Ekkó toghlerar hafa fengið einkaleyfi fyrir vænglaga  formi hönnunar sinnar á toghlerum og fyrirtækið er í umsóknarferli um einkaleyfi fyrir fjórum öðrum hönnunarlausnum í tengslum við hlerana. Smári Jósafatsson framkvæmdastjóri segir einkaleyfin nauðsynleg til að vernda nýjungarnar sem felast í Ekkó hlerunum.

Mikilvægasta einkaleyfið er í höfn sem er formið á toghlerum fyrirtækisins. Þetta er vængjalega form með einum eða fleiri „spoilerum“. Vængjalaga hlerinn er með holrúmi og komið er einkaleyfi fyrir hönnuninni í Evrópu, Rússlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu.

„Næstu einkaleyfi eru í vinnslu og eitt þeirra er svokallaður loftlás sem er í einkaleyfisferli. Hann er með bolta um og afvirkjaður með því að taka boltann úr. Með þessu loftrýmiskerfi er hægt að stjórna fiskidýpi Ekkó hleranna á flottrollsveiðum.  Og, þegar snúið er á grunnslóð með mikinn vír úti er alltaf hætta á að hlerar falli. Með loftlásnum sé þetta vandamál úr sögunni. Hann haldi hlerunum stöðugum.

Þessi búnaður hefur verið prófaður með góðum árangri m.a. af Ingimar Hinrik Reynissyni skipstjóra á Hring SH og fjallað var um í Fiskifréttum 1. júlí síðastliðinn. Ein stilling á loftlásrými virkar heila vertíð. Þeir á Hring hafa til dæmis verið með loftlásinn virkann frá því Ekkó hlerarnir voru teknir í notkun á seinasta ári.

Breytileg þyngd

Þriðja nýjungin er svokallað þyngdarbreytingakerfi. Það felur í sér að hægt er að opna hólf á hleranum. Þar sem hlerinn er tvöfaldur er rými inni í honum. Hólfin eru misjafnlega stór eftir hlerastærð. Hólfin geta verið allt frá einu og upp í þrjú. Inni í hólfunum má koma fyrir keðjum til að þyngja hlerana tímabundið. Hingað til hefur þurft að láta þyngja hlerana inni á dekki eða í landi ef til stendur að fiska á dýpri slóð. Með þyngdarbreytingakerfinu  eru hlerarnir þyngdir þar sem þeir hanga í gálga skipsins. Síðan er hvenær sem er hægt að opna hólfin á ný og taka út þyngingarnar ef aðstæður til veiða breytast, segir Smári.

Með þessu móti þarf síður að taka hlerana inn á dekk sem er mikið framfaraspor í öryggismálum.

Hann segir að ferlið í kringum einkaleyfaumsóknir sé tímafrekt og kostnaðarsamt og hlaupi á tugum milljóna króna. Sú ákvörðun hafi verið tekin að fara þessa leið svo aðrir toghleraframleiðendur taki ekki upp tæknilausnir Ekkó toghlera og geri að sínum.

Umhverfið

Fjórða einkaleyfið sem er í vinnslu snýst um framstroffutengingu sem er bein afleiðing af litlu toghorni Ekkó hleranna, eða 20-25°.

„Við prófuðum þetta í tönkunum, bæði í Kanada og Hirtshals í Danmörku og þetta svínvirkar. Umsókn fyrir fimmta einkaleyfinu var síðan lögð fram 2019 og snýst í grófum dráttum um veiðihæfni Ekkó toghleranna við flottrollsveiðar,“ segir Smári en getur ekki upplýst nánar í hverju sú tæknilausn felst.

Hann væntir þess að fjögur einkaleyfi sem nú eru í umsóknarferli klárist á þessu og næsta ári. Einkaleyfin skipti miklu máli hvað varðar aðdráttarafl fyrirtækisins gagnvart fjárfestum. Umhverfissjónarmið skipti ekki síður máli því bæði formið og loftlástæknin geri hlerana einstaklega umhverfisvæna.

„Sem dæmi um þetta má nefna að slitskórnir á hleraparinu á Hring SH eru rétt rispaðir. Vanalega eru slitskór uppslitnir eftir 7-8  mánuði. Ekkó hlerarnir dragast ekki eftir botninum, heldur svífa þeir stöðugir á eða rétt fyrir ofan botn. Þetta dregur einnig svo um munar úr olíunotkun við togveiðar.“