Eftir Eirík Sigurðsson skipstjóra

Það er alþekkt að útgerðir skemmtiferðaskipa eru á meðal mestu umhverfissóða nútímans. Til dæmis er losun koltvísýrings þrisvar til fjórum sinnum meiri á hvern farþega en í fluginu, sem þykir þó langt frá því að vera til fyrirmyndar. Skemmtiferðaskip brenna flest svartolíu og það miklu af henni þar sem þetta eru oft risaskip með mjög stórar vélar.

Engar hömlur norðan Bretlandseyja

Skemmtiferðaskipin mega ekki brenna svartolíu þegar þau sigla á milli hafna í Evrópu en ég veit ekki hvað því banni er mikið fylgt eftir og efast satt að segja um að það sé mikið miðað við það sem ég þekki til þessara mála. En um leið og þau eru komin norður fyrir Bretlandseyjar eru engar hömlur og þau mega spúa út eins miklu eitri og þau vilja, án þess að nokkur skipti sér af.

Alþjóðasamfélagið býr til alls konar reglur og samþykktir um mengun en þeim er mismikið framfylgt og þetta er látið viðgangast. Það er óskiljanlegt að þeim sem um véla finnist í lagi að brenna svartolíu á norðurslóðum en ekki nær því sem þeir búa sjálfir og alls ekki nálægt Brussel.

Það er svo ekkert lítið af skolpi sem þessi skip losa í sjóinn þar sem upp í átta þúsund manns geta verið um borð í þeim stærstu – farþegar plús áhöfn. Þau hafa oft verið staðin að því að dæla út skolpi skammt frá ströndum. Svo er líka vitað að sum þeirra koma með mjög lítið af rusli í land miðað við það sem reikna má með frá skipum sem jafnast á við stærri bæi á Íslandi í fólksfjölda og mörg dæmi um að þau hendi rusli í sjóinn. En skipin eru auðvitað ekki öll svona stór og flest þeirra sem sigla á norðurslóðum taka frá nokkur hundruð og upp í tvö til þrjú þúsund farþega, en sama er. Um borð í stærsta skipinu sem kom til Íslands árið 2018 voru um 4.500 farþegar auk 1.500 manna áhafnar eða samtals um 6.000 manns.

Gróðahyggjan í fyrsta sæti

Þrátt fyrir að vera ekki umhverfisvænni en þetta er skemmtiferðaskipum leyft að sigla nær ótakmarkað á norðurslóðum þar sem náttúran er mjög viðkvæm og gífurleg umhverfispjöll gætu hlotist af slysi. Gróðahyggjan er þar í fyrsta sæti og aurar í kassann mikilvægari en umgengni um náttúruna.

Norðmenn fara með stjórn á Svalbarða og hafa loksins bannað brennslu svartolíu þar en með þeirri undantekningu að skip sem koma á Isfjord, þar sem megnið af byggðinni er, mega brenna henni. Af hverju skyldi það vera? Jú það er vegna þess að sprenging hefur orðið í komu skemmtiferðaskipa til höfuðstaðarins, Longyearbyen, á síðustu árum en sá bær stendur einmitt við Isfjord. Það má sem sagt ekki styggja skipafélögin með því að krefjast þess að þau láti skipin brenna umhverfisvænna eldsneyti, enda gæti gróðinn minnkað um einhver prómill. Þegar skemmtiferðaskip koma til hafnar á Íslandi liggja þau mjög oft alveg í miðbænum og steinsnar frá íbúabyggð. Það þarf mikla orku til að halda þeim gangandi þó þau séu ekki að sigla og því ekkert lítil mengun sem leggst yfir bæina. Þau mega ekki brenna svartolíu í landi en ég efast stórlega um að það sé alltaf farið eftir því. Nægilega öflugar landtengingar við rafmagn eru hvergi til og því verður að keyra ljósavélar.

