Íslenski makrílveiðiflotinn færði sig úr íslensku lögsögunni í Síldarsmuguna eftir síðustu helgi. Vilhelm Þorsteinsson EA kom með 1.260 tonn til Neskaupstaðar á miðvikudag og vinnslu úr honum lauk í morgun. Fiskurinn úr Vilhelm var smærri en sá fiskur sem fékkst í íslensku lögsögunni eða um 380 grömm. Annars virðist fiskurinn sem fæst í Síldarsmugunni vera misjafn að stærð.

Snemma í morgun var Börkur NK kominn til Neskaupstaðar með 1.700-1.800 tonn og er vinnsla á aflanum að hefjast.

Rætt er við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra á Berki á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

„Veiðarnar ganga mjög misjafnlega. Stundum koma góð skot en svo getur verið lítið þess á milli og það fer töluverður tími í leit. Fiskurinn er afar fljótur í förum og segja má að allar veiðifréttir á makrílmiðunum séu gamlar fréttir. Það getur verið góð veiði á einum stað þessa stundina en þá næstu er allur fiskur horfinn. Við vorum að veiðum austan til í Smugunni um 30-40 mílur frá færeysku línunni. Skipin í okkar veiðisamstarfi fengu mjög gott skot á miðvikudag en síðan hefur verið minna að fá og töluvert leitað. Fiskurinn sem við erum með núna er heldur stærri en veiddist fyrst eftir að skipin færðu sig í Smuguna en hann er um 460 grömm. Það er minni áta í fiskinum þarna en var í fiskinum sem veiddist í íslensku lögsögunni og það er gott,” segir Hálfdan