Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir ungvísitölu undir 50 milljörðum „ekki endilega ávísun á núll lokaveiðráðgjöf árið eftir. Því verður tíminn að leiða það í ljós hvort úr rætist."

Þá sé erfitt að átta sig á því hvers vegna minna mældist af loðnu núna en í upphafsráðgjöfinni sem gefin var út síðasta haust.

„Þetta er spurning sem við höfum sannarlega velt fyrir okkur en höfum ekki svarið við,“ segir Guðmundur í skriflegu svari til Fiskifrétta. „Almennt þá eru nokkrir þættir sem geta stuðlað að lægri mælingum en ella og aukið þannig á óvissu þeirra. Hægt er að nefna að yfirferðasvæði leiðangra hafi ekki náð yfir útbreiðslu stofns. Fiskur standi það grunnt að hann sé ofan við dýptarmæla skipanna að einhverju leyti eða það grunnt að fiskurinn hörfi undan skipi og þá mælum að einhverju leyti. Þá eru líka þættir sem geta stuðlað að ýmist lægri eða hærri mælingum. Varðandi loðnuna þá eru endurvarpseiginleikar hennar ekki almennilega þekktir ennþá og þá sérstakleg hvernig þeir breytast með dýpi og fituinnihaldi hennar. Það er því ekki tekið tillit til þessara þátta við mælingar en þeir geta valdið kerfisbundnum skekkjum í bergmálsmælingum ef loðna er t.d. frekar djúpt eitt árið í samanburði við annað. Loks, í úrvinnslu á bergmálsgögnum eru túlkanir á endurvarpi með tilliti til tegunda alltaf háð einhverri í óvissu í báðar áttir. Varðandi loðnumælingarnar þá sást mikið af hval á svæðinu en áhrif þeirra með tilliti til afráns og áhrif á útbreiðslu loðnu er illa þekkt.“

Hafrannsóknastofnun telur ekki ráðlegt að veiða meira en 218.400 tonn af loðnu núna í vetur, sem er hátt í helmingi minna en þau 400.000 tonn sem upphafsráðgjöfin frá síðasta ári hafði gefið vonir um. Sú ráðgjöf var byggð á því sem magni mældist af ókynþroska loðnu í haustmælingum haustið 2021.

Í mælingunni núna mældist ókynþroska loðna í fjölda vera um 41 milljarður, en í frétt stofnunarinnar segir að samkvæmt samþykktri aflareglu þurfi „yfir 50 milljarða til að mælt verði með upphafsaflamarki fiskveiðiársins 2023/2024.“

Guðmundur var spurður nánar út í þetta. Hvað það þýði að ekki sé hægt að mæla með upphafsaflamarki vegna þess að yfir 50 milljarða þurfi af ókynþroska loðnu í magni. Hvort 41 milljarður teljist þá vera lítið magn og hvort það gefi ástæðu til að ætla að loðnubrestur, eða mjög lítið af loðnu, geti orðið næst?

„Þetta er samkvæmt aflareglu sem hefur verið samþykkt af Alþjóðahafrannsóknarráðinu því hún stendst varúðarsjónarmið og þetta er sú regla sem stjórnvöld hafa ákveðið að framfylgja. Aflareglan byggir á greiningum á gögnum fyrri ára sem sýna að fjöldi ungviðs að hausti undir 50 milljörðum sé að öllu jöfnu ekki nægjanlegur til að gefa út veiðiráðgjöf ári seinna með þeim formerkjum að skilja eftir amk 150 þús tonn til hrygningar með meira en 95% líkum. Með öðrum orðum, nýliðunin virðist hafa verið slök. Sagan segir okkur hinsvegar að ungvísitala undir 50 milljörðum sé ekki endilega ávísun á núll lokaveiðráðgjöf árið eftir. Því verður tíminn að leiða það í ljós hvort úr rætist.“