Fyrir þá sem vita ekki hvernig svartolía er, þá verður hún eins og malbik þegar hún kólnar og nánast ómögulegt að hreinsa hana upp af norðlægum ströndum ef hún fer í sjóinn. Skemmtiferðaskipin eru í flestum tilfellum með óhemju magn af svartolíu í tönkum.

Mikill fjöldi skemmtiferðaskipa er á ferðinni við Grænland, Ísland, Noreg og Svalbarða, sérstaklega á sumrin. En tímabilið er stöðugt að lengjast í báðar áttir. Byrjar fyrr á vorin og endar seinna á haustin. Ég hef mikið siglt á norðurslóðum og síðustu ár hef ég séð skemmtiferðaskip sigla jafnvel norður fyrir Svalbarða og innan þjóðgarðs sem þekur stóran hluta eyjaklasans. Það virðast sem sagt ekki vera nein takmörk. Skipin sigla bara þangað sem markaður er fyrir án þess að umhverfis- og öryggismál séu í fyrirrúmi.

Öryggisþátturinn

Ef það gerist að skemmtiferðaskipi hlekkist á eða lendir í vandræðum á norðurslóð er eins gott að vera búinn að hugsa rækilega fyrirfram hvernig eigi að bregðast við, því það er enginn hægðarleikur að bjarga hundruðum eða þúsundum farþega.

Að mínu mati ætti alls ekki að vera sjálfgefið að þessi skip fái að sigla hvar sem er og á þeim tímum sem stjórnendum skipafélaganna þóknast. Í fæstum tilfellum eru björgunar- eða varðskip nálæg, hvað þá þegar þau eru komin norður fyrir Svalbarða, og því verður að gera þær kröfur að þau séu sem mest sjálfbjarga. Lykilatriði í því er að skemmtiferðaskip á norðurslóðum ættu alltaf að sigla tvö og tvö saman því eini möguleikinn til að bjarga þúsundum farþega af öðru skipi sem þyrfti að yfirgefa er að flytja þá yfir í annað skemmtiferðaskip. Það eru engin fiskiskip og fá eða engin björgunarskip sem mundu ráða við það og þar að auki bara heppni ef þau væru stödd í nágrenni við skemmtiferðaskip í vanda.

Ef skipafélögin fást ekki til að skipuleggja siglingarnar þannig að skipin séu a.m.k. tvö og tvö saman þurfa viðeigandi alþjóðlegar stofnanir að grípa í taumana.

Veisla fyrir ísbirnina?

Af því að ég nefndi Svalbarða þá má reikna með hafís þar allt árið þó það sé minna þegar líða fer á sumar, en þessi skip eru með fáum undantekningum ekki styrkt fyrir siglingar í ís og því óskiljanlegt að þeim sé leyft að sigla á því svæði með hundruð eða þúsundir farþega.

Sama á við um Grænland. Ef farþegaskip sem væri eitt á ferð mundi stranda eða hlekkjast á við Svalbarða eða Grænland og þyrfti að yfirgefa gæti það orðið svakaleg veisla fyrir ísbirnina. Það eru reyndar þyrlur á Svalbarða en það tæki þær marga daga að bjarga öllum farþegum af svona skipum og oftast hafa menn ekki svo mikinn tíma.

Haustið 2018 strandaði togari með fimmtán manna áhöfn norðan við Svalbarða. Það var meiriháttar mál að bjarga þeim með þyrlum og mátti engu muna. Næsta varðskip var þrjá daga að komast á staðinn og engin önnur skip nálæg. Ef þetta hefði verið skemmtiferðaskip með hundruð eða þúsundir farþega er líklegt að verulegt manntjón hefði orðið og gífurlegt umhverfisslys, innan þjóðgarðs.

