Þegar Hafrannsóknastofnun birti í lok september ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um aflamark uppsjávarstofna hafði ráðgjöf um kolmunnaveiðar ársins 2023 hækkað um 81% milli ára. Makrílráðgjöfin var hins vegar nánast óbreytt en ráðgjöfin í norsk-íslenskri vorgotssíld var 15% lægri.

Guðmundur J. Óskarsson, sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, var spurður hvað geti skýrt þessa hækkun í kolmunna sérstaklega, í ljósi þess að allir stofnarnir þrír hafa verið ofveiddir árum saman.

Í skriflegu svari til Fiskifrétta sagði Guðmundur að kolmunnaárgangurinn frá 2020 sé með þeim stærri sem hafa sést og hrygningarstofninn vaxi hratt þegar hann er að ná kynþroskaaldri. Það sé helsta ástæðan fyrir þessu stóra stökki í ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Allir þessir stofnar geti hins vegar framleitt stóra árganga ef skilyrði í hafinu eru þeim hagstæð.

„Við þekkjum ekki til fulls hvaða skilyrði þetta eru, þótt rannsóknir hafi fundið ýmiss konar tölfræðileg tengsl milli umhverfisþátta og nýliðunar fyrir stofnana, enda líklegast margir samverkandi þættir sem þarf til. Tiltölulega litlir stofnar geta þannig gefið af sér stóra árganga og það eru nokkur dæmi um það.“

Allir vel yfir mörkum

Vonir séu alltaf bundnar við að fá stóra árganga og þannig fá sterkari stofna. Sterkir árgangar geti haldið uppi góðum afla í mörg ár „séu þeir nýttir skynsamlega þar sem þetta eru allt tiltölulega langlífar tegundir.“

Hann segir stærð allra þessara þriggja stofna „ennþá vel yfir þeim mörkum þar sem má búast við skertri nýliðun og mikilvægt að halda því til haga. Með það í huga viljum við því ekki tengja saman veiði umfram ráðgjöf og vöntun á góðri nýliðun. Stofnarnir eru enn nógu stórir til að gefa af sér sterka árganga líkt og við sjáum núna með kolmunna.“

Afleiðingarnar

„Afleiðingar af veiði umfram ráðgjöf, eins og hefur verið undanfarin ár,“ segir Guðmundur ennfremur, „snýst hinsvegar meira um að ekki sé verið að hámarka afrakstur stofnanna til lengri tíma litið og hvort svona veiðar standist varúðarsjónarmið. Þetta er það sem Alþjóðahafrannsóknarráðið hefur verið að benda á. Þá stuðla svona veiðar umfram ráðgjöf einnig að meiri sveiflum í afla milli ára að öllu jöfnu, sem er ekki eftirsóknavert fyrir sjávarútveginn.“

Á kolmunnaveiðum fyrir nokkrum árum. FF MYND / Viðar Sigurðsson