,,Það er ósamboðið embætti forsætisráðherra hvernig Jóhanna Sigurðardóttir hefur með uppnefnum og dónaskap vegið að fólki í sjávarútvegi sem hefur ekkert annað gert en að fara að lögum sem hún sjálf setti,” segir Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ á vefsíðu samtakanna.

Og hann heldur áfram:

,,Íslenskar útgerðir greiða tæpa þrjá milljarða króna í veiðigjald á yfirstandandi fiskveiðiári. Veiðigjaldið nemur nú 9,5% af reiknaðri framlegð útgerðanna en slíkt gjald samsvarar um 18% af hagnaði útgerðar miðað við uppgjör Hagstofu Íslands samkvæmt árgreiðsluaðferð síðustu 10 ár. Þannig er íslenskur sjávarútvegur skattlagður sérstaklega umfram aðrar atvinnugreinar.”

Ennfremur segir framkvæmdastjóri LÍÚ:

,,Í ályktun flokksstjórnar Samfylkingarinnar þann 29. janúar 2011 er því haldið fram að fyrirtækin greiði ekkert. Það er ekki mikil reisn yfir því að forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar standi að ályktun flokkstjórnar þar sem vísvitandi er farið með rangt mál varðandi auðlindaskattinn. Svona málflutningur er vísbending um að tilgangurinn helgi meðalið í þeirri ófrægingarherferð sem forsætisráðherra stendur fyrir gegn sjávarútveginum og þeim sem við hann starfa.”