Möguleikar til fiskvinnslu á Hólmavík sýnast takmarkaðir eftir að rekstri rækjuvinnslunnar Hólmadrangs var hætt í lok júní. „Það er í rauninni eitt tækifæri þar má segja,“ svarar Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar, spurður um útlitið fyrir útgerð og fiskvinnslu á Hólmavík.

„Það eru ungir menn hérna sem eru tilbúnir að koma með bát sem þeir hafa fest kaup á og vilja fara í minniháttar vinnslu, léttsöltun eða eitthvað slíkt eða flökun,“ segir Þorgeir. Um sé að ræða bát sem færi á net og línu.

Sértækur byggðakvóti í skoðun

„Þeir hafa verið að velta þessu fyrir sér lengi. Þeir hafa verið á strandveiðum og eiga held ég ágætis grunn í þetta. En það vantar vinnsluaðstöðu hér og auðvitað þyrfti að koma til aukinn kvóti til þeirra til þess að geta staðið straum af þessu. Þannig að eitt af því sem var rætt í kjölfarið á stöðunni með Hólmadrang var að hingað kæmi sértækur byggðakvóti sem stuðningur við sveitarfélagið,“ útskýrir Þorgeir sem kveður málið í skoðun innan kerfisins og hafa verið rætt á síðasta fundi sérstaks stýrihóps sem í eru fulltrúi þingmanna, fulltrúi Vestfjarðastofu, Hólmadrangs og sveitarfélagsins.

Frá Hólmavík. FF Mynd/HAG
Frá Hólmavík. FF Mynd/HAG

„Bæði meðal fulltrúa sveitarfélagsins og meðal þingmanna í stuðningshópnum vilja menn skoða alla möguleika. Ef til dæmis ætti að fá hingað sértækan byggðakvóta þyrfti að setja hér upp vinnslu,“ segir Þorgeir. Horft sé til hins yfirgefna húsnæðis Hólmadrangs en eigandi þess, Samherji, sé nú með framtíðarnotkun þess til skoðunar.

„Það er ekkert í hendi með það og við erum bara að reyna að opna umræðuna og tala við ráðherra, kynna aðstæður, láta vita hvað er í rauninni að gerast hér,“ segir Þorgeir.

Í þarsíðustu viku átti Þorgeir einmitt fund með Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra. Þar segir hann að meðal annars hafi verið ræddur möguleiki á fiskeldi í Steingrímsfirði.

Eins og komið hefur fram í Fiskifréttum hefur sveitarfélagið skrifað undir viljayfirlýsingu með Íslenskum verðbréfum um að skoða atvinnutækifæri á svæðinu, meðal annars regnbogasilungseldi og þararækt og framleiðslu á þaraafurðum.

Horfa til eldis á landi

Þorgeir undirstrikar að ekkert sé ákveðið. Ítarleg stefnumótunarvinna  varðandi fiskeldi sé í gangi hjá stjórnvöldum og þar til það sé frágengið muni ekkert fara í gang.

„Einn möguleikinn er sá að fara í eldi á regnbogasilungi í firðinum. Númer eitt þar er að gera það á landi ef það finnst heitt vatn á Gálmaströnd. Það er því mikill fókus hjá bæði Íslenskum verðbréfum og okkur að koma þessu eldi fyrir uppi á landi í stað þess að vera með það úti á firði í kvíum,“ segir Þorgeir og gagnrýnir fullyrðingar sveitarstjórnarmanns úr minnihlutanum í Strandabyggð í Fiskifréttum um regnbogasilungseldið.

„Þessi framsetning sem var í sumar var, svo ég segi það bara hreint út, algjörlega óásættanleg og villandi. Þó að við jafnvel séum að fara í samstarf um að skoða þessa möguleika og jafnvel að óska eftir burðarþolsmati þá er enginn að ákveða hér af hálfu sveitarstjórnar að fara hér í fimmtán þúsund tonna eldi eins og hann sló upp,“ ítrekar sveitarstjórinn.

