„Þetta hefur verið afburða gott skip,“ segir Ólafur H. Marteinsson, aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri útgerðar hjá Ísfélaginu, um Múlabergið sem selt hefur verið til niðurrifs í Belgíu.

Á leið sinni frá Siglufirði kom Múlaberg í dag við á Þórshöfn í Þistilfirði til að dæla umframolíu í land áður en förinni verður haldið áfram til Belgíu í kvöld þar sem skipið verður eftir helgi.

Ólafur segir Múlabergið hafa reynst einstaklega vel. „Það hefur verið mjög öruggt í rekstri en barn síns tíma orðið og við erum að fá nýtt skip snemma á næsta ári,“ segir hann og á þá við togarann Sigurbjörgu sem verið er að smíða í Tyrklandi.

Af Japanstogurunum sem komu til Íslands fyrir hálfri öld er nú aðeins eftir Ljósafell SU á Fáskrúðsfirði. Það skip var nýlega í yfirhalningu í Færeyjum. Múlabergið sigldi hins vegar sína hinstu veiðiferð í haust var áhöfninni sagt upp í kjölfarið.