Hrefnuveiðiskipið Kato í Noregi hefur veitt 220 hrefnur það sem af er veiðitímabilinu. Deilt er á þessar veiðar af dýraréttindasamtökum í landinu.
Í frásögn norska ríkisfjölmiðilsins NRK er sagt að Kato sé stærsta skipið í hrefnuveiðiflotanum og sé nýkomið til hafnar eftir að hafa verið sleitulaust í næstum hálft ár við veiðar. Verið var að landa síðustu kössunum með hrefnukjöti í Álasundi til áframhaldandi flutnings á markaði í Japan. Dag Myklebust skipstjóri segir að á 54 ára ferli sínum við hrefnuveiðar hafi veiðin aldrei verið meiri en á þessu ári.
Má veiða 1.200 dýr
„Afurðirnar eru um 370 tonn sem er met. Við höfum verið einstaklega heppnir með veður og verið á réttum stað á réttum tíma.“
Talið er að hrefnustofninn í norskri lögsögu sé um 100.000 dýr. Leyfðar eru veiðar að hámarki á 1.200 dýrum á þessu ári. Það sem af er árinu hafa veiðst 506 dýr. NRK segir að margir hrefnuveiðimenn hafi gjarnan viljað veiða meira en þeir beri fyrir sig erfiðleikum að koma kjötinu á markað. Myklebust kveðst hins vegar ekki eiga í vandræðum með að selja aflann til Japans.
Gagnrýni
Í umfjöllun NRK segir að hvalveiðar séu umdeildar á alþjóðavísu og þær einungis heimilar í þremur löndum, þ.e. Noregi, Íslandi og Japan.
Samtökin Noah, sem láta sig varða réttindi dýra, hafa löngum gagnrýnt þessar veiðar og vilja að þær verði bannaðar í Noregi. Samtökin setja fram þau rök að hvalir séu mikilvægir vistkerfi sjávar og alls ekki sé ljóst hve stór hrefnustofninn í raun sé.
Ráðlagðar veiðar 217 dýr við Ísland
Hrefnuveiðar hafa ekki farið fram hér við land síðustu ár eða frá því 2018 þegar sex dýr veiddust. Árið 2017 lokaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi sjávarútvegsráðherra, veiðisvæðum í Faxaflóa fyrir sumarið 2017 þar sem um 82% af öllum hrefnum höfðu veiðst árin þar á undan. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf fyrir árið 2018 ráðleggur stofnunin að árlegar veiðar hrefnu árin 2018-2025 verði ekki meiri en 217 dýr á íslenska landgrunnssvæðinu.