Í apríl 2019 varð svo farþegaskip vélarvana við vesturströnd Noregs og munaði litlu að ræki upp í klettana. Áhöfninni tókst á síðustu stundu að gangsetja vélarnar og fór þar betur en á horfðist. Um borð voru eitt þúsund og þrjúhundruð farþegar. Fyrir utan líkur á manntjóni hefði það orðið mikið umhverfisslys ef skipið hefði strandað. Þetta eru bara tvö nýleg dæmi en hægt að nefna mun fleiri, þar sem lá við stórslysi.

Það ætti svo að vera spil með dráttarvír á þessum skipum til að geta tekið annað skip í tog og áhöfnin þyrfti að fá reglubundna þjálfun í notkun þess búnaðar. Kostnaður við þannig öryggisbúnað er bara brotabrot af smíðakostnaði skipanna og útgerðunum því engin vorkunn að útbúa þau með dráttarspilum.

Stærstu skemmtiferðaskip taka allt að 8 þúsund manns og fæst þeirra smíðuð til að sigla í hafís.
Stærstu skemmtiferðaskip taka allt að 8 þúsund manns og fæst þeirra smíðuð til að sigla í hafís.

Eitt nothæft varðskip til að draga skemmtiferðaskip

Við Íslandsstrendur er ástandið þannig að það er eitt nothæft varðskip sem gæti dregið skemmtiferðaskip í vanda og svo nokkur fjöldi fiskiskipa sem gætu það líka. Það er því mjög ólíklegt að varðskip yrði nálægt í neyð og fiskiskipin, sem oftast eru dreifð allt í kringum landið, það sem treysta þyrfti á. Áhafnir íslenskra fiskiskipa eru í flestum tilvikum mjög hæfar til að fást við svona aðstæður og margir lent í því áður að draga annað skip til hafnar. En eingöngu stærstu fiskiskipin hafa nægan togkraft en samt ekkert víst að hann mundi duga til að draga stórt skip í álandsvindi. En staðreyndin er samt sú að fiskiskip eru fyrst og fremst fiskiskip en ekki björgunarskip og því óverjandi að ætlast til að þau bjargi málum í neyð og gera engar aðrar ráðstafanir. Ég nefni fiskiskipin eingöngu vegna þess að í neyð getur þurft að nota allt sem hægt er nota til bjargar og auðvitað bregðast menn við neyðarkalli – alltaf.

Íslendingar eiga enga dráttarbáta sem eru nógu öflugir til að draga stór skemmtiferðaskip en Norðmenn marga. Það er fullkomlega óraunhæft að ætla að fjölga varðskipum þegar við eigum nú þegar fullt í fangi með að halda úti núverandi skipakosti vegna fjárskorts. Fraktskip geta svo ekki dregið önnur skip. Bæði er að þau eru ekki útbúin til þess og svo er stjórnhæfni þeirra svo takmörk[1]uð að þau gætu aldrei komið til hjálpar.

Það sama á svo við um Grænland, þar sem strandlengjan er löng en fá skip á ferli sem gætu komið til bjargar í neyð. Af ofangreindum ástæðum ættu skemmtiferðaskip alls ekki að hafa leyfi til að sigla nálægt ströndum, nema rétt á meðan þau eru að sigla til hafnar. Það gefst þá lengri tími til að bregðast við ef eitthvað fer úrskeiðis. Ef útgerðir skemmtiferðaskipa telja sig ekki hafa efni á að ganga almennilega um náttúruna og að sinna öryggismálum með viðun[1]andi hætti, ættu þau alls ekki að fá að sigla á þessum svæðum.