Aka Steingrímsfjarðarheiði daglega

„Meirihlutinn er fyrst og fremst að skoða öll tækifæri og velta þeim fyrir sér til þess að geta tekið ákvörðun á grunni upplýsinga – ekki á grunni einhverra sleggjudóma eða tilfinninga. Við getum ekki leyft okkur það í þeirri stöðu sem við erum í dag,“ heldur Þorgeir áfram.

Hluti starfsfólks Hólmadrangs sem misstu vinnuna fyrr í sumar. Mynd/Aðsend
Hluti starfsfólks Hólmadrangs sem misstu vinnuna fyrr í sumar. Mynd/Aðsend

Af þeim ríflega tuttugu sem misstu vinnuna hjá Hólmadrangi segir Þorgeir að minnsta kosti þrjá hafa fengið starf hjá Nauteyri í Djúpinu í fiskeldi þar. Þeir muni því aka daglega til vinnu yfir Steingrímsfjarðarheiði. Sveitarfélagið hafi sjálft ráðið tvo starfsmenn.

Auknar tekjur lífsnauðsyn

„Og það eru einhverjar viðræður hjá Galdri brugghúsi um að stækka og efla umsvifin og þeir hafa verið að horfa á einhverja starfsmenn,“ bætir sveitarstjórinn við.

„Það þarf að vinna þetta vel og faglega, bæði hjá okkur og öllum sem eru að huga að einhverri uppbyggingu. Í þeirri stöðu sem Strandabyggð er og hefur verið þá geta menn bara ekkert leyft sér að loka augunum fyrir því að með fiskeldi eða þararækt eða slíku þá fylgja atvinnutækifæri,“ segir Þorgeir og bendir á reynsluna annars staðar frá.

„Það hefur sýnt sig á sunnanverðum Vestfjörðum að það fylgir því verðmætasköpun og útsvarstekjuaukning og fasteignamatshækkun. Þannig að það eru umsvif og auknar tekjur sem þetta sveitarfélag þarf nauðsynlega til að lifa í lengri tíð.“

Möguleikar til fiskvinnslu á Hólmavík sýnast takmarkaðir eftir að rekstri rækjuvinnslunnar Hólmadrangs var hætt í lok júní. „Það er í rauninni eitt tækifæri þar má segja,“ svarar Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar, spurður um útlitið fyrir útgerð og fiskvinnslu á Hólmavík.

„Það eru ungir menn hérna sem eru tilbúnir að koma með bát sem þeir hafa fest kaup á og vilja fara í minniháttar vinnslu, léttsöltun eða eitthvað slíkt eða flökun,“ segir Þorgeir. Um sé að ræða bát sem færi á net og línu.

Sértækur byggðakvóti í skoðun

„Þeir hafa verið að velta þessu fyrir sér lengi. Þeir hafa verið á strandveiðum og eiga held ég ágætis grunn í þetta. En það vantar vinnsluaðstöðu hér og auðvitað þyrfti að koma til aukinn kvóti til þeirra til þess að geta staðið straum af þessu. Þannig að eitt af því sem var rætt í kjölfarið á stöðunni með Hólmadrang var að hingað kæmi sértækur byggðakvóti sem stuðningur við sveitarfélagið,“ útskýrir Þorgeir sem kveður málið í skoðun innan kerfisins og hafa verið rætt á síðasta fundi sérstaks stýrihóps sem í eru fulltrúi þingmanna, fulltrúi Vestfjarðastofu, Hólmadrangs og sveitarfélagsins.

Frá Hólmavík. FF Mynd/HAG
Frá Hólmavík. FF Mynd/HAG

„Bæði meðal fulltrúa sveitarfélagsins og meðal þingmanna í stuðningshópnum vilja menn skoða alla möguleika. Ef til dæmis ætti að fá hingað sértækan byggðakvóta þyrfti að setja hér upp vinnslu,“ segir Þorgeir. Horft sé til hins yfirgefna húsnæðis Hólmadrangs en eigandi þess, Samherji, sé nú með framtíðarnotkun þess til skoðunar.

