Á síðasta ári setti Matís upp í Neskaupstað svonefnt lífmassaver, tæknilega fullkominn vinnslubúnað sem hægt er að flytja hvert á land sem er. Tækin henta til að vinna prótein og olíur úr hliðarafurðum matvælavinnslu og þróa úr þeim nýjar afurðir.

„Ég sé fram á að í haust verði mikið að gera í þessari tækjasamstæðu okkar, bæði í okkar eigin rannsóknarverkefnum og eins í samstarfi við önnur fyrirtæki sem vilja koma inn,“ segir Stefán Þór Eysteinsson verkefnastjóri.

Búnaðurinn var keyptur á síðasta ári og settur upp í Neskaupstað, en hann er færanlegur og hægt að flytja hann hvert á land sem er.

„Við getum sett upp vinnslulínur og breytt þeim í raun og veru eins og við viljum. Sveigjanleikinn í þessum tækjum sem við höfum fjárfest í er mjög mikill.“

Stefán Þór segir fyrirspurnir hafa meðal annars borist frá fyrirtækjum í fæðubótarframleiðslu, húðvöruframleiðslu og nýsköpunarfyrirtækjum, auk fyrirtækja sem tengd eru sjávarútvegi sem hafa áhuga á að koma inn og nota þetta.

„Við sjáum fyrir okkur að hingað geti komið fyrirtæki eða einstaklingar sem eru með hugmynd, búin að prófa hana kannski á minni skala og vilja prófa hana á aðeins stærri skala áður en þeir fara út í dýrar fjárfestingar.“

Möguleikar

Tækjabúnaðurinn er t.d. hugsaður til þess að vinna prótein og olíur úr ýmsum hliðarafurðum matvælavinnslu og nýta m.a. í fóðurgerð eða matvælagerð til manneldis.

Stefán Þór Eysteinsson. Aðsend mynd
Stefán Þór Eysteinsson. Aðsend mynd

„Við erum með nokkuð fullkomna diskaskilvindu sem hentar vel í minni keyrslur,“ segir Stefán Þór, og lýsir tækjabúnaðinum í grófum dráttum fyrir blaðamanni. „Svo erum við með úðaþurrkara sem gerir okkur kleift að þurrka vökva við mjög hátt hitastig í mjög stuttan tíma. Þannig tekst okkur í raun og veru að viðhalda öllum eiginleikum próteinanna eða fitunnar, eða hverju því sem við erum að vinna með. Þegar menn hita hlutina of lengi vill það oft verða þannig að próteinin afmyndast og þá geta þau misst sína náttúrlegu eiginleika. Svo erum við með himnuskilunartæki sem við getum gert ýmislegt með, erum með nanósíun og míkrósíun og svo erum við með öfuga osmósu sem við getum notað til að ná út vatninu einu og sér. Við erum líka með örsíun og við getum náð út óæskilegum efnum eða einangrað lífvirk efni sem við erum að eltast við, fjölsykrur og þess háttar. Þannig að möguleikarnir eru miklir og við getum ráðið svolítið afköstunum.“

Sparar sporin

Undanfarin ár hefur þróunin í líftækni verið hröð. Stefán Þór segir lífmassaver eins og Matís rekur í Neskaupstað vera orðið nauðsynlegt.

„Framleiðendur hafa getað farið með sýni til Danmerkur eða Þýskalands og annað, og farið með þau inní eitthvað sem er sambærilegt við það sem við erum með hér. En með því að hafa þetta hér á landi erum við að spara framleiðendum sporin, þeir geta þá komið beint til okkar.“

Þótt lífmassaverið hafi verið sett upp í Neskaupstað er það ekkert bundið við þá staðsetningu. Þvert móti, segir Stefán Þór.

„Þegar við fórum af stað með þetta fannst okkur mikilvægt að þetta sé fyrir alla matvælaframleiðendur. Við getum fært tækin inn í framleiðsluhúsnæði eða framleiðslulínur fyrirtækja og þá komumst við eins nálægt hráefninu og mögulegt er, og þá getum við prófað hráefnið eins og það kemur fyrir í framleiðslunni. Þegar menn eru að frysta sýni eða þurrka sýni og fara síðan áfram með það þá töpum við oft ákveðnum eiginleikum.“

Með landsbyggðina í huga

„Við sáum líka fyrir okkur, af því við höfðum landsbyggðina í huga því að stór hluti matvælaframleiðslu fer fram á landsbyggðinni, og okkur þótti þá mikilvægt að geta mætt þörfum allra. Við gætum þá komið á staðinn alveg óháð því hvar menn væru staddir á landinu. Þannig að við lítum líka á þetta sem hluta af þeirri landsbyggðarþróun sem Matís er að taka þátt í.“

Á Akranesi hefur einnig verið settur upp svipaður búnaður, lífmassaver sem stendur fyrirtækjum og einstaklingum til boða. Stefán Þór segir að í Vestmannaeyjum sé einnig farin af stað vinna af svipuðu tagi. Allt er það af hinu góða, en hann spyr sig þó hvort endilega sé rétt að dreifa þannig kröftunum.

„Maður veltir því að minnsta kosti fyrir sér hvort það eigi að vera að fjárfesta í mörgum lífmassaverum á víð og dreif sem gera öll hið sama, eða hvort menn ættu að sameinast með eitt og setja fjármuni þá á einn stað. Þá væri líka hægt að víkka út möguleika á tækjabúnaðinum. Þetta er spurning sem menn hafa verið að velta fyrir sér.“

Fyrirmyndir í Noregi

Matis leiddi verkefnið Nordmar Biorefine þar sem fýsileiki þess að setja upp samnorrænt lífmassaver var skoðaður og var Valur Norðri Gunnlaugsson verkefnastjóri þess verkefnis sem hófst árið 2019 undir merkjum Norrænu ráðherranefndarinnar. Norðmenn eru komnir lengst a veg þegar það kemur að útfærslum á lifmassaverum og voru í verkefninu skoðuð tvö norsk lífmassaver.

Lífmassaverið Nordmar Biorefine í Noregi, sem Matís hafði forystu um. Aðsend mynd
Lífmassaverið Nordmar Biorefine í Noregi, sem Matís hafði forystu um. Aðsend mynd

„Við vorum að leiða verkefni hjá norræna Ráðherraráðinu og vorum þar að meta fýsileika þess að setja upp samnorrænt lífmassaver. Við fórum til Noregs að skoða önnur lífmassaver. Mobile Sealab sem rekið er af SINTEF Ocean er færanlegt og hefur gert mjög góða lukku, en auðvitað eru ákveðnar takmarkanir þegar þetta er í gámi.“

Í Tromsø í Noregi er svo annað lífmassaver, mun stærra og fullkomnara. Stefán Þór segir það að miklu leyti byggt upp af ríkisframlögum og sé hugsað sem ákveðinn styrkur til landsbyggðarinnar.

„Þetta er hluti af ákveðinni byggðastefnu sem þeir hafa þar, og er sennilega eitt fullkomnasta lífmassaver í heimi. Þeir geta tekið allt frá nokkrum kílóum upp í nokkur tonn, og hugmyndin er sú að framleiðendur koma inn og leigja aðstöðuna í ákveðinn tíma. Þeir hafa þá aðgang að öllum tækjum og allri sérfræðiþekkingu.“