Sæbjúgu dafna einstaklega vel á lífrænum úrgangi sem verður til við fiskeldi. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem gerð var í fiskeldisstofnun Stirling háskóla í Skotlandi. Rannsóknin leiddi í ljós að það dregur úr umhverfisáhrifum fiskeldis þegar sæbjúgum er sleppt nærri sjókvíum. Auk jákvæðra umhverfisáhrifa dafna sæbjúgun vel á úrganginum sem verður til og fiskeldisstöðvar geta hagnast aukalega á afurðum sæbjúgna sem eru hátt verðlagðar á asískum mörkuðum. Verð á þurrkuðum sæbjúgum úr Miðjarðarhafi er um 30 evrur fyrir kílóið en allt upp í 120 evrur kílóið fyrir fullunnar afurðir. Til viðmiðunar fást um 6 evrur fyrir kílóið af borra (e: sea bream) sem er algeng tegund í fiskeldi víða við Miðjarðarhafið.