Samanburður við Titanic

Þann fjórtánda apríl 1912 fórst farþegaskipið Titanic eftir að hafa siglt á ísjaka, eins og allir vita. Það er líklega þekktasta sjóslys sögunnar. Af um 2.200 manns sem voru um borð fórust um 1.500. Skemmtiferðaskip nútímans geta tekið allt upp í 8.000 farþega, til samanburðar. Síðan Titanic sökk hafa auðvitað orðið miklar framfarir á öllum sviðum og ekki síst í öryggis- og fjarskiptamálum. Skipin eru betur búin og framfarir í siglingatækjum ótrúlegar. Það breytir því samt ekki að slys geta ennþá orðið og oftast er það mannlegi þátturinn sem klikkar, alveg eins og þegar Titanic sigldi á jakann. Það getur ennþá gerst að skemmtiferðaskip sigli á ísjaka. Flestir vita að aðeins um 1/10 af jakanum stendur upp úr sjónum en 9/10 er undir yfirborði og sést ekki. Á norðurslóðum getur verið mjög erfitt að sjá ísjaka í ratsjá í slæmu veðri. Sérstaklega jaka sem hafa brotnað úr skriðjöklunum en þeir eru oft bláir, grjótharðir og marra í yfirborðinu þó mikill massi sé undir. Svo fara skemmtiferðaskipin sífellt norðar, þar sem er meiri ís, og á slóðir sem Titanic hefði aldrei reynt að sigla á.

Björgunarbúnaður skipa nútímans er auðvitað miklu betri en var í Titanic en það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að ennþá er mjög erfitt að flytja fólk í hundraða- eða þúsundatali á milli skipa úti á rúmsjó. Það er erfitt, en framkvæmanlegt á löngum tíma, í góðu veðri en nær útilokað í slæmu veðri. Allir sem hafa siglt á norðurslóðum vita að það er langt frá því að alltaf sé fært á milli skipa, hvorki á björgunarbátum né eða á annan hátt. Það á við á sumrin líka.

Það er svo langt frá því að hafís sé eina hættan. Þessi skip geta orðið vélarvana á óheppilegum stöðum og svo geta þau líka strandað, eins og önnur skip. Það eru því miður mörg dæmi um það sem hefur kostað fjölda mannslífa á suðlægari slóðum en á norðurslóð bætist svo kuldinn við áhættuþættina og fólk sem lendir í sjónum lifir oftast ekki lengi.

Vaxandi skipaumferð fylgir svo aukin árekstrahætta

Og ennþá er ótalin ein mesta hættan en það er eldsvoði um borð í skipum. Eldur um borð í skipi er eitt það hræðilegasta sem sjófarendur geta lent í og ekki síst vegna þess að það er ekkert auðvelt að forða sér. Að sjálfsögðu getur komið upp eldur í skemmtiferðaskipum eins og öðrum skipum og þá reynir heldur betur á flóttaleiðirnar og möguleikana á að flytja mikinn fjölda farþega á milli skipa á stuttum tíma. Þá komum við aftur að því lykilatriði að þau sigli alltaf tvö og tvö saman.

Ég nefni þennan samanburð við Titanic vegna þess að það skip var talið ósökkvandi og að ekkert gæti komið fyrir það, en annað kom í ljós. Margir halda að ekkert geti komið fyrir þessi risastóru skemmtiferðaskip nútímans, en það er öðru nær. Ég efast um að farþegar geri sér almennt grein fyrir því.

Lokaorð

Einhver gæti sagt að ég grýti úr glerhýsi, þar sem ég er sjálfur að sigla á þessum slóðum. Því er til að svara að það er allur munur á að bjarga 15 til 25 manna áhöfn fiskiskips í neyð, samanborið við hundruð eða þúsundir manna af skemmtiferðaskipi. Þar að auki eru fiskiskipin útbúin með flotbjörgunarbúninga, sem halda hita á fólki í sjónum í talsverðan tíma, sem skemmtiferðaskipin eru ekki.

Ég geri auðvitað ekki lítið úr mikilvægi þeirra tekna sem koma með skemmtiferðaskipunum til þeirra hafna og sveitarfélaga sem þau heimsækja en fórnarkostnaðurinn getur verið mikill ef heildarmyndin er skoðuð. Er ásættanlegt að taka svona ofboðslega mikla áhættu í umhverfis- og öryggismálum á norðurslóðum? Nei, segi ég. Nei og aftur nei!

Höfundur er skipstjóri með áratugareynslu af siglingum á norðurslóðum.

