Ástand sjávar fer ört versnandi og verði helstu ógnum ekki mætt strax má búast við verulega neikvæðum áhrifum á heimsbúskapinn.

Peter Haugan, verkefnastjóri hjá norsku Hafrannsóknastofnunni, greindi frá því á ráðstefnunni North Atlantic Seafood Forum (NASF) að hugsanlega þýddi það hreint fjárhagslegt tap upp á 400 milljarða dala árið 2050 að bregðast ekki við ógnum eins og ofveiði, plastmengun í hafinu, súrnun sjávar og hlýnun.

Aðgerðir geta þvert á móti stórbætt heimsbúskapinn til framtíðar litið og ekki síst bætt horfur fátækari landa sem reiða sig mjög á hafið við öflun fæðu. Talið er að þrír milljarðar manna reiði sig á sjávarfang sem sína helstu uppsprettu fæðu.

50% á 50 árum

Haugan lagði þunga áherslu að skilningur heimsbyggðarinnar fyrir mikilvægi hafsins í hagkerfi heimsins aukist og það muni aðeins verða brýnna eftir því sem tímanum vindur fram.

Sú ævintýralega háa upphæð sem hér var nefnd á undan er þó aðeins hógvært mat, að óbreyttu. Um fæðuöryggi heimsins er um að tefla. Eins mun flóð plastefna í hafið þrefaldast frá því sem nú er með sama áframhaldi, og nema 29 milljónum tonna á ári eftir um 20 ár.

Til að byggja undir orð sín benti Haugen á að líffræðileg fjölbreytni hafsins hafi minnkað um 50% á síðustu 50 árum. Það stórsér á kóralrifjum sem er sérstakt áhyggjuefni, bæði með tilliti til ferðaþjónustu fjölda landa og viðkomu fiskistofna.

Haugan greindi frá því að hið svokallaða Ocean Panel, fjölþjóðlegur samráðsvettvangur um málefni hafsins, hefði í úttektum sínum komist að því að hafið geti gefið sexfalda uppskeru frá því sem nú er og þá helst með auknu fiskeldi og nýtingu sjávargróðurs.

„Það verður ekki mikil aukning í veiðum á villtum tegundum, en ef við gerum ekkert þá munu þær veiðar minnka stórum. Það er mikill munur á því að auka þær veiðar um fimmtung eða að þær dragist saman um annað eins,“ sagði Haugan.