Landeldisfyrirtækið LAXEY, áður Icelandic Land Farmed Salmon, í Vestmannaeyjum hefur lokið hlutafjáraukningu að andvirði 6 milljarða króna til íslenskra fjárfesta.

LAXEY hefur hafið uppbyggingu á fiskeldisstöð í Vestmannaeyjum, annars vegar seiðaeldisstöð í Friðarhöfn og hins vegar áframeldisstöð í Viðlagafjöru. Gert er ráð fyrir að áframeldisstöðin muni framleiða um 32.000 tonn af laxi árið 2031, en nú eru framleidd á Íslandi um tvö þúsund tonn af landeldislaxi.

Áframeldisstöðin verður byggð í sex jafnstórum áföngum, en stefnt er að því að fyrsti áfangi verði tilbúinn um mitt ár 2024 og að fyrsta slátrun fari fram síðla árs 2025. Fyrsti áfangi verður einn og sér rekstrarlega sjálfbær en hver viðbótaráfangi mun auka hagkvæmni framleiðslunnar, með lægri fjárfestingarútgjöldum og rekstrarkostnaði á hvert framleitt kíló af laxi.

Öflugir kjölfestufjárfestar í Vestmannaeyjum

Fyrrum eigendur fyrirtækjanna ÓS ehf. og LEO Seafood ehf. hafa tekið þátt í verkefninu frá upphafi og verða kjölfestufjárfestar í LAXEY. Fjölskyldan hefur stundað sjávarútveg í Vestmannaeyjum í 75 ár og býr yfir verðmætri reynslu og þekkingu á matvælaframleiðslu, ásamt afar sterku orðspori.

„Við erum afar ánægð að þessum áfanga sé náð og það traust sem fjárfestar sýna LAXEY. Við höfum unnið að þessu verkefni frá árinu 2019 og sjáum mikil tækifæri í framleiðslu á íslenskum landeldislaxi í Vestmannaeyjum og sölu á alþjóðlegum mörkuðum. Í Vestmannaeyjum eru kjöraðstæður til að framleiða hágæða fiskafurðir, mikil þekking og öflugur mannauður - sem er lykilatriði í þessum geira,“ segir Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður LAXEY.

Hann segir að nú hefjist næsta skref í leit að samstarfs- og fjármögnunaraðilum á norrænum og alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Í því skyni hefur LAXEY fengið norska fjárfestingarbankann Arctic Securities til liðs við sig sem umsjónaraðila, auk þess sem Mar Advisors verða félaginu áfram til ráðgjafar varðandi uppbyggingu til framtíðar.

Einstakar aðstæður í Vestmannaeyjum

Í frétt frá LAXEY segir að notast sé við endurnýtingarkerfi á vatni í áframeldi, þar sem um 65% af sjónum eru endurnýtt en 35% eru ferskur jarðsjór sem dælt er upp úr borholum á svæðinu. Vatnshitinn sé einkar hagstæður til laxeldis.

„Í Vestmannaeyjum er til staðar gríðarleg þekking á matvælaframleiðslu og útflutningi sjávarfangs. Innviðir eru sterkir, samfélagið samheldið og mannauðurinn afar öflugur. Mikil áhersla hefur verið lögð á að vanda allan undirbúning og ítarlegt mat hefur verið unnið á umhverfisáhrifum verkefnisins. Matið hefur verið kynnt ítarlega fyrir hlutaðeigandi aðilum í Vestmannaeyjum og hlotið góðar viðtökur. Sveitarfélagið hefur sýnt verkefninu mikinn stuðning enda um mikilvæga atvinnuuppbyggingu að ræða. Þannig munu yfir 100 manns starfa hjá fyrirtækinu þegar það hefur náð fullri framleiðslugetu, auk fjölda afleiddra starfa allan ársins hring,“ segir í fréttatilkynningunni.

Verðmætasköpun á grænum grunni

Spurn eftir eldislaxi hefir farið stöðugt vaxandi í heiminum, sem skýrist m.a. af áherslu á heilbrigt líferni, stækkandi millistétt og stóraukinni áherslu á sjálfbærni í matvælaframleiðslu. LAXEY mun byggja framleiðslu sína á grænum gildum, þar sem notast er við 100% endurnýjanlega orku og úrgangur verður unninn til áburðarframleiðslu. Að auki verður áhersla lögð á að laxinn verði fluttur sjóleiðina á markað til að minnka kolefnisspor.