„Það er ekkert í hendi með það og við erum bara að reyna að opna umræðuna og tala við ráðherra, kynna aðstæður, láta vita hvað er í rauninni að gerast hér,“ segir Þorgeir.

Í þarsíðustu viku átti Þorgeir einmitt fund með Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra. Þar segir hann að meðal annars hafi verið ræddur möguleiki á fiskeldi í Steingrímsfirði.

Eins og komið hefur fram í Fiskifréttum hefur sveitarfélagið skrifað undir viljayfirlýsingu með Íslenskum verðbréfum um að skoða atvinnutækifæri á svæðinu, meðal annars regnbogasilungseldi og þararækt og framleiðslu á þaraafurðum.

Horfa til eldis á landi

Þorgeir undirstrikar að ekkert sé ákveðið. Ítarleg stefnumótunarvinna  varðandi fiskeldi sé í gangi hjá stjórnvöldum og þar til það sé frágengið muni ekkert fara í gang.

„Einn möguleikinn er sá að fara í eldi á regnbogasilungi í firðinum. Númer eitt þar er að gera það á landi ef það finnst heitt vatn á Gálmaströnd. Það er því mikill fókus hjá bæði Íslenskum verðbréfum og okkur að koma þessu eldi fyrir uppi á landi í stað þess að vera með það úti á firði í kvíum,“ segir Þorgeir og gagnrýnir fullyrðingar sveitarstjórnarmanns úr minnihlutanum í Strandabyggð í Fiskifréttum um regnbogasilungseldið.

„Þessi framsetning sem var í sumar var, svo ég segi það bara hreint út, algjörlega óásættanleg og villandi. Þó að við jafnvel séum að fara í samstarf um að skoða þessa möguleika og jafnvel að óska eftir burðarþolsmati þá er enginn að ákveða hér af hálfu sveitarstjórnar að fara hér í fimmtán þúsund tonna eldi eins og hann sló upp,“ ítrekar sveitarstjórinn.

Aka Steingrímsfjarðarheiði daglega

„Meirihlutinn er fyrst og fremst að skoða öll tækifæri og velta þeim fyrir sér til þess að geta tekið ákvörðun á grunni upplýsinga – ekki á grunni einhverra sleggjudóma eða tilfinninga. Við getum ekki leyft okkur það í þeirri stöðu sem við erum í dag,“ heldur Þorgeir áfram.

Hluti starfsfólks Hólmadrangs sem misstu vinnuna fyrr í sumar. Mynd/Aðsend
Hluti starfsfólks Hólmadrangs sem misstu vinnuna fyrr í sumar. Mynd/Aðsend

Af þeim ríflega tuttugu sem misstu vinnuna hjá Hólmadrangi segir Þorgeir að minnsta kosti þrjá hafa fengið starf hjá Nauteyri í Djúpinu í fiskeldi þar. Þeir muni því aka daglega til vinnu yfir Steingrímsfjarðarheiði. Sveitarfélagið hafi sjálft ráðið tvo starfsmenn.

Auknar tekjur lífsnauðsyn

„Og það eru einhverjar viðræður hjá Galdri brugghúsi um að stækka og efla umsvifin og þeir hafa verið að horfa á einhverja starfsmenn,“ bætir sveitarstjórinn við.

„Það þarf að vinna þetta vel og faglega, bæði hjá okkur og öllum sem eru að huga að einhverri uppbyggingu. Í þeirri stöðu sem Strandabyggð er og hefur verið þá geta menn bara ekkert leyft sér að loka augunum fyrir því að með fiskeldi eða þararækt eða slíku þá fylgja atvinnutækifæri,“ segir Þorgeir og bendir á reynsluna annars staðar frá.

„Það hefur sýnt sig á sunnanverðum Vestfjörðum að það fylgir því verðmætasköpun og útsvarstekjuaukning og fasteignamatshækkun. Þannig að það eru umsvif og auknar tekjur sem þetta sveitarfélag þarf nauðsynlega til að lifa í lengri tíð.“