„Við erum aðallega í þorski núna og eitthvað í löngu, keilu og ufsa,“ segir Sigurður Jónsson, rekstrarstjóri í saltfiskvinnslu Vísis í Grindavík, inntur eftir gangi mála í vinnslunni.

Fiskinn í vetur segir Sigurður hafa verið afar góðan. „Þetta er búinn að vera mjög vænn fiskur. Við höfum yfirleitt verið í smáfiski á haustin en hann sást varla,“ segir hann. Þetta þýði að meira magn af fiski fari í gegnum vinnsluna. Og hann sé verðmætari.

„Það er alltaf hærra verð fyrir stærri fiskinn. Þetta eru auðvitað mismunandi markaðir. Uppistaðan af smáfisknum fer á Grikkland og stóri fiskurinn fer mikið á Ítalíu og á Spán,“ segir Sigurður. Markaðirnir í þessum löndum hafi hver sinn tíma.

„Ítalía er meira fyrir jólin en Spánn kannski meira fyrir páskana,“ útskýrir Sigurður. Auk þess sem nú sé framleitt fyrir Spán sé verið að safna fyrir Ítalíumarkað í haust.

Sama starfsfólk og fyrir gos

Landað úr Páli Jónssyni GK í Grindavík á dögunum. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson
Landað úr Páli Jónssyni GK í Grindavík á dögunum. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Að sögn Sigurðar starfa um sextíu manns í saltfiskvinnslunni hjá Vísi, fimmtíu í salthúsinu og tíu í þjónustuhúsinu. „Við erum líka í portfiskframleiðslu fyrir Portúgal sem er öðruvísi framleiðsla. Það er lakari fiskur. Við notum línufiskinn aðallega á Ítalíu, Spán og Grikkland og síðan notum við trollfiskinn inn á Portúgal,“ segir hann.

Starfsfólkið hjá Vísi er meira og minna sami mannskapur og vann hjá fyrirtækinu við upphaf náttúruhamfaranna sem enn ekki sér fyrir endann á.

„Við höfum verið mjög heppin með það að fólk sem vinnur hér hefur frekar langan starfsaldur,“ segir Sigurður.

Eins og stendur hefur starfsfólkið ekki búsetu í Grindavík. „Þetta er aðallega fólk sem er í Vogunum, í Keflavík og einhverjir búa í Garðinum,“ segir Sigurður sem sjálfur bjó í Grindavík en er nú í Kópavogi þaðan sem hann ekur til vinnu.

Í Grindavík í tæpt ár

Aðspurður segir Sigurður hættuna á jarðhræringum og eldgosum ekki vera honum ofarlega í huga dags daglega. „Mér líður hvergi betur en í Grindavík,“ segir hann. Það versta sé þegar Grindavíkurvegur lokist.

„Það lengir ferðina. Þá þarf að fara Suðurstrandarveginn eða Nesveginn. Til dæmis er fólk sem býr í Vogunum sautján mínútur hérna yfir þegar Grindavíkurvegurinn er opinn en er fjörutíu ef það þarf að fara Nesveginn. En þeir hafa nú verið fljótir að opna,“ segir Sigurður.

Vinnslan í Grindavík er sem sagt á fullum afköstum og þannig verður það áfram segir Sigurður. „Við fórum inn í Helguvík á sínum tíma í fyrra en erum búin að vera hérna síðan fyrir páska. Það fer að verða komið ár síðan.“