„Þetta er klárlega mjög stórt og ánægjulegt,“ segir Óskar Jósúason, upplýsingafulltrúi hjá Laxey, vegna umfjöllunar fréttamiðilsins Intrafish um fyrirtækið og fimm önnur erlend landeldisfyrirtæki sem sagt er áhugavert að fylgjast með í framtíðinni.
Intrafish leitaði upplýsinga hjá ýmsum landeldisfyrirtækjum og birtir svör frá sex þeirra. Þrjú fyrirtækjanna eru í Noregi, eitt í Bandaríkjunum, eitt í Japan og síðan Laxey í Vestmannaeyjum. Öll eru fyrirtækin komin mismunandi langt með starfsemi sína.
„Við erum stoltir og auðmjúkir að vera nefndir í þessari grein sem fyrirtæki í þessum iðnaði sem er vert að fylgjast með,“ segir Óskar sem kveður umfjöllunina um Laxey hjá Intrafish byggða á skriflegum svörum frá fyrirtækinu við spurningum blaðamanns fréttamiðilsins.
Margt gengið upp
Ekki kemur beint fram í greininni í Intrafish hvers vegna Laxey varð fyrir valinu.
„Þeir skoðuðu landeldisiðnaðinn og fannst þessi sex fyrirtæki standa upp úr,“ segir Óskar. Spurður hvers vegna hann haldi að Laxey lendir í þessum heiðursflokki bendir Óskar á að byrjunin hjá fyrirtækinu lofi góðu.
„Það er margt sem hefur gengið upp hjá okkur enda mikill tími farið í undirbúningsvinnu. Svo gengur uppbyggingin hjá okkur mjög hratt. Ég held að þessir tveir hlutir skipti höfuðmáli í því af hverju við erum á þessum lista,“ segir Óskar og nefnir einnig að fjármögnun vegna fyrsta áfanga liggi fyrir. „Og það eru komnir tveir öflugir hluthafar inn í þetta sem eru með góð og sterk tengsl innan þessa geira.“
Fiskeldiskerin upp í sumar
Varðandi framhaldið segir Óskar Laxey einfaldlega halda sínu striki í framkvæmdum.
„Við erum að nýta sumarið til að setja upp fiskeldiskerin úti í Viðlagafjöru og það er komin góð mynd á það. Það hafa verið settar upp fjórar miðjusúlur og það er búið að steypa í botninn á tveimur kerjum. Við munum setja fiskeldiskerin upp í sumar,“ segir Óskar.
Einnig sé lítið eftir af seiðastöðinni. Seiði hafi verið færð úr svokölluðu RAS 1 keri yfir í RAS 2 í þarsíðustu viku. Þau fari síðan er þau stækki enn frekar að lokum yfir í RAS 3, sem nú er í smíðum, áður en þau flytjast í stóru eldiskerin í Viðlagafjöru. Þar er allt á fleygiferð.
„Fyrstu fjórir tankarnir ættu að vera tilbúnir einhvern tíma í sumar og næstu fjórir í haust. Fyrsti áfangi í áframeldinu á þá að klárast á þessu ári,“ segir Óskar Jósúason.
Fyrirtækin sex sem Intrafish setur kastljósið á:
Salmon Evolution Romsdal í Noregi.
Proximar Seafood Oyama Japan.
Andfjord Salmon, Kvalnes Noregi.
Atlantic Sapphire, Flórída Bandaríkjunum.
Gigante Salmon, Lille Indre Rosoy Noregi.
Laxey, Vestmannaeyjum Íslandi.