Slippurinn í Reykjavík er líklega einn af þeim þremur stöðum í borginni sem búa yfir mestu aðdráttarafli og eru mest ljósmyndaðir af erlendum ferðamönnum. Hinir eru Hallgrímskirkja og litli álskúlptúrinn Sólfar eftir listamanninn Jón Gunnar við Sæbraut. Slippurinn á sér langa sögu sem er samofin iðnsögu borgarinnar. Þrátt fyrir háan aldur og hæsta launakostnað allra landa í Evrópu er verkefnastaða fyrirtækis sú að ekki er hægt að sinna öllum verkefnum sem bjóðast.

Stálsmiðjan var stofnuð árið 1933 af vélsmiðjunum Héðni og Hamri og var til húsa á Mýrargötu í Reykjavík. Upphaflega átti hún að vera stálsmíðahluti þessara tveggja fyrirtækja sem voru sérhæfðari í vélarviðgerðum en stálsmíði. Héðinn var í samnefndri götu sem gengur suður úr Mýrargötu og Hamar var í Tryggvagötu en flutti síðar í Borgartún.

Damóklesarsverð

„Smiðjan, sem var reist í áföngum, var á tímabili best útbúna stálsmiðjan á landinu. Svo breytast tímarnir og pólitíkin með og svo var komið að borgaryfirvöld vildu þessa starfsemi alla í burtu. Það að við skulum enn þá vera þarna á Mýrargötunni megum við eiginlega þakka fjármálakreppunni árið 2008. Okkur hafði verið gert að rífa smiðjuna okkar því þarna átti að byggja hús og leggja götur. Smiðjan stóð vestan við slippinn og á næstu lóð var áður Daníelsslippur sem er löngu horfinn. Þar sem smiðjan stóð áður er núna ómalbikað bílastæði. Á þeirri lóð hefur borgin gefið út byggingarleyfi fyrir fjölbýlishús. Leyfið er þeim annmörkum háð að ákveðið hlutfall íbúða skal vera á félagslegum grunni. Þessar byggingar hafa ekki risið enn þá. Við erum í hæsta máta ánægðir með það en það má í raun og veru segja að þetta sé Damóklesarsverð sem hangir yfir okkur enn í dag. Dagur B. Eggertsson sagði mér þó á fundi fyrir um það bil tveimur árum að hann vildi að starfsemi okkar yrði þarna áfram. Það er víst líka eindreginn vilji Faxaflóahafna og útgerðarinnar,“ segir Bjarni Thoroddsen, framkvæmdastjóri, einn sexmenninganna sem eiga jafnan hlut í fyrirtækinu. Allir starfa eigendurnir hjá fyrirtækinu að einum undanskildum. Upphaflega voru eigendurnir ellefu talsins og keyptu þeir þeir fyrirtækið rétt eftir síðustu aldamót út úr Stáltaki sem varð til við sameiningu Stálsmiðjunnar, Slippstöðvarinnar á Akureyri og Kælismiðjunnar Frosts á Akureyri árið 2000. Bjarni er menntaður verkfræðingur frá Þýskalandi og hefur starfað hjá Stálsmiðjunni frá 1974.

Í vélsmiðjunni í Vesturhrauni er eitt og annað smíðað.
Í vélsmiðjunni í Vesturhrauni er eitt og annað smíðað.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Akkilesarhællinn er stærð slippsins. Þar er ekki hægt að taka upp allra stærstu og nýjustu skipin sem smíðuð voru í Tyrklandi. Þau eru tekin upp í slippnum á Akureyri eða flotkvínni í Hafnarfirði. Engu að síður er verkefnastaðan góð. Stærstu skipin sem slippurinn ræður við eru 2.400 brúttótonn, 14,5 m á breidd og 70-80 metra löng að hámarki. Bjarni segir að þó séu stækkunarmöguleikar fyrir hendi en öll framtíðarplön þurfa að taka mið af pólitískum vilja og á hann sé í raun lítt stólandi og því óráðlegt að fara út í miklar fjárfestingar.

Skipasmíði á árum áður

Slippurinn tekur að sér öll hefðbundin verkefni og ef um stærri viðgerðir er að ræða, eins og t.a.m. á vélum eða skrúfum, er þær fluttar í vélsmiðju fyrirtækisins í Vesturhrauni í Hafnarfirði. Þar er líka plötusmíði ef skipta þarf um plötur í skipum. Smiðjan er á 2.700 fermetrum og þar er renniverkstæði og mjög stórt og vel búið vélaverkstæði sem líklega er eitt hið stærsta á landinu. Þar er einnig plötusmíði sem er ekki jafn stór og þegar sú smíði fór fram á Mýrargötunni. Þar voru meðal annars smíðaðar þrýstivatnspípur fyrir Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun og Vatnsfellsvirkjun á sínum tíma. Auk þess hefur fyrirtækið haft mörg verkefni í tengslum við gufuaflsvirkjanir og það síðasta af því tagi var Þeystareykjavirkun. Í gömlu smiðjunni voru líka smíðuð íslensk skip, eins og lóðsbáturinn Magni árið 1955, björgunar- og varðskipið Albert árið 1956, Sandey II árið 1976 og þrír 9,9 metra langir stálfiskibátar frá 1965-1974. Núna starfa 50-60 manns hjá Stálsmiðjunni-Framtak í Hafnarfirði, þ.e.a.s. í vélsmiðjunni og á skrifstofu og um 20 manns í slippnum í Reykjavík. Auk þess er dálítil starfsemi á Reykjanesi fyrir HS Orku.

Vélaverkstæðið er líklega eitt hið stærsta á landinu.
Vélaverkstæðið er líklega eitt hið stærsta á landinu.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Launakostnaður úr 40 í 60%

„Við fáum ekki lengur erlend skip vegna óhagstæðrar samkeppnisstöðu og Austfirðingarnir sigla sínum skipum til Færeyja til viðgerða og viðhalds. Siglingin til Færeyja er ekki mikið lengri fyrir þá en hingað til Reykjavíkur. Við höfum ekki heldur getað boðið betra verð en Færeyingarnir bjóða. Launakostnaður á Íslandi er allt of hár. Hann er orðinn hærri en bæði í Noregi og Sviss og er sá hæsti í Evrópu núna. Það hélt ég að myndi aldrei gerast. En það verður að segjast að íslenskir útgerðarmenn eru mjög tryggir viðskiptavinir og sjá sér auðvitað hag í því að láta þjónusta skip sín hérna svo skipin séu skemmri tíma frá veiðum.“

Verkefnastaðan er góð hjá Stálsmiðjunni-Framtaki.
Verkefnastaðan er góð hjá Stálsmiðjunni-Framtaki.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þegar Bjarni hóf störf hjá fyrirtækinu árið 1974 var efniskostnaður um 60% af rekstrarkostnaðinum og launakostnaður 40%. Nú hafi þetta alveg snúist við. Bjarni segir að lokum að þrátt fyrir góða verkefnastöðu sé talsverð samkeppni milli slippa landsins um verkefni. Fjórir stærstu slipparnir eru í Reykjavík, Hafnarfirði, Njarðvík og Akureyri og barist er um verkefnin.

Það getur verið tilkomumikið að sjá unnið við skipin í slippnum.
Það getur verið tilkomumikið að sjá unnið við skipin í slippnum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)