Rússnesk stjórnvöld vinna nú að lagasetningu sem lengir þann frest sem sjávarútvegsfyrirtæki hafa til þess að uppfylla svokallaðan fjárfestingakvóta sem boðið var upp á í fyrsta sinn 2018. Áætlunin miðaði að því að hraða uppbyggingu á úr sér gengnum fiskiskipaflota og endurnýja fiskvinnslufyrirtæki í landinu. Samkvæmt ákveðnum reglum fengu sjávarútvegsfyrirtæki úthlutaðan kvóta gegn fyrirheitum um endurnýjun skipa og fiskvinnsluhúsa en þau hafa átt í erfiðleikum með að standa við sinn hluta áætlunarinnar á tilætluðum tíma.
Strax bar á vandræðum rússneskra skipasmíðastöðva að standa við gerða samninga á árinu 2020. Fyrr á þessu ári gáfu stjórnvöld til kynna að hugsanlega yrði lengt í tímafrestum hvað varðar nýsmíði skipa svo að sjávarútvegsfyrirtæki yrðu ekki fyrir skaða vegna rofs á samningum sem rekja má til vanefnda hjá skipasmíðastöðvum. Fyrirtæki sem hugðust nýta sér fjárfestingakvótann með endurnýjun fiskvinnsluhúsa hafa einnig staðið frammi fyrir töfum í framkvæmdum. Greint hefur verið frá því að stjórnvöld hyggist einnig koma þessum fyrirtækjum til hjálpar með því að lengja í tímafrestum um eitt ár. Vinnslufyrirtæki standa einnig frammi fyrir auknum álögum því fyrir einu ári var settur á útflutningstollur á frystar sjávarafurðir sem hafa leitt til minnkandi útflutnings og verðlækkana.