Verði áform íslenskra fiskeldisfyrirtækja að veruleika má búast við því að innan áratugs verði heildarframleiðslan komin yfir 200.000 tonn og þar með farin að nálgast þorskafla þjóðarinnar.

Þetta kom fram á fræðsluráðstefnu í Hörpu í lok síðustu viku, þar sem saman voru komnir fulltrúar flestra helstu fiskeldisfyrirtækja landsins. Þar á meðal ræddu Stein Ove Tveiten, framkvæmdastjóri Arctic Fish á Vestfjörðum, og Guðmundur Gíslason, framkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða, um fiskeldi í sjó og áform fyrirtækja sinna.

Stefnt er á yfir 100.000 tonna framleiðslu í sjóeldi árið 2030 en í landeldinu er reiknað með öðru eins og ríflega það.

„Okkar markmið eru að framleiða 45.000 tonn á landi árið 2032,“ sagði Jón Kjartan Jónsson framkvæmdastjóri Fiskeldis Samherja. 40 þúsund framleiðslunnar verða í nýrri landeldisstöð á Reykjanesi og koma til viðbótar við þau 5.000 tonn sem nú þegar er verið að framleiða í landeldi í Öxarfirði.

Þorlákshöfn og Eyjar

Í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum eru vel á veg komin áform um umfangsmikið landeldi.

Fyrirtækið Geo Salmo er rétt ársgamalt en er á fullri ferð við undirbúning á landeldi í Þorlákshöfn þar sem stefnan er að framleiða 24.000 tonn og starfsmenn verði um 150. Reiknað er með að kostnaðurinn verði um 50 milljarðar króna hið minnsta.

Svo sjá bæði Geo Salmo og Fiskeldi Samherja fyrir sér að nota affallið í áburð og grænmetisrækt.

Annað fyrirtæki, Landeldi ehf., stefnir á um 33.000 tonna framleiðslu í eldisstöð við Þorlákshöfn, sem skili um 30 milljörðum í útflutningstekjur á ári.

Á Reykjanesi er Matorka með bleikjueldi og stefnir á um 10.000 tonna framleiðslu á ári.

Auk þess stefnir félagið Sjálfbært fiskeldi í Eyjum að því að hefja landeldi í Vestmannaeyjum þar sem framleidd verði yfir 10.000 tonn af laxi.

  • Landeldisfrömuðir í pallborði: Ingi Karl Ingólfsson frá Landeldi, Jón Kjartan Jónsson frá Samherja, Jens Þórðarson frá Geo Salmo og Árni Páll Einarsson frá Matorku. MYND/GB

Þannig að samtals eru áform um landeldi hér upp á vel yfir 100.000 tonna framleiðslu á ári, sem yrði þá meira en þau rúmlega 100.000 tonn sem íslenskt sjóeldi stefnir í upp úr 2030, fari svo sem nú horfir.

Á síðasta ári voru framleidd nærri 45.000 tonn í sjókvíaeldi og tæp 2.000 tonn í landeldi, en aukningin í sjóeldinu undanfarin fimm ár eða svo hefur verið gríðarmikil. Árið 2015 var framleiðslan innan við 2.000 tonn þannig að hún hefur meira en tvítugfaldast síðan þá.

Laxamessa

Það var fræðslumiðstöðin LAX-inn sem stóð fyrir málþinginu. Sigurður Pétursson, stofnandi fræðslumiðstöðvarinnar, sagði tilgang ráðstefnunnar ekki síst vera þann að efna til samtals milli þeirra sem starfa í geiranum. Fyrirmyndin sé komin frá Færeyjum, þar sem reglulega er efnt til svokallaðrar laxamessu.

Bæði veðurfar og covid settu svip sinn á ráðstefnuna, því ekki gátu allir boðaðir fyrirlesarar komist til Reykjavíkur. Meðal annars komust ekki fulltrúar frá landeldinu í Vestmannaeyjum vegna covid-smits og Arnalax gat ekki sent fulltrúa á málþingið vegna veðurs fyrir vestan.

Frá Færeyjum kom Rúni Dam, sem rekur fyrirtækið Avrik, og hefur um árabil tekið saman upplýsingar frá færeyskum eldisfyrirtækjum og sett fram með aðgengilegum hætti. Hann sagði fyrirtækin sjálf hafa séð sér hag í því að afhenda honum upplýsingarnar endurgjaldslaust, en í staðinn fái þau ítarlegar skýrslur frá honum og reglulega samantekt um stöðuna. Rúni sagðist meira en reiðubúinn til þess að vinna sams konar vinnu hér á landi fyrir eldisfyrirtækin.

Í Færeyjum eru nú þrjú stór fiskeldisfyrirtæki, en um síðustu aldamót voru þau yfir 40, öll lítil í sniðum. Flest fóru þau á hausinn þegar áföll dundu yfir upp úr aldamótunum.

Mönnunarvandi

Allir ræddu þeir nauðsyn þess að fá hæft starfsfólk til fyrirtækjanna á næstu árum, þegar vöxturinn kemst á skrið. Erfitt gæti samt orðið að manna störfin í þessari nýju atvinnugrein, bæði vegna þess að hér á landi eru ekki margir með reynslu enn sem komið er og svo vantar nám fyrir þá sem hefðu áhuga á störfum í geiranum.

Landeldisfyrirtækin fjögur sögðust öll reikna með að þegar starfsemin verður komin á fullt megi búast við að starfsfólk í hverju fyrirtæki verði yfir 100 eða upp undir 150 manns. Samtals hjá þessum fjórum fyrirtækjum er því verið að tala um 500 til 600 manns.

Þannig að þeirri spurningu var varpað fram úr sal hvað fyrirtækin í geiranum geti gert til þess að tryggja að ungt fólk muni sýna þessu áhuga.

Ingi Karl hjá Landeldi benti á að þessi þróun taki tíma, fyrirtækin stækki hægt eftir því sem eldið vex an það þurfi að byrja sem fyrst á að mennta fólk., og það var hann sem stakk upp á því að eldisfyrirtækin stæðu sameiginlega að því að bjóða upp á menntaleiðir.

Ingi Karl hjá Landeldi stakk raunar upp á því að fyrirtækin hafi með sér samstarf um menntun starfsfólks, og hlaut sú hugmynd góðar undirtektir.

Hann sagði íslenska menntakerfið ekki bjóða upp á neina lausn eins og er.

Fisktækniskólinn hefur boðið upp á nám í fiskeldi og svo hefur Fiskeldisskóli unga fólksins verið starfræktur á sumrin. Arnarlax hefur einnig boðið upp á fræðslu í fyrirtækinu fyrir starfsfólk og Fiskeldi Samherja hefur sent starfsfólk sitt í skóla á Hólum í Skagafirði.