Sala á hlutum í tveimur íslenskum fyrirtækjum, fiskvinnslunni AG Seafood og útflutningsfyrirtækinu IceMar, hefur verið handsöluð. Það er bandaríska fyrirtækisins Sealaska, sem hefur aðsetur í Alaska-ríki, sem kaupir. Kaupin ná til 25% hlutafjár AG Seafood og 60% af hlutafé IceMar.

Gunnar Örlygsson, og fjölskylda hans, stofnaði markaðsfyrirtækið IceMar árið 2003 og síðar fiskvinnsluna AG Seafood árið 2008 með samstarfsmanni sínum Arthur Galvez.

Gunnar segir að Arthur Galvez muni áfram stýra AG Seafood. „Við verðum þar áfram meirihlutaeigendur, ég verð svo áfram með IceMar,“ segir Gunnar sem í samtali við Fiskifréttir segist afar ánægður með viðskiptin. Þau feli ekki aðeins í sér spennandi tækifæri fyrir fyrirtækin bæði, heldur felist í þeim traustyfirlýsing frá hinu stóra bandaríska fyrirtæki.

Styrkir markaðsstarf

„Að fá Sealaska í eigendahóp IceMar og AG Seafood mun styrkja alla markaðssetningu og dreifingu afurða frá Íslandi. Sealaska hefur kynnt sér innviði íslensks sjávarútvegs og eru þau afar hrifin af þeim ábyrgu fiskveiðum sem við Íslendingar stundum og einnig þeim metnaði og krafti sem einkennir iðnaðinn hér heima,“ segir Gunnar sem bætir við að sameiginleg velta samstæðurnar í sjávarútvegi er nærri 100 milljörðum króna og vaxandi. Til samanburðar er sameiginleg velta IceMar og AG Seafood 4-5 milljarðar króna. Í fiskvinnslunni AG Seafood í Sandgerði hafa starfað um fjörutíu manns. Samhliða flatfiskvinnslu hefur verið unninn þorskur og ýsa. Helstu markaðir fyrirtækjanna hafa verið Bandaríkjamarkaður og Bretlandsmarkaður.

„Öll þeirra nálgun er heilbrigð í orði og verki, þá bæði gagnvart umhverfinu sem og neytendunum sjálfum,“ segir Gunnar en hugmyndir eru uppi um öfluga uppbyggingu, þá sér í lagi til að byrja með í Bandaríkjunum og Kanada. Staða Sealaska á Bretlandsmarkaði er sterk í gegnum eignarhald félagsins í New England Seafoods (NESI) sem starfrækir þrjár verksmiðjur í London og Grimsby.

„Við höfum verið birgjar NESI í langan tíma og átt með þeim frábært samstarf,“ segir Gunnar en viðskiptin nú með hluti í fyrirtækjunum tveimur koma til vegna sambanda íslenskra eigenda þeirra og NESI.

Forsvarsmenn Sealaska segja í tilkynningu að kaupin færi fyrirtækinu aðgang að íslenskri gæðavöru. Fram kemur að IceMar og AG Seafood verði samþætt inn í viðskiptanet dótturfélagsins New England Seafood International (NESI), sem Sealaska keypti í nóvember 2020.

„NESI mun spila virkt hlutverk í þróun fyrirtækjanna, er haft eftir Dan Aherne, forstjóra NESI. „Við erum hæstánægð að tuttugu ára samband okkar við þessi tvö fyrirtæki hafi leitt til formlegs samstarfs. Ísland er með ríka arfleifð sem fiskveiði og fiskvinnsluþjóð með sumum af bestu vörum sem finnast nokkurs staðar. Við erum spennt að dreifa þeim víðar um heiminn.“