Norska ríkisstjórnin tilkynnti í byrjun mánaðar að rússneskum skipum yrði óheimilt að koma til allra hafna landsins nema þriggja, Tromsø, Kirkenes og Båtsfjord. Bannið tekur gildi á morgun, þremur dögum áður en samingaviðræður ríkjanna hefjast um fiskveiðar úr sameiginlegum stofnum í Barentshafi.

Rússnesk skip hafa fram til þess landað fiski í Noregi nánast afskiptalaust og verðmæti aflans er orðið mun meira en það var á sama tíma fyrir ári. Norðmenn grípa til þessara aðgerða í kjölfar meintra hryðjuverkaárása á Nord Stream gasleiðslurnar í Eystrasalti. Nú verður tekið upp strangt eftirlit með þeim 500 brúttótonna fiskiskipum og stærri sem koma til hafnar í Tromsø, Kirkenes og Båtsfjord og lögregla verður sýnilegri og eftirlit meira í þessum höfnum.

„Okkur er umhugað um að norskar hafnir og Noregur verði ekki miðstöð fyrir ólöglegan vöruútflutning til Noregs,“ segir Anniken Huitfeldt utanríkisráðherra Noregs.

„Þess vegna erum við að herða og auka eftirlit með rússneskum fiskiskipum. Ef þörf krefur munum við grípa til enn róttækari aðgerða,“ segir utanríkisráðherrann.

Heimilt verður að ljúka viðgerðum á rússneskum fiskiskipum sem eru í slipp í Noregi þegar reglurnar ganga í gildi. Rússneska sendiráðið í Noregi hefur lýst óánægju rússneskra stjórnvalda með ákvörðunina.