Sú yfirferð rannsóknaskipa sem nú stendur yfir hefur ekki gefið neinar vísbendingar um að eitthvað sé að bætast við þá loðnu sem þegar hefur verið mæld. Í leiðangri í byrjun janúar fundust rúmlega 200.000 tonn af kynþroska loðnu, sem hvergi dugar til þess að mælt verði með veiðum.

Leiðangur rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar og uppsjávarskipsins Polar Amaroq hefur staðið í um hálfan mánuð, en nokkra daga hafa skipin misst úr leit vegna veðurs. Polar leitaði undir Grænuhlíð í fyrradag, en Árni var við leit fyrir austan land þrátt fyrir brælu.

Því er í raun ekkert að nýtt að frétta en samráðshópur Hafrannsóknastofnunar og útgerðarinnar fundaði í gær þar sem mögulegt framhald rannsókna var rætt. Áður hafði verið ákveðið að halda áfram að vakta loðnuna í samstarfi Hafrannsóknastofnunar og útgerðarinnar, en Polar er skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

„Við erum að fara enn eina yfirferðina hérna fyrir norðan og austan, fyrir utan kantinn, og það sem við höfum séð breytir ekki miklu. Við höfum ekki séð almennilega viðbót ennþá,“ segir Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, þegar Fiskifréttir náðu sambandi við hann í gær.

„Þetta var aðallega ungloðna sem við sáum hérna vestast og meira kynþroska loðna eftir því sem þú ferð austar. Eins og við má búast svo sem. Bæði skipin hafa verið að skanna svæðið fyrir utan landgrunnsbrúnina, en við munum eitthvað kíkja meira upp á grunninn núna í kjölfarið.“