„Lokunin hjá Vísi í Grindavík hefur veruleg áhrif á það hvernig veiðum hjá okkur er háttað,“ segir Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi VE, í samtali á vef Síldarvinnslunnar.

Ísfisktogarinn Bergur VE landaði í Vestmannaeyjum í gærkvöldi og Vestmannaey VE landaði í morgun að því er segir á vef Síldarvinnslunnar. Haft er eftir Jón að afli Bergs hafi verið um 65 tonn.

„Þetta var mest ýsa og þorskur sem fékkst á Gula teppinu og á Breiðdalsgrunni. Veður var ágætt í túrnum. Þetta var skammturinn sem við máttum taka en lokunin hjá Vísi í Grindavík hefur veruleg áhrif á það hvernig veiðum hjá okkur er háttað,“ er haft eftir Jóni.

Þá segir Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, að afli skipsins hafi verið um 60 tonn.

„Við máttum taka ákveðinn skammt sem ákveðinn er í samræmi við stöðuna í Grindavík. Aflinn hjá okkur var mest ýsa. Við tókum eitt hol út af Hornafirði en síðan var veitt á Breiðdalsgrunni og Skrúðsgrunni. Það var þokkalegt nag yfir daginn en rólegri veiði á nóttunni,“ segir Birgir Þór á svn.is.