Eftir Eirík Sigurðsson skipstjóra

Það er alþekkt að útgerðir skemmtiferðaskipa eru á meðal mestu umhverfissóða nútímans. Til dæmis er losun koltvísýrings þrisvar til fjórum sinnum meiri á hvern farþega en í fluginu, sem þykir þó langt frá því að vera til fyrirmyndar. Skemmtiferðaskip brenna flest svartolíu og það miklu af henni þar sem þetta eru oft risaskip með mjög stórar vélar.

Engar hömlur norðan Bretlandseyja

Skemmtiferðaskipin mega ekki brenna svartolíu þegar þau sigla á milli hafna í Evrópu en ég veit ekki hvað því banni er mikið fylgt eftir og efast satt að segja um að það sé mikið miðað við það sem ég þekki til þessara mála. En um leið og þau eru komin norður fyrir Bretlandseyjar eru engar hömlur og þau mega spúa út eins miklu eitri og þau vilja, án þess að nokkur skipti sér af.

Alþjóðasamfélagið býr til alls konar reglur og samþykktir um mengun en þeim er mismikið framfylgt og þetta er látið viðgangast. Það er óskiljanlegt að þeim sem um véla finnist í lagi að brenna svartolíu á norðurslóðum en ekki nær því sem þeir búa sjálfir og alls ekki nálægt Brussel.

Það er svo ekkert lítið af skolpi sem þessi skip losa í sjóinn þar sem upp í átta þúsund manns geta verið um borð í þeim stærstu – farþegar plús áhöfn. Þau hafa oft verið staðin að því að dæla út skolpi skammt frá ströndum. Svo er líka vitað að sum þeirra koma með mjög lítið af rusli í land miðað við það sem reikna má með frá skipum sem jafnast á við stærri bæi á Íslandi í fólksfjölda og mörg dæmi um að þau hendi rusli í sjóinn. En skipin eru auðvitað ekki öll svona stór og flest þeirra sem sigla á norðurslóðum taka frá nokkur hundruð og upp í tvö til þrjú þúsund farþega, en sama er. Um borð í stærsta skipinu sem kom til Íslands árið 2018 voru um 4.500 farþegar auk 1.500 manna áhafnar eða samtals um 6.000 manns.

Gróðahyggjan í fyrsta sæti

Þrátt fyrir að vera ekki umhverfisvænni en þetta er skemmtiferðaskipum leyft að sigla nær ótakmarkað á norðurslóðum þar sem náttúran er mjög viðkvæm og gífurleg umhverfispjöll gætu hlotist af slysi. Gróðahyggjan er þar í fyrsta sæti og aurar í kassann mikilvægari en umgengni um náttúruna.

Norðmenn fara með stjórn á Svalbarða og hafa loksins bannað brennslu svartolíu þar en með þeirri undantekningu að skip sem koma á Isfjord, þar sem megnið af byggðinni er, mega brenna henni. Af hverju skyldi það vera? Jú það er vegna þess að sprenging hefur orðið í komu skemmtiferðaskipa til höfuðstaðarins, Longyearbyen, á síðustu árum en sá bær stendur einmitt við Isfjord. Það má sem sagt ekki styggja skipafélögin með því að krefjast þess að þau láti skipin brenna umhverfisvænna eldsneyti, enda gæti gróðinn minnkað um einhver prómill. Þegar skemmtiferðaskip koma til hafnar á Íslandi liggja þau mjög oft alveg í miðbænum og steinsnar frá íbúabyggð. Það þarf mikla orku til að halda þeim gangandi þó þau séu ekki að sigla og því ekkert lítil mengun sem leggst yfir bæina. Þau mega ekki brenna svartolíu í landi en ég efast stórlega um að það sé alltaf farið eftir því. Nægilega öflugar landtengingar við rafmagn eru hvergi til og því verður að keyra ljósavélar.

