Norska rannsóknastofnunin Nofima telur sig hafa fundið upp tækni til að finna hringorma í fiski og fjarlægja þá áður en fiskurinn berst á disk neytenda.

Um er að ræða svonefnda litrófssjá sem þegar er í notkun í mörgum fiskvinnslum til þess að meta gæði hvítfisks og laxaflaka. Nota á litrófssjána til þess að greina hringorma í flökum hvítfisks. Með tækninni verður bæði hægt að finna hringorma og fjarlægja þá úr flökunum.

Þótt hringormum fylgi ekki alvarleg heilsuvá er mikilvægt fyrir sjávarútveginn að fjarlægja þá úr afurðum sínum vegna þess að þeir hafa áhrif á gæði afurðanna og skapa afar neikvæð viðbrögð verði neytendur þeirra varir. Hringorma er að finna í villtum fiski. Yfirleitt komast þeir í innyfli fiska með fæðu þeirra og stundum komast þeir í gegnum holdið. Komist þeir í mannslíkamann við neyslu á hráum fiski geta þeir valdið kviðverkjum og ógleði.

hringormur
hringormur
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hringormar drepast við suðu, steikingu, þurrkun, söltun og frystingu fisks. Tæknilausnin, sem kallast Maritech Eye, var þróuð af Nofima í samstarfi við norsku hugbúnaðarsamstæðuna Maritech og norska rafeindarannsóknafyrirtækið Norsk Elektro Optikk.

Tæknin hefur verið prófuð af portúgalska fiskframleiðandanum MareDeus og verslanakeðjan Mercadona var einnig þáttakandi í prófununum.

Hér má sjá ítarlegri grein um þessa tækni.