Vegagerðin í samvinnu við Sæferðir og Stykkishólmsbæ hefur tekið á leigu dráttarbátinn Gretti Sterka. Báturinn verður til taks á Breiðafirði meðan beðið er eftir nýrri Breiðafjarðarferju í stað Baldurs. Það eru Sæferðir sem sjá um mönnun dráttarbátsins en með því á að tryggja að fyrsta viðbragð við atvikum á Breiðafirði verði eins og best verður á kosið miðað við aðstæður. Greint er frá þessu í www.skessuhorn.is.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðarráðherra sagði á vef www.bb.is 5. september sl. að ný Breiðafjarðarferja væri væntanleg til landsins um áramót og að; „tímabært sé að nýtt skip taki við þjónustunni þar sem núverandi skip er barn síns tíma. Á meðan beðið er eftir nýju skipi verður tryggt að dráttarbátur verði til staðar í Breiðafirði,“ sem varð svo raunin í byrjun vikunnar þegar Grettir Sterki kom til Stykkishólms.

Siglingar yfir Breiðafjörð falla undir þjónustu Vegagerðarinnar og hefur hún nú um nokkurt skeið haft öll sín spjót úti við leit að „nýjum Baldri“. Skessuhorn kallaði eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um stöðuna, hvort búið væri að finna skip og hvort sá tímarammi sem innviðarráðherra gaf upp stæðist. Sólveig Gísladóttir, sérfræðingur á samskiptadeild Vegagerðarinnar, segist ekki geta staðfest að nýtt skip væri væntanlegt um áramót. Verið sé að undirbúa útboð sem verði auglýst á næstu vikum. „Í útboðinu er óskað eftir öðru skipi til þess að leysa Baldur af og það eru þá líklega einhver tímamörk á því sem gæti passað að séu öðru hvorum megin við áramót,“ segir Sólveig. Þá fengust ekki upplýsingar um hvort horft sé til leigu eða kaups á nýrri ferju.

Nú nýlega hafa með stuttu millibili komið upp tvær alvarlegar bilanir í vél Baldurs sem olli því að skipið varð vélarvana. Þá hefur bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar síðustu misseri ítrekað lagt áherslu á að annað skip hefji siglingar yfir Breiðafjörð sem allra fyrst þar sem núverandi ferja standist ekki nútímakröfur. Bæjarstjórnin fagnar því að nú sé búið að bregðast við ákallinu og bæta viðbúnað.

Grettir sterki er einn þriggja dráttarbáta sem bræðurnir Bragi og Ævar Valgeirssynir, eigendur Togskipa, dótturfélag Skipaþjónustunnar, keyptu frá Nígeríu árið 2018. Báturinn er 28 metra langur og með 50 tonna togkrafti. Sagt frá umsvifum og rekstri þeirra bræðra í Fiskifréttum í nóvember 2019.

Vegagerðin í samvinnu við Sæferðir og Stykkishólmsbæ hefur tekið á leigu dráttarbátinn Gretti Sterka. Báturinn verður til taks á Breiðafirði meðan beðið er eftir nýrri Breiðafjarðarferju í stað Baldurs. Það eru Sæferðir sem sjá um mönnun dráttarbátsins en með því á að tryggja að fyrsta viðbragð við atvikum á Breiðafirði verði eins og best verður á kosið miðað við aðstæður. Greint er frá þessu í www.skessuhorn.is.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðarráðherra sagði á vef www.bb.is 5. september sl. að ný Breiðafjarðarferja væri væntanleg til landsins um áramót og að; „tímabært sé að nýtt skip taki við þjónustunni þar sem núverandi skip er barn síns tíma. Á meðan beðið er eftir nýju skipi verður tryggt að dráttarbátur verði til staðar í Breiðafirði,“ sem varð svo raunin í byrjun vikunnar þegar Grettir Sterki kom til Stykkishólms.

Siglingar yfir Breiðafjörð falla undir þjónustu Vegagerðarinnar og hefur hún nú um nokkurt skeið haft öll sín spjót úti við leit að „nýjum Baldri“. Skessuhorn kallaði eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um stöðuna, hvort búið væri að finna skip og hvort sá tímarammi sem innviðarráðherra gaf upp stæðist. Sólveig Gísladóttir, sérfræðingur á samskiptadeild Vegagerðarinnar, segist ekki geta staðfest að nýtt skip væri væntanlegt um áramót. Verið sé að undirbúa útboð sem verði auglýst á næstu vikum. „Í útboðinu er óskað eftir öðru skipi til þess að leysa Baldur af og það eru þá líklega einhver tímamörk á því sem gæti passað að séu öðru hvorum megin við áramót,“ segir Sólveig. Þá fengust ekki upplýsingar um hvort horft sé til leigu eða kaups á nýrri ferju.

Nú nýlega hafa með stuttu millibili komið upp tvær alvarlegar bilanir í vél Baldurs sem olli því að skipið varð vélarvana. Þá hefur bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar síðustu misseri ítrekað lagt áherslu á að annað skip hefji siglingar yfir Breiðafjörð sem allra fyrst þar sem núverandi ferja standist ekki nútímakröfur. Bæjarstjórnin fagnar því að nú sé búið að bregðast við ákallinu og bæta viðbúnað.

Grettir sterki er einn þriggja dráttarbáta sem bræðurnir Bragi og Ævar Valgeirssynir, eigendur Togskipa, dótturfélag Skipaþjónustunnar, keyptu frá Nígeríu árið 2018. Báturinn er 28 metra langur og með 50 tonna togkrafti. Sagt frá umsvifum og rekstri þeirra bræðra í Fiskifréttum í nóvember 2019.