Fyrir þá sem vita ekki hvernig svartolía er, þá verður hún eins og malbik þegar hún kólnar og nánast ómögulegt að hreinsa hana upp af norðlægum ströndum ef hún fer í sjóinn. Skemmtiferðaskipin eru í flestum tilfellum með óhemju magn af svartolíu í tönkum.

Mikill fjöldi skemmtiferðaskipa er á ferðinni við Grænland, Ísland, Noreg og Svalbarða, sérstaklega á sumrin. En tímabilið er stöðugt að lengjast í báðar áttir. Byrjar fyrr á vorin og endar seinna á haustin. Ég hef mikið siglt á norðurslóðum og síðustu ár hef ég séð skemmtiferðaskip sigla jafnvel norður fyrir Svalbarða og innan þjóðgarðs sem þekur stóran hluta eyjaklasans. Það virðast sem sagt ekki vera nein takmörk. Skipin sigla bara þangað sem markaður er fyrir án þess að umhverfis- og öryggismál séu í fyrirrúmi.

Öryggisþátturinn

Ef það gerist að skemmtiferðaskipi hlekkist á eða lendir í vandræðum á norðurslóð er eins gott að vera búinn að hugsa rækilega fyrirfram hvernig eigi að bregðast við, því það er enginn hægðarleikur að bjarga hundruðum eða þúsundum farþega.

Að mínu mati ætti alls ekki að vera sjálfgefið að þessi skip fái að sigla hvar sem er og á þeim tímum sem stjórnendum skipafélaganna þóknast. Í fæstum tilfellum eru björgunar- eða varðskip nálæg, hvað þá þegar þau eru komin norður fyrir Svalbarða, og því verður að gera þær kröfur að þau séu sem mest sjálfbjarga. Lykilatriði í því er að skemmtiferðaskip á norðurslóðum ættu alltaf að sigla tvö og tvö saman því eini möguleikinn til að bjarga þúsundum farþega af öðru skipi sem þyrfti að yfirgefa er að flytja þá yfir í annað skemmtiferðaskip. Það eru engin fiskiskip og fá eða engin björgunarskip sem mundu ráða við það og þar að auki bara heppni ef þau væru stödd í nágrenni við skemmtiferðaskip í vanda.

Ef skipafélögin fást ekki til að skipuleggja siglingarnar þannig að skipin séu a.m.k. tvö og tvö saman þurfa viðeigandi alþjóðlegar stofnanir að grípa í taumana.

Veisla fyrir ísbirnina?

Af því að ég nefndi Svalbarða þá má reikna með hafís þar allt árið þó það sé minna þegar líða fer á sumar, en þessi skip eru með fáum undantekningum ekki styrkt fyrir siglingar í ís og því óskiljanlegt að þeim sé leyft að sigla á því svæði með hundruð eða þúsundir farþega.

Sama á við um Grænland. Ef farþegaskip sem væri eitt á ferð mundi stranda eða hlekkjast á við Svalbarða eða Grænland og þyrfti að yfirgefa gæti það orðið svakaleg veisla fyrir ísbirnina. Það eru reyndar þyrlur á Svalbarða en það tæki þær marga daga að bjarga öllum farþegum af svona skipum og oftast hafa menn ekki svo mikinn tíma.

Haustið 2018 strandaði togari með fimmtán manna áhöfn norðan við Svalbarða. Það var meiriháttar mál að bjarga þeim með þyrlum og mátti engu muna. Næsta varðskip var þrjá daga að komast á staðinn og engin önnur skip nálæg. Ef þetta hefði verið skemmtiferðaskip með hundruð eða þúsundir farþega er líklegt að verulegt manntjón hefði orðið og gífurlegt umhverfisslys, innan þjóðgarðs.

