Norskir útgerðarmenn hafa ekki verið jafn áhugasamir um þorskveiðar við Jan Mayen eins og undanfarin ár. Norska Hafrannsóknastofnuninni hefur gefið út ráðgjöf sína fyrir árið 2022 en stjórnvöld hafa ekki gefið út kvóta til veiðanna.

Það vakti athygli haustið 2018 þegar línu- og netabáturinn Loran frá Godøya í Noregi kom til hafnar í Álasundi á haustdögum með 300 tonn af þorski og 70 tonn af grálúðu eftir veiðar við Jan Mayen. Um þriðja túr bátsins á hafsvæðinu við Jan Mayen var að ræða, hvar sögulega hefur lítið veiðst. Þá voru send sýni af aflanum til norsku Hafrannsóknastofnunarinnar til að fá úr því skorið úr hvaða þorskstofni veiðin var. Niðurstöðurnar vöktu óskipta athygli, ekki síst norskra útgerðarmanna.

Stór hluti íslenskur

Þorskurinn sem veiddist reyndist vera að meirihluta til úr stofni Barentshafsþorsksins – en enn athyglisverðara er að um þriðjungur þorsksins sem var rannsakaður reyndist íslenskrar ættar.

Bjarte Bogstad, sérfræðingur hjá norsku Hafrannsóknastofnuninni, staðfesti í skriflegu svari til Fiskifrétta að erfðafræðirannsókn stofnunarinnar hafi náð til 86 fiska og af þeim reyndust 29 íslenskir, 51 af stofni Barentshafsþorsks en sex til þess stofns sem á rætur að rekja til strandsvæða Noregs. Rannsóknir á kvörnum gáfu ekki viðbótarupplýsingar hvað íslenskan þorsk varðar þar sem norsku vísindamennirnir höfðu ekki kvarnir úr íslenskum þorski til samanburðar.

Minni áhugi

„Það er ekki eins mikill áhugi á veiðunum og var árið 2021, að hluta vegna ríflegra aflaheimilda í Barentshafi,“ segir Bjarte um stöðu veiðanna og rannsókna á þorskstofninum sem er að finna við Jan Mayen. Bjarte bætir við að skipstjórnarmenn um borð í þeim tveimur bátum sem fóru til veiða í fyrra hafi ekki verið alls kostar sáttir við aflabrögðin, þó tölur bendi til að þau hafi verið áþekk því sem gerðist árin á undan.

„Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að meira af yngri fiski var í aflanum árið 2021 en árið 2020 og góður árgangur, frá árinu 2016, virðist vera þarna í uppvexti,“ segir Bjarte en ráðgjöfin sem liggur fyrir frá sérfræðingum norsku Hafrannsóknastofnunarinnar er 347 tonn af þorski.

Bjarte hefur annast rannsóknir á þorskinum sem veiðist við Jan Mayen, og vitnað er til hér að framan. Unnið er að skrifum vísindagreinar um efnið en erfðarannsóknum á veiddum fiski er ekki lokið, og hjálpaði heimsfaraldur ekki til við að ljúka þeirri vinnu.

„En það sem stendur óhaggað er að þorskurinn sem þar heldur til virðist vera blanda úr nokkrum þorskstofnum,“ segir Bjarte.

Sögulegur samgangur

Einar Hjörleifsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, sagði strax í upphafi þegar fréttirnar bárust frá Noregi um Jan Mayen þorskinn að samskiptin á milli hafsvæða eru staðreynd en þá ekki síst á milli Íslands og Grænlands.

„Varðandi Jan Mayen þá segja kollegar mínir norskir að aflagögn frá þessu svæði séu vart teljandi. Þarna hefur vissulega veiðst þorskur en má segja að það sé í stykkjavís. Í rannsóknaleiðöngrum hefur fundist þarna m.a. eitthvað af ýsu, ufsa, steinbít og grálúðu, fyrir utan auðvitað loðnu og síld,“ sagði Einar en nefndi jafnframt að skrif Bjarna Sæmundssonar, fiskifræðings, frá fjórða áratugnum séu athyglisverð í þessu samhengi.“

Einar gróf upp grein í Ægi frá 1933 sem Bjarni skrifaði og þá talar hann um að Norðmenn hafi merkt þorska við Jan Mayen árið 1930 og þrír þeirra hafi endurheimst á Íslandsmiðum; við Norðurland og Vestmannaeyjar. Það sýnir að samgangur fisks á milli Íslands og Jan Mayen hefur verið sannaður með rannsóknum.

Einar sagði að það kæmi sér á óvart ef þarna væri mikið magn sem standi undir langtíma veiðum. Hlýnun væri í umræðunni og breytingar á útbreiðslu tegunda í kjölfar hennar. Hvort þessi fiskgengd tengist því sé ómögulegt að segja til um.