Vinnslan í nýrri hátæknivinnslu Samherja á Dalvík hefur gengið vonum framar. Nú ári eftir opnun hússins hefur verið unnið úr um 16.500 tonnum af hráefni. Það er það langmesta sem unnið hefur verið úr á Dalvík á einu ári til þessa. Fyrra metið var árið 2018 þegar unnið var úr tæplega 15.000 tonnum.

Frá þessu segir á heimasíðu Samherja en uppistaða hráefnisins var þorskur en unnið var meira af ýsu en áður hefur verið gert og hefur það gengið vel.

„Þrátt fyrir að Covid hafi sett mark sitt á alla helstu markaði heims höfum við náð að selja allar afurðir á ásættanlegu verði. Helstu viðskiptavinir okkar eru stórmarkaðir víða um Evrópu. Með nýrri tækni á Dalvík höfum við getað lagað okkur hratt að breytingum á markaði og þjónustað viðskiptavini með þær vörur sem þeir hafa óskað eftir, á þeim tíma sem þeim hentar best,“ segir í fréttinni.

Núna tekur við fjögurra vikna sumarfrí á Dalvík. Þá taka starfsmenn ÚA á Akureyri við keflinu „tvíefldir eftir ótrúlegar 4 vikur í góða veðrinu hér fyrir norðan.“

Með þessu fyrirkomulagi, þ.e. að hafa alltaf a.m.k. eina vinnslu í gangi, þjónustar Samherji viðskiptavini sína allt árið um kring. Það er mjög mikilvægt í viðskiptum með matvæli nú til dags, segir í fréttinni.