Í apríl 2019 varð svo farþegaskip vélarvana við vesturströnd Noregs og munaði litlu að ræki upp í klettana. Áhöfninni tókst á síðustu stundu að gangsetja vélarnar og fór þar betur en á horfðist. Um borð voru eitt þúsund og þrjúhundruð farþegar. Fyrir utan líkur á manntjóni hefði það orðið mikið umhverfisslys ef skipið hefði strandað. Þetta eru bara tvö nýleg dæmi en hægt að nefna mun fleiri, þar sem lá við stórslysi.

Það ætti svo að vera spil með dráttarvír á þessum skipum til að geta tekið annað skip í tog og áhöfnin þyrfti að fá reglubundna þjálfun í notkun þess búnaðar. Kostnaður við þannig öryggisbúnað er bara brotabrot af smíðakostnaði skipanna og útgerðunum því engin vorkunn að útbúa þau með dráttarspilum.

Stærstu skemmtiferðaskip taka allt að 8 þúsund manns og fæst þeirra smíðuð til að sigla í hafís.
Stærstu skemmtiferðaskip taka allt að 8 þúsund manns og fæst þeirra smíðuð til að sigla í hafís.

Eitt nothæft varðskip til að draga skemmtiferðaskip

Við Íslandsstrendur er ástandið þannig að það er eitt nothæft varðskip sem gæti dregið skemmtiferðaskip í vanda og svo nokkur fjöldi fiskiskipa sem gætu það líka. Það er því mjög ólíklegt að varðskip yrði nálægt í neyð og fiskiskipin, sem oftast eru dreifð allt í kringum landið, það sem treysta þyrfti á. Áhafnir íslenskra fiskiskipa eru í flestum tilvikum mjög hæfar til að fást við svona aðstæður og margir lent í því áður að draga annað skip til hafnar. En eingöngu stærstu fiskiskipin hafa nægan togkraft en samt ekkert víst að hann mundi duga til að draga stórt skip í álandsvindi. En staðreyndin er samt sú að fiskiskip eru fyrst og fremst fiskiskip en ekki björgunarskip og því óverjandi að ætlast til að þau bjargi málum í neyð og gera engar aðrar ráðstafanir. Ég nefni fiskiskipin eingöngu vegna þess að í neyð getur þurft að nota allt sem hægt er nota til bjargar og auðvitað bregðast menn við neyðarkalli – alltaf.

Íslendingar eiga enga dráttarbáta sem eru nógu öflugir til að draga stór skemmtiferðaskip en Norðmenn marga. Það er fullkomlega óraunhæft að ætla að fjölga varðskipum þegar við eigum nú þegar fullt í fangi með að halda úti núverandi skipakosti vegna fjárskorts. Fraktskip geta svo ekki dregið önnur skip. Bæði er að þau eru ekki útbúin til þess og svo er stjórnhæfni þeirra svo takmörk[1]uð að þau gætu aldrei komið til hjálpar.

Það sama á svo við um Grænland, þar sem strandlengjan er löng en fá skip á ferli sem gætu komið til bjargar í neyð. Af ofangreindum ástæðum ættu skemmtiferðaskip alls ekki að hafa leyfi til að sigla nálægt ströndum, nema rétt á meðan þau eru að sigla til hafnar. Það gefst þá lengri tími til að bregðast við ef eitthvað fer úrskeiðis. Ef útgerðir skemmtiferðaskipa telja sig ekki hafa efni á að ganga almennilega um náttúruna og að sinna öryggismálum með viðun[1]andi hætti, ættu þau alls ekki að fá að sigla á þessum svæðum.

