Sedna Biopack er eitt þeirra nýsköpunarfyrirtækja sem hefur aðsetur í Breið þróunarfélagi á Akranesi. Fyrirtækið þróar matvælapakkningar sem að stórum hluta eru unnar úr nokkrum tegundum brúnþörunga.

Frumkvöðullinn að baki verkefninu er Sigríður Kristinsdóttir sjávarútvegsfræðingur sem vann meistaraverkefni í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands um „lífplast“ filmur unnar úr efnum frá stórþörungum.

Verkefnið fékk atvinnu- og nýsköpunarstyrk haustið 2020 úr Uppbyggingarsjóði sóknaráætlunar Vesturlands til að koma filmunum nær framleiðslu. Áherslur verkefnisins hafa þróast í fleiri áttir sem tengjast bæði öflun þörunganna úr sjó og samhliða nýtingu á fleiri efnum úr þeim fyrir annan iðnað. Meiri fjölbreytni er nú einnig komin í vöruþróun matvælaumbúðanna, sem er unnið í samstarfi við fleiri aðila og fjölbreyttara hráefni.

„Við á Íslandi erum dálítið sein til með ræktun á þara miðað við nágrannalönd okkar. Á strandsvæðum við Norður Ameríku, bæði í Kanada og t.d. við Maine í Bandaríkjunum hefur verið að byggjast upp atvinna í þessum iðnaði, eftir tilraunastarfsemi í meira en áratug. Einnig eru tilraunir með ræktun þara í Evrópulöndum farnar að skila árangri. Má þar nefna Noreg, Færeyjar, Frakkland og fleiri við strendur N-Atlantshafs. Slík ræktun auðveldar aðgengi að hráefni í margskonar nýtingu og er auk þess í sátt við stefnu þessara landa í umhverfismálum, því stórþörungar eru mjög hraðvaxta og nýta koltvísýring úr sjó, en höfin draga til sín um fjórðung af koltvísýringslosun manna“ segir Sigríður.

Regluverkið vantar

Hún nefnir þetta vegna þess að það sem tefur framvindu verkefnisins er meðal annars aðgengi að hráefni. Það gæti breytt miklu ef þararæktun hæfist hér við land en til þess að svo megi verða þurfi að smíða regluverk í kringum það. Hráefnið sem Sedna Biopack hefur þó fengið í sitt þróunarstarf, hefur að mestu leyti komið upp með veiðarfærum smábáta sem gerðir eru út frá Akranesi. Einnig hefur beltisþari verið sóttur sérstaklega með báti. En leyfi fyrir minni háttar ölfun sjávargróðurs getur numið allt að 10 tonnum á ári.

Sigríður að störfum. Mynd/aðsend
Sigríður að störfum. Mynd/aðsend

Umræða um plastmengun, ekki síst í höfunum, hefur farið hátt undanfarin ár. Innan tveggja ára stendur til að koma böndum á plastnokun í matvælaiðnaði samkvæmt alþjóðlegri ályktun á vegum Sameinuðu þjóðanna. Rannsóknir hafa leitt í ljós að mengun af völdum plasts er alvarlegri en áður var talið. Plast skaðar sjávarlíf með margvíslegum hætti og plastagnir hafa nú fundist í blóðrás manna sem er mikið áhyggjuefni. Verkefni Sedna Biopack fellur vel að þeirri þróun sem nú á sér stað.

Sigríður segir að margt hafi verið gert til að sporna gegn plastnotkun, en lífplast sé breiður flokkur pakkninga og sumar gerðir af því krefjist engu að síður mjög stýrðra niðurbrotsferla.

„Lífplast“

Sigríður er í samstarfi við aðra frumkvöðla með fleiri útfærslur á matvælapakkningum.

„Það sem þarf að gera er að þróa nýja gerð matvælapakkninga. Það má kannski tala um nýja kynslóð af lífplasti, sem vantar nýtt heiti yfir. Víða um heim er verið að þróa slíkt úr mismunandi staðbundnu hráefni, sem getur jafnvel verið neysluhæft. Það „lífplast“ sem ég fór af stað með í upphafi hefur ýmsa eiginleika plasts, eins og gegnsæi, sveigjanleika, súrefnishindrun og þol gegn fitu. En það brotnar mun fyrr niður en hefðbundið plast og fer beint í lífrænu tunnuna. Grunnefnið í filmunum hefur einnig þekkta áhugaverða eiginleika sem vörn gegn örverum, og verður spennandi að vinna meira út frá því, t.d. tengt húðun matvæla.“