Norsk-rússneska hafrannsóknaráðið mælir með að heimiluð verði veiði að hámarki á 150 þúsund tonnum af rækju í Barentshafi á næsta ári. Þetta er 7.000 tonnum meira en kvótinn á yfirstandi ári.

Það er mat vísindamanna að sameiginlegur rækjustofn Norðmanna og Rússa í Barentshafi hafi haldist stöðugur og sterkur. Í kjölfar 25% niðurskurðar á þorskkvóta í Barentshafi fyrir næsta ár ríkir meiri áhugi útgerða á rækjuveiðum á þessu hafsvæði en áður. Auk þessara þjóða hefur Evrópusambandið einnig haft heimildir til rækjuveiða í Barentshafi.

Veiði hefur verið talsvert undir útgefnum kvóta undanfarin ár. Á þessu ári hljóðar hann upp á 143 þúsund tonn en búist er við að aflinn verði 83 þúsund tonn. 2023 nam veiðin 73 þúsund tonnum.