Hafnarskilyrði í Grindavík eru í dag góð sem kröftug útgerð og fiskvinnsla ber merki. Svo hefur þó ekki alltaf verið og voru aðstæður Grindvíkinga til sjósóknar fram til síðari heimsstyrjaldar afar erfiðar. Fram til þess tíma ýttu sjómenn bátum sínum á sjó og lentu í vörum við heimkomu aftur. Fylgdi þá oft ein vör sem gekk inn í ströndina hverju lögbýli. Þarf vart að taka fram hversu bágar þessar aðstæður voru til sjósóknar þó ekki sé fjölyrt um hættuna sem fylgdi.

Hafnarbætur voru gerðar á fyrstu áratugum 20. aldar en árið 1938 var sú hugmynd fyrst nefnd við stjórnvöld að gera varanlega höfn þar sem allir bátar ættu öruggt lægi í öllum veðrum. Var þá litið til Hópsins, lónsins sem nú myndar Grindavíkurhöfn.

Bylting

Hugmyndin fólst í því að athugað væri með að grafa skurð í gegnum grjót og malarrif sem lokaði Hópinu. Aðeins ári seinna hófust framkvæmdir við að opna Rifsósinn. Handverkfæri voru notuð til að losa grjót og hjólbörur til að flytja efnið burt. Eru til ljósmyndir þar sem menn stóðu í sjónum við moksturinn og má rétt ímynda sér um hversu erfitt verk var að ræða. Í september 1939 búið að gera 10 metra breiða rás í gegnum eiðið og Hópið nýttist til að geyma báta á milli róðra eftir að búið var að afferma þá og var um byltingu að ræða fyrir sjómenn.

Á upplýsingaskilti segir að „sundvörður við Hóp voru hlaðnar um þetta leyti.“

Í fyrstu voru vörðurnar einfaldar og var komið fyrir siglutrjám á vörðunum og á þeim voru innsiglingarmerki. Í vefsíðunni Ferlir er fjallað um vörðurnar segir frá því að steypa var sett á þær og þær gulmálaðar sem mun hafa verið gert 1947.

„Stuttu síðar voru reistir staurar við vörðurnar og á þá sett ljós; grænt, hvítt og grænt. Gáfu þau sæfarendum innsiglingarstefnuna til kynna á nóttu sem degi. Síðar voru reist járnmöstur í þeirra stað með viðeigandi leiðbeiningarljósum fyrir sæfarendur,“ segir þar og sagt frá því að áður hefur þurft að gera við vörðurnar sem þá var gert af ferðafélaginu Ferli, sem heldur úti vefsíðunni sem hér er vitnað til.

Neðri varðan stendur spölkorn frá tóftum gamla bæjarins á Hópi.
Neðri varðan stendur spölkorn frá tóftum gamla bæjarins á Hópi.
© Mynd/Jón Steinar Sæmundsson (Mynd/Jón Steinar Sæmundsson)

Á upplýsingaskiltinu við aðra vörðuna segir svo jafnframt að byggingar- og framkvæmdarsaga Grindavíkurhafnar sé ævintýri líkust. Frá árinu 1939 hefur hver stórframkvæmdin rekið aðra, og má segja að Grindvíkingar hafi farið frá hafnleysu til þess að eiga eina bestu höfn landsins, en má bæta við að fyrir þá sem ekki þekkja til er innsiglingin þó varasöm í vondum veðrum og miklum sjógangi.

Mikilvæg kennileiti

Innsiglingarvörðurnar tvær hafa skilað sínu upprunalega hlutverki en annað tekið við; vitni um sögu og menningu sem styður við ferðaþjónustu og svipmót bæjarins. Vörðurnar eru án vafa með mikilvægustu kennileitum bæjarins enda merkar minjar um útgerðarsögu Grindvíkinga. Þær eru bæði miklar um sig og háar eftir því, en illa skemmdar eins og myndir Jóns Steinars Sæmundssonar, verkstjóra og ljósmyndara, vitna um.

Eins og hér má sjá er önnur varðan mjög illa farin.
Eins og hér má sjá er önnur varðan mjög illa farin.
© Jón Steinar Sæmundsson (Jón Steinar Sæmundsson)

Jón Steinar spyr á samfélagsmiðlum hvort ekki „sé lag fyrir Grindavíkurbæ að hafa það sem eitt af sumarverkunum að laga vörðurnar? Þetta eru að mínu mati minjar og hluti af sögunni sem má ekki eyðileggjast og hverfa.“

Þetta erindi Jóns Steinars fær góðar undirtektir og heitið á nýjan meirihluta í bæjarstjórn að láta verkin tala.