Hafrannsóknastofnun kannaði á síðasta ári hvort mögulega væri sæbjúgnamið að finna í Héraðsflóa. Notaður var sæbjúgnaplógur og reynt fyrir sér á tíu stöðvum, og fengust sæbjúgu á átta þeirra en í litlu magni að undanskildum tveimur svæðum þar sem aflinn í togi varð mestur 200 kg og 80 kg.

Hafrannsóknastofnun greinir frá þessu í skýrslu sem birt var 5. júlí síðastliðinn. Þar segir að sæbjúgun hafi verið þung og stór eða 300-500g hver einstaklingur í votvigt. Meðafli í togunum var fjölbreyttur og sums staðar töluverður, eða á bilinu 5% til 87%, en ríkjandi tegundir voru marígull, stórkrossi, holdýr og svampar af ýmsum tegundum.

Stofnunin segir ljóst að sæbjúgnaplógar geti valdið skaða á botndýrasamfélögum, enda eru þeir dregnir eftir botninum, og því mikilvægt að halda áhrifum þeirra í lágmarki, „sérstaklega á ósnortnum svæðum og þar sem viðkvæmar tegundir eða vistkerfi eru.“

Brimbútur er talinn viðkvæmur fyrir ofveiði og spila þar margir þættir í lífssögu hans inn í, svo sem lítill hreyfanleiki, hægur vaxtarhraði, seinn kynþroski og blettótt dreifing.

Sæbjúgu, eða brimbútur eins og þau nefnast einnig, hafa veiðst hér við land í nokkru magni síðan 2008, en fyrstu tilraunaveiðar hófust í Breiðafirði árið 2003. Aflinn hefur verið sveiflukenndur, varð mestur árið 2018 þegar veidd voru 5.989 tonn og varð 5.606 tonn árið 2019, en hefur verið mun minni síðustu tvö ár, eða á bilinu eitt til tvö þúsund tonn.

Veiðisvæðin hafa verið við vestan- og austanvert landið. Hafrannsóknastofnun hefur gefið út veiðiráðgjöf fyrir sæbjúgu árlega síðan 2017 fyrir skilgreind veiðisvæði.

Hafrannsóknastofnun segir engar upplýsingar til um vöxt brimbúts við Ísland og erfitt sé að aldursgreina hann „þar sem engir harðir líkamspartar með árshringjum eru til staðar líkt og í kvörnum fiska. Erlendar rannsóknir benda til þess að brimbútur sé hægvaxta tegund,“ að því er segir í skýrslunni. „Við náttúrulegar aðstæður mældist 35 mm brimbútur 107 mm að lengd eftir 40 mánuði þar sem vöxturinn var hraðastur og var þá fimm og hálfs árs, en stærstu dýrin voru þá um 120 mm lengd“.

Hrygning á sér stað að vori og við Ísland er talið að brimbútur hrygni í maí og júní við vesturströndina en júní og júlí við Austurland.