Norðmenn hefja að jafnaði makrílveiðar mun seinna en Íslendingar. Í júlímánuði fluttu þeir út 9.260 tonn af makríl fyrir rúma 2,8 milljarða. Að magni til var það aukning um 39% miðað við júlí í fyrra.
Útflutningsverðmætin voru 50% meiri en í júlí í fyrra eða tæpan milljarð umreiknað í ÍSK, að því er fram kemur á vef norska sjávarafurðaráðsins.
Þrír stærstu markaðirnir fyrir norskan makríl í júlí voru Egyptaland, Holland og Víetnam. Jan Eirik Johnsen hjá norska sjávarafurðaráðinu segir góða eftirspurn hafa verið eftir makríl í júlí meðal annars vegna makrílvertíð hjá Færeyingum og Íslendingum hafi hafist síðar en vant er og að veiðar íslenska flotans séu talsvert minni á þessum tíma en þær voru í fyrra.
Samtals fluttu Norðmenn út sjávarafurðir, þar með talinn eldisfisk, fyrir 13 milljarða NOK í júlí, 166 milljarða ÍSK sem er 6% aukning frá sama tíma í fyrra. Í samanburði má geta að á árinu 2023 námu útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi 352 milljörðum króna. Stærstu markaðir fyrir norskar sjávarafurðir í júlí voru Pólland, Danmörk og Holland.