Þessa vikuna hafa staðið yfir strandríkjaviðræður í London. Þar hittast fulltrúar strandríkjanna sem stunda makrílveiðar í Norðaustur-Atlantshafi. Enn á ný á að reyna að ná samkomulagi um skiptingu veiðanna, en árum saman hafa ríkin veitt úr stofninum án samkomulags um það hvernig þau skipti með sér veiðiheimildunum. Sömu sögu er að segja af hinum deilistofnunum, norsk-íslenskri síld og kolmunna.

Afleiðingin hefur verið ofveiði. Ríkin hafa samanlagt veitt töluvert umfram ráðgjöfina frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu, ICES, enda hafa ríkin hvert um sig tekið sér einhliða veiðikvóta úr stofninum. Hvað makrílinn varðar ráðlagði ICES að árið 2021 yrði ekki veitt meira en 852.284 tonn en samanlagt veiddu ríkin 1.206.748 tonn, sem var 354.464 tonn umfram ráðgjöfina eða 41%.

Undanfarin sex ár hefur ofveiðin úr þessum þremur stofnum samtals verið nærri fimm milljónir tonna. Stofnarnir þrír hafa allir verið á hægri niðurleið samkvæmt mælingum hafrannsannóknarfólks.

Í orði kveðnu

Samkomulag hefur undanfarin ár í orði kveðnu verið um að fylgja ráðgjöfinni frá ICES um heildarveiði úr stofnunum þremur, makríl, síld og kolmunna. Illa hefur hins vegar gengið að halda sig við þetta hámark vegna þess að ríkin hafa einhliða tekið sér afla sem samanlagt er töluvert yfir þessu hámarki. Afleiðingin er umframveiði úr uppsjávarstofnunum þremur, og það varð meðal annars til þess að MSC-vottun veiðanna þriggja var felld niður.


Strandríkin eru Ísland, Noregur, Bretland, Færeyjar og Grænland ásamt Evrópusambandinu, en auk þess hafa Rússar stundað makrílveiðar á alþjóðlegu hafsvæði. Evrópusambandið var með Bretland innanborðs þangað til Bretar sögðu skilið við það fyrir rúmu ári. Að sumu leyti getur verið flóknara að semja þegar strandríkjunum fjölgar, en sjálfstæði Breta í þessu máli hefur komið róti á hluti sem mögulega gæti auðveldað fólki að finna einhverjar lausnir.

Vaxandi þrýstingur hefur verið á um sjálfbærni veiða á undanförnum árum, og nú í vetur hefur að minnsta kosti heldur meiri kraftur hefur verið í viðræðunum undanfarið því efnt hefur verið til aukafunda, síðast í mars og nú aftur í maí, til þess að reyna að höggva á hnútinn. Hefðin er sú að strandríkjafundir þessir eru haldnir að hausti til og niðurstaðan látin standa óhreyfð í eitt ár þangað til aftur er sest að samningaborðum. Jafnvel þótt samkomulag hafi ekki tekist, þá er ekki reynt aftur fyrr en að ári liðnu.

Vottunarsamtökin Marcine Stewardship Council (MSC) hafa ítrekað skorað á strandríkin að semja um skiptingu veiðanna. Nú síðast í apríl sendu þau frá sér yfirlit um ástandið og sögðu að frá árinu 1996 hafi ríkjunum einungis tekist að vera með samkomulag í gildi um veiðar úr öllum stofnunum í fjögur ár. Þetta má einnig sjá á töflunni hér á hægri síðu opnunnar.

Millivegur?

Stuttu fyrir marsfundinn birti vinnuhópur auðlindahagfræðinga á vegum Norðurlandaráðs ítarlega skýrslu um veiðar úr uppsjávarstofnunum þremur undanfarna áratugi ásamt yfirliti yfir það hvenær samningar hafa verið í gildi og hvenær samningslaust hefur verið. Hér hægra megin á opnunni má sjá samantekt upp úr skýrslunni, en höfundar hennar eru Ragnar Árnason frá Íslandi, Trond Bjørndal frá Noregi, Zvonimir P.Ð. Mrdalo frá Færeyjum og Max Nielsen frá Danmörku.

Meðal annars er í skýrslunni dregin upp mynd af því hvernig mögulega mætti semja um veiðihlutföll ríkjanna úr makrílstofninum út frá því þeirri hugmynd að hlutfall raunverulegrar veiði hvers ríkis af heildarveiði áranna 2020 og 2021 yrði miðað heildararráðgjöf ICES fyrir sömu ár. Töflu um það má sjá hér neðst á síðunni.

Þar sést meðal annars að Ísland tók sér 14,7% af ráðgjöfinni árið 2020 og 16,5% hennar árið 2021, en reyndin varð sú að Íslendingar veiddu 12% heildaraflans bæði árin. Ef Ísland hefði fengið 12% af ráðgjöfinni bæði þessi ár þá hefði aflinn árið 2020 mátt vera 113 þúsund tonn í staðinn fyrir 135 þúsund tonn, en árið 2021 hefði afli Íslendinga orðið 99 þúsund tonn í stað 141 þúsund.

Með þessari aðferð hefðu öll ríkin þurft að sætta sig við skerðingu, en sé miðað við þessi tvö ár gæti kvóti Norðmanna til dæmis verið á bilinu 19% til 25%, en afli Íslendinga yrði væntanlega 12%. Hvort þessi hugmynd dugar til að höggva á þennan þráláta hnút er ekki gott að segja til um.