Samanburður við Titanic

Þann fjórtánda apríl 1912 fórst farþegaskipið Titanic eftir að hafa siglt á ísjaka, eins og allir vita. Það er líklega þekktasta sjóslys sögunnar. Af um 2.200 manns sem voru um borð fórust um 1.500. Skemmtiferðaskip nútímans geta tekið allt upp í 8.000 farþega, til samanburðar. Síðan Titanic sökk hafa auðvitað orðið miklar framfarir á öllum sviðum og ekki síst í öryggis- og fjarskiptamálum. Skipin eru betur búin og framfarir í siglingatækjum ótrúlegar. Það breytir því samt ekki að slys geta ennþá orðið og oftast er það mannlegi þátturinn sem klikkar, alveg eins og þegar Titanic sigldi á jakann. Það getur ennþá gerst að skemmtiferðaskip sigli á ísjaka. Flestir vita að aðeins um 1/10 af jakanum stendur upp úr sjónum en 9/10 er undir yfirborði og sést ekki. Á norðurslóðum getur verið mjög erfitt að sjá ísjaka í ratsjá í slæmu veðri. Sérstaklega jaka sem hafa brotnað úr skriðjöklunum en þeir eru oft bláir, grjótharðir og marra í yfirborðinu þó mikill massi sé undir. Svo fara skemmtiferðaskipin sífellt norðar, þar sem er meiri ís, og á slóðir sem Titanic hefði aldrei reynt að sigla á.

Björgunarbúnaður skipa nútímans er auðvitað miklu betri en var í Titanic en það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að ennþá er mjög erfitt að flytja fólk í hundraða- eða þúsundatali á milli skipa úti á rúmsjó. Það er erfitt, en framkvæmanlegt á löngum tíma, í góðu veðri en nær útilokað í slæmu veðri. Allir sem hafa siglt á norðurslóðum vita að það er langt frá því að alltaf sé fært á milli skipa, hvorki á björgunarbátum né eða á annan hátt. Það á við á sumrin líka.

Það er svo langt frá því að hafís sé eina hættan. Þessi skip geta orðið vélarvana á óheppilegum stöðum og svo geta þau líka strandað, eins og önnur skip. Það eru því miður mörg dæmi um það sem hefur kostað fjölda mannslífa á suðlægari slóðum en á norðurslóð bætist svo kuldinn við áhættuþættina og fólk sem lendir í sjónum lifir oftast ekki lengi.

Vaxandi skipaumferð fylgir svo aukin árekstrahætta

Og ennþá er ótalin ein mesta hættan en það er eldsvoði um borð í skipum. Eldur um borð í skipi er eitt það hræðilegasta sem sjófarendur geta lent í og ekki síst vegna þess að það er ekkert auðvelt að forða sér. Að sjálfsögðu getur komið upp eldur í skemmtiferðaskipum eins og öðrum skipum og þá reynir heldur betur á flóttaleiðirnar og möguleikana á að flytja mikinn fjölda farþega á milli skipa á stuttum tíma. Þá komum við aftur að því lykilatriði að þau sigli alltaf tvö og tvö saman.

Ég nefni þennan samanburð við Titanic vegna þess að það skip var talið ósökkvandi og að ekkert gæti komið fyrir það, en annað kom í ljós. Margir halda að ekkert geti komið fyrir þessi risastóru skemmtiferðaskip nútímans, en það er öðru nær. Ég efast um að farþegar geri sér almennt grein fyrir því.

Lokaorð

Einhver gæti sagt að ég grýti úr glerhýsi, þar sem ég er sjálfur að sigla á þessum slóðum. Því er til að svara að það er allur munur á að bjarga 15 til 25 manna áhöfn fiskiskips í neyð, samanborið við hundruð eða þúsundir manna af skemmtiferðaskipi. Þar að auki eru fiskiskipin útbúin með flotbjörgunarbúninga, sem halda hita á fólki í sjónum í talsverðan tíma, sem skemmtiferðaskipin eru ekki.

Ég geri auðvitað ekki lítið úr mikilvægi þeirra tekna sem koma með skemmtiferðaskipunum til þeirra hafna og sveitarfélaga sem þau heimsækja en fórnarkostnaðurinn getur verið mikill ef heildarmyndin er skoðuð. Er ásættanlegt að taka svona ofboðslega mikla áhættu í umhverfis- og öryggismálum á norðurslóðum? Nei, segi ég. Nei og aftur nei!

Höfundur er skipstjóri með áratugareynslu af siglingum á norðurslóðum.