Í kvikmyndinni Seaspiracy, sem hefur fengið mikið áhorf á Netflix, er mannkynið hvatt til að hætta að stunda fiskveiðar og stórt spurningamerki sett við hugtakið sjálfbærni. Fiskveiðar eru sagðar valda gríðarlegu tjóni á lífríkinu í höfunum og fólk hvatt til að einbeita sér frekar að grænkerafæði.

Grásleppuveiðar á Íslandi eru teknar sem dæmi um veiðar með mikinn meðafla sjávarspendýra og fugla, og sagðar sýna fram á það hve auðvelt sé að fá sjálfbærnivottun á nánast hvaða veiðar sem er.

„Grásleppuveiðar á Íslandi voru fyrstu grásleppuveiðarnar í heiminum til að fá vottun,“ segir Gísli Gíslason, svæðisstjóri MSC á Íslandi. „Svo var því fylgt eftir með Grænlandi og Noregi. Þetta voru skilyrtar vottanir af því það þurfti að vinna betri upplýsingar um meðafla. Vottunarstofan felldi síðan vottunina út af því að meðafli var ekki í samræmi við staðlana. Þannig að í tvær vertíðir voru veiðarnar ekki með neina vottun. Þannig að þegar þeir eru að segja að það sé auðvelt að fá vottun þá vitna þeir í veiðar sem einmitt misstu vottun út af meðafla.“

Ruðningskraftur sannleikans

Gísli segir erfitt að meta hvaða áhrif svona mynd komi til með að hafa.

„Þetta er ekkert í fyrsta sinn sem er búin til svona mynd,“ segir Gísli hann. „Ég held að fyrri myndir í svipuðum klassa hafi frekar haft skammtímaáhrif en langtímaáhrif vegna þess að sannleikurinn hefur alltaf mikinn ruðningskraft.“

MSC muni að minnsta kosti halda ótrauð áfram á sömu braut og hingað til.

„Við sem staðlasamtök erum bara að viðhalda góðum og túverðugum staðli fyrir sjálfbærar veiðar. Það er óháð úttekt á því og hugsjónin er að það sé nýtt til að stuðla að sjálfbærni á heimshöfunum.“

Höfundur myndarinnar er Ali Tabrizi en framleiðandi er Kip Anderson. Hann hefur áður gert myndirnar Cowspiracy og What the Health sem báðar eru gerðar í þeim yfirlýsta og augljósa tilgangi að hvetja fólk til að snúa sér alfarið að grænkerafæði.

Í myndinni er fylgst með Tibrizi ferðast víða um heim og hann finnur ýmis dæmi um gegndarlausa ofveiði og hrikalegar aðfarir við veiðar.

Skekkt heildarmynd

Þeir sem gagnrýna myndina segja þetta allt saman gagnrýnivert, enda oft verið bent á slíkt, en með alhæfingum yfir á allar fiskveiðar í heiminum sé dregin upp verulega skekkt heildarmynd.

Ofveiði sé vissulega vandamál víða og þess séu vissulega dæmi að veiðar séu stundaðar með glæpsamlegum hætti. Þetta séu hins vegar staðbundin vandamál og víða unnið að því að bæta þar úr.

„Það er augljóst að þetta er ekki heimildarmynd heldur áróðursmynd,“ segir Ray Hillborn, einn af virtustu fiskifræðingum heims, og er ekkert að skafa utan af því: „Hún hefur að geyma fleiri lygar en blaðamannafundur hjá Donald Trump.“