„Veturinn var frekar rólegur, en við fengum tvo ágætis túra núna í vor og það er sæmilegur túr hjá honum núna,“ sagði Pétur Karl Karlsson, annar tveggja skipstjóra á Kristrúnu RE 177, þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans í vikunni.

Sjálfur var Pétur í landi þennan túrinn en Helgi Aage Torfason var við stjórnvölinn.

Kristrún er eitt fárra skipa sem gert er út á grálúðu eingöngu, og að sögn Péturs var hún eina skipið á grálúðu í vetur.

„Við erum búnir að vera núna í sex ár bara á grálúðu. Við vorum alltaf að fara á línu á milli en höfum undanfarin sex ár aldrei verið á línu.“

Helmingurinn veiddur

Það sem af er fiskveiðiárinu er búið að veiða ríflega 8.000 tonn af grálúðu, sem er rétt um helmingur heildakvótans.

„Já, það hefur ekki verið neitt mikil veiði í vetur. Við vorum náttúrlega bara einir á grálúðu í vetur, en svo eru þau byrjuð núna, Jökull og Þórsnesið.“

Hann kann engar skýringar á því að aflabrögðin í vetur hafi ekki verið jafn góð og undanfarin ár.

„Kannski heitur sjór,“ segir hann, en veðrið segir hann ekki hafa verið neitt verra í vetur en almennt.

Alltaf er nokkuð um að grálúða komi í rækjuvörpu og Pétur þekkir það vel frá því hann var á rækju hér áður fyrr.

„Við fengum oft helling af grálúðu. Þegar best var vorum við að fá svona 10-15 tonn í rækjuvörpuna.“

Grálúðan er verðmætasti flatfiskurinn á miðunum hér við land, en hún veiðist líka við Færeyjar og Grænland.

Hafrannsóknastofnun segir merkingar raunar hafa sýnt að hún flækist allt til Hjaltlands og Barentshafs.