Vinnslustöðin hefur stofnað dótturfélagið VSV Finland Oy og ráðið til þess finnskt starfsfólk sem aflað hefur sér reynslu og þekkingar á innflutningi á eldislaxi og markaðssetningu, sölu og dreifingu á laxi í Finnlandi og í Eystrasaltsríkjunum.

Meginverkefni VSV Finland verður að flytja inn fisk og sjávarfang frá Íslandi og öðrum norrænum ríkjum til sölu og dreifingar í Finnlandi og á öðrum mörkuðum í Evrópu.

Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að fyrirtækið sé að nokkru leyti að fara inn á nýjar brautir með dótturfélaginu í Finnlandi. Vinnslustöðin hafi ekki verið með starfsemi í laxeldi eða laxaafurðum og þarna hafi einfaldlega spennandi tækifæri komið upp. Málið snúist meðal annars um viðskipti með lax en Vinnslustöðin sjálf sé ekki á leið í laxeldi.

„Starfsmenn VSV Finland Oy koma til okkar með viðskiptasambönd sem felast í því að kaupa eldislax í Noregi og selja í Finnlandi og Eystrasaltsríkjunum. Þarna eru vissulega nýir snertifletir sem okkur þykir mjög áhugavert að vinna með og augljóslegar eru miklir möguleikar í laxeldinu, atvinnugrein sem er alls staðar í mikilli sókn og örum vexti.“