumi sem minnkar þörfina á eldsneyti enn frekar. En fyrst um sinn verður eldissvæðið í Hvestu ekki landtengt.  Við erum á lokametrunum að landtengja eldissvæðið okkar við Eyrarhlíð í Dýrafirði og vonandi verður hann tengdur á næstu vikum. Þangað er verið að færa pramma sem getur tekið við landstraumi en er ekki búinn rafhlöðum/hybrid. segir Helgi.

Nónhorn er búinn rafhlöðum sem ljósavélar hlaða. Tvinntæknin gerir það kleift að draga úr olíunotkun um 60-70% og um leið dregur verulega úr kolefnislosun.

Þetta er fyrsti fóðurprammi Arctic Fish frá Scale en fram að þessu hefur fyrirtækið verið með pramma frá Aqua Group í notkun. Nýi pramminn byggir að mörgu leyti á nýrri tækni, þar á meðal myndavélabúnaði af fullkomnustu gerð.

Helgi Ragnarsson
Helgi Ragnarsson

Frá 70 gr upp í 70 kg

Á Þingeyri er fóðursmiðstöð Arctic Fish. Þar starfa sjö starfsmenn, þrír til fjórir á hvorri vakt við það að fóðra fiskinn í kvíjum félagsins sem eru nú í fjórum fjörðum á Vestfjörðum. Þeir fylgjast með fóðruninni í gegnum myndavélar sem eru á sérstökum vindum í sjókvíunum. Myndavélarnar gefa 360° sýn yfir kvína og hægt er að færa þær frá yfirborði sjávar niður á allt að 25 metra dýpi. Með eftirlitinu er dregið úr sóun á fóðri auk þægindanna við að fóðra fiskinn frá landi í stað þess að fara út á kvínna í allskonar veðrum.

„Við viljum að fiskurinn borði allt það fóður sem við setjum í sjóinn. Fiskurinn gefur skýr merki um það þegar hann er hættur að borða eftir um það bil 2-3 klukkustundir eftir að fóðrun hefst. Án myndavélabúnaðarins sæjum við ekki þessa framvindu. Við fylgjumst með hegðun fisksins og hvernig hann syndir og sækir fóðrið í gegnum myndavélabúnaðinn. Þegar hann fer að sýna fóðrinu áhugaleysi hættum við fóðrun.“

Með tæknibúnaði í prammanum er hægt að stýra gjöfinni frá allt frá 70 grömmum á mínútu upp í 70 kg á mínútu. Þegar smáfiskur á í hlut er gjöfin frá 200 grömmum  og upp í 5 kg á mínútu en fer svo upp í allt að 70 kg á mínútu þegar 400-600 tonn af 4-5 kg fiski er í kvínni. Á einu svæði er jafnvel verið að blása 40-50 tonnum af fóðri í kvíar á dag.

Fóðrið er flutt inn frá fóðurframleiðandanum Skretting í Noregi og kemur í 750 kg sekkjum. Skip frá framleiðandanum kemur vikulega og fyllir á fóðurpramma Arctic Fish.

Helgi segir nýja prammann að öllu leyti mun nákvæmara tæki. Hann vigtar fóðrið af mikilli nákvæmni og gefur 10 kg á mínútu þegar gefin eru fyrirmæli um nákvæmlega það magn í gjöf. Kerfið er svo nákvæmt að fráviksmörkin eru ekki nema tíu grömm.

Fjarstýrt úr landi

„Það er mjög mikilvægt að kerfið gefi 10 kg en ekki 15 kg og bætir alla skilvirkni og fóðurgjöf. Prammanum fylgir líka mjög öflugt stjórnkerfi með öllum myndavélabúnaðinum og fjarstýringu á prammanum sem getur átt sér stað úr landi. Það eina sem mannshöndin þarf að koma nálægt er eftirlit með smurolíu á ljósavél. Allt annað er nánast viðhaldsfrítt. Það fara menn um borð reglulega engu að síður til þess að sinna reglubundnu eftirliti en prammanum er að öðru leyti fjarstýrt úr landi og hann er alla jafna mannlaus,“ segir Helgi.

Engu að síður er góð starfsmannaaðstaða um borð með eldhúsi og öllum nútímaþægindum.

Arctic Fish er að stærstum hluta í eigu norska laxeldisfyrirtækisins Arctic Fish Holding AS, sem er aftur í eigu Norway Royal Salmon ASA sem er sjötta stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi með heimildir til framleiðslu á 100 þúsund tonnum af laxi í Noregi og 24 þúsund tonnum á Íslandi. Síldarvinnslan í Neskaupstað keypti 34,2% hlut í Arctic Fish Holding fyrr í sumar fyrir 15 milljarða króna.

Gætum tekið forystu

Helgi segir að hann sjálfur og nokkur fjöldi Íslendinga starfi hjá Arctic Fish sem hafi starfað þar áður en fyrirtækið komst í eigu Norðmannanna. Hann segir breytingar á fjárfestingastefnunni miklar sem og öryggisstefnu fyrirtækisins og allri starfseminni. Áður en NRS keypti sig inn í fyrirtækið þekktist vart notkun á björgunarvestum og hjálmum. Mikil vatnaskil urðu í starfseminni með innkomu NRS.

„Íslendingar eru duglegir til vinnu og þegar við höfum aðlagað okkur norskum ferlum og höfum komið hugviti frá íslenskum hátæknifyrirtækjum á borð við Marel og fleiri inn í ferlið, spái ég því að við eigum eftir að taka fram úr öðrum þjóðum í eldi á laxi,“